Ásta Jóhannesdóttir fæddist 8. apríl 1940 í Vestmannaeyjum. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi 30. janúar 2023.

Foreldrar Ástu voru hjónin Jóhannes Gunnar Brynjólfsson, verslunarmaður og forstjóri Ísfélagsins, f. 1908, d. 1973, og Þórunn Alda Björnsdóttir, húsfreyja, verslunar- og kaupmaður, f. 1915, d. 2012.

Systkini Ástu eru: Lára Halla, f. 1935, d. 2022, Birna Valgerður, f. 1937, d. 2019, Jóhannes Sævar, f. 1941, d. 2008, og Brynjólfur, f. 1953.

Ásta giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Adolf Bjarnasyni verslunarmanni, f. 1935, hinn 9. desember 1961. Foreldrar hans voru Bjarni Jónsson bankastarfsmaður, f. 1906, d. 1993, og Margrét Jónsdóttir húsmóðir, f. 1913, d. 1981.

Börn Ástu og Adolfs eru: 1) Gunnar Þór, f. 1962, eiginkona hans er Irina. Börn Gunnars eru Bjarni Þór, f. 1990, Daníel Þórarinn, f. 1996, og Eva Sóley, f. 1997. 2) Margrét kennari, f. 1966. Sonur hennar er Adolf Smári, f. 1993. 3) Bjarni viðskiptafræðingur, f. 1970. Eiginkona hans er Halla Dóra læknir, f. 1973. Börn þeirra eru Brynja, f. 2008, og Birta, f. 2014.

Ásta ólst upp í Vestmannaeyjum. Heimili fjölskyldunnar var fallegt hús sem hét Kirkjulundur sem foreldrar Ástu byggðu. Að lokinni skólagöngu hóf Ásta störf á símstöðinni í Eyjum. 18 ára fór hún ásamt Birnu systur sinni til Reykjavíkur þar sem þær leigðu sér herbergi á Brávallagötu og fóru í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Ári síðar fóru þær systur saman til Englands, nánar tiltekið til Bexhill on sea, þar sem þær störfuðu á heimavistarskóla eina önn.

Fyrstu búskaparár sín bjuggu Ásta og Adolf í Vestmannaeyjum en árið 1968 fluttu þau til Reykjavíkur. Eftir það bjuggu þau alla tíð í Vesturbæ Reykjavíkur. Mestan hluta starfsævi sinnar vann Ásta á göngudeild augndeildar Landakoti sem var til húsa á Öldugötu 17.

Áhugamál Ástu voru ýmsar hannyrðir eins og hekl og prjón. Einnig hafði hún gaman af lestri bóka. Jafnframt hafði hún gaman af því að ferðast bæði innanlands og erlendis.Útför Ástu fer fram frá Neskirkju í dag, 10. febrúar 2023, kl. 15.

Elsku mamma. Það er sárt að kveðja þig og erfitt að koma í orð hversu mikils virði þú hefur verið í mínu lífi. Ég man þegar ég var lítil stelpa að þá fannst mér þú vera fallegasta kona í heimi, ég átti fallegustu, bestu og góðhjörtuðustu mömmuna, ég var svo heppin. Mér líður þannig enn og þótt fegurð sé ekki mæld í útliti þá náði fegurð þín miklu dýpra. Þú varst falleg manneskja, góðhjörtuð og sterk á sama tíma. Ég man ekki til þess að þú hafir nokkurn tíma skammað mig, þú sagðir mér til á fallegan máta svo ég lærði af mistökum mínum án þess að þurfa að skammast mín. Þú varst ekki síður vinkona en mamma mín, þegar ég var flutt að heiman held ég að við höfum talast við í síma nánast daglega. Ég gat leitað til þín með allt og það var svo ómetanlegt að eiga mömmu sem var tilbúin að hlusta.

Þær voru líka svo skemmtilegar bæjarferðirnar okkar, um helgar áttum við það til að labba í bæinn, kíkja í nokkrar búðir, kannski á kaffihús eða handverkssýningu ef slíkt var í boði eða bara labba um og njóta, stundum kom pabbi með líka. Svo bættist Adolf Smári sonur minn í hópinn eftir að hann fæddist. Þú varst mér ómetanlegur stuðningur þegar ég varð mamma, þú gafst mér góð ráð án þess að vera á nokkurn hátt afskiptasöm og það voru engar reglur eða boð eða bönn varðandi barnauppeldið. Alltaf varstu tilbúin þegar ég leitaði til þín og ómetanlegur stuðningurinn sem ég fékk frá þér þegar ég var að klára námið mitt, þú hvattir mig áfram og passaðir litla strákinn minn ef ég þurfti að vinna langt fram á kvöld að lesa eða vinna í verkefnum.

Þú lést mig alltaf finna það að þú værir stolt af mér, ég bæði fann það og svo sagðir þú það líka reglulega við mig, sagðir að ég væri dugleg að spjara mig ein með strákinn minn og ég væri að gera svo góða hluti. Ég sé það núna hvað það skipti miklu máli, þótt ég hafi ekki kannski kunnað að meta það nægilega vel á þeim tíma.

Við gerðum margt saman og ferðuðumst oft til útlanda saman. Eftirminnileg er ferðin okkar þegar þú komst til mín til Sviss þegar ég var að læra frönsku. Þá fórum við líka til Verona á Ítalíu og er það ógleymanleg ferð. Alls konar uppákomur og ævintýri sem við lentum í og gátum hlegið endalaust að.

Fyrir nokkrum árum kom reiðarslagið, þú greindist með alzheimer. Þetta var mikið áfall fyrir okkur öll en mest fyrir þig. Þú tókst þessu af æðruleysi og barðist eins og hetja. Þetta var ekki jöfn barátta og sjúkdómurinn tók af þér allt sem skipti þig máli, alveg miskunnarlaust, hvert áfallið á fætur öðru. Það er samt eitt sem sjúkdómurinn náði ekki að taka af þér en það var brosið þitt bjarta og fagra. Það var hörð barátta um tíma en þú vannst þá baráttu og notaðir brosið óspart síðustu ævidaga þína. Allir sem kynntust þér tala um brosið þitt sem var einstakt.

Takk fyrir allt elsku mamma, þú munt alltaf lifa í hjarta mínu. Ég mun nota brosið mitt meira í minningu þína.

Ég elska þig.

Þín

Margrét.

Það var fallegur vetrardagur á Seltjarnarnesinu þann 29. janúar. Brimið, sem hafði öskrað á mann síðustu daga, heyrðist lágt í bakgrunni í stillunni sem ríkti þennan eftirmiðdag. Silfurgrár sjórinn dúaði spegilsléttur og Esjan, uppáhaldsfjall mömmu, var uppáklædd í vetrarbúningi sínum. Þegar inn var komið á herbergi mömmu á hjúkrunarheimilinu Seltjörn var sami taktur og úti, það var meiri stilla yfir öllu. Bæði Esjan, sem blasti við út um gluggann hjá mömmu, og mamma voru báðar tvær fallegar, hvor á sinn hátt, þennan dag.

Mamma var samt ekki á því að kveðja alveg strax og það var í anda hennar. Sterk kona sem gafst ekki upp. Límið sem hélt fjölskyldunni saman í gegnum árin með umburðarlyndi og ljúfmennsku. Nokkrum tímum eftir að mamma kvaddi þann 30. janúar brast á með blindbyl og stormi líkt og veðurguðirnir hefðu ákveðið að hella úr skálum reiði sinnar yfir örlögum hennar. Alzheimer, grimmur sjúkdómur sem rænir mann smátt og smátt allri færni. Það voru blendnar tilfinningar sem börðust um í brjósti mínu þegar leið að heimsóknum til Íslands síðustu árin. Tilhlökkun að hitta mömmu og kvíði yfir því að sjá á hvaða stað sjúkdómurinn hafði fært hana. Mamma sem hafði haft svo gaman að því að vinna í höndunum, spjalla við mann. Allt hvarf að lokum nema brosið hennar sem birtist alltaf af og til. Brosið sem flestir sem þekktu mömmu muna eftir.

„Sérðu tunglið?“ spurði mamma stundum þegar við spjölluðum í síma milli landa. Ekki bara til að hafa sameiginlegan punkt fyrir okkur að horfa á, þrátt fyrir fjarlægðina á milli okkar, heldur var hún einfaldlega heilluð af tunglinu held ég. Litafar, stærð, vaxandi, minnkandi, ...mamma tunglfari.

Elsku Margrét, takk fyrir að vera stoð og stytta mömmu síðustu árin, tala hennar máli þegar hún gat það ekki sjálf.

Nú hefst annað ferðalag hjá þér elsku mamma. Góða ferð og takk fyrir fararstjórnina fyrstu árin í mínu ferðalagi. Varla hægt að fá ljúfari fararstjóra sem gerði allt sem í hennar valdi stóð til að gera ferðina ánægjulega, fræðandi og örugga.

Bjarni Adolfsson.

Elsku amma. Ég sit við tölvuna og reyni að rifja eitthvað upp en þetta rennur allt saman. Hvað festist og hvað gleymist virðist oft tilviljunum háð. Það eina sem ég man úr ferðalaginu um Frakkland er demban sem skall á okkur í smábænum sem afi heimtaði að heimsækja. Fjölskylduferðin til London hefur þannig sömuleiðis aðeins eimast niður í eina mynd: Við sitjum á bekk í Green Park, borðum KFC og sötrum kók með röri. Hvaðan við erum að koma, hvert við erum að fara, er alveg týnt úr minninu. Ótrúlega ómerkilegt augnablik eitthvað, svona í stóra samhenginu.

Flestar minningarnar eru samt auðvitað heima hjá ykkur afa á Nesveginum. Jól, áramót, afmæli. Að koma í heimsókn á björtum sumardegi eftir að hafa veitt nokkrar marflær niðri við Síldarpoll, drekka kókómalt og gúffa í sig óhóflega mikið af ristuðu brauði – stela svo tómri sultukrukku til að góma kóngulær í – en sömuleiðis rennur þetta allt saman í eitt. Hvaða ár, hvaða mánuður. Þetta er allt á rúi og stúi.

Margar skýrustu minningarnar um þig eiga það svo sameiginlegt að ég var ekki einu sinni til er þær áttu sér stað (ef þær yfirhöfuð áttu sér stað). Ég man allt ferðalag ykkar mömmu um Sviss á níunda áratugnum. Ég var ekki fæddur þegar Týra var í fjölskyldunni, þó finnst mér eins og ég hafi séð ykkur á röltinu um Faxaskjól og ég gæti svo svarið að ég hafi tekið sporið með þér á balli í Eyjum nítján-hundruð-fimmtíu-og-eitthvað!

Ætli bragðið af öllum kræsingunum sem ég fékk í gegnum árin sé þó ekki það áþreifanlegasta sem lifir – bragð og lykt sem ég mun aldrei aftur finna. Við mamma höfum reynt okkar allra besta til að endurskapa nokkra af þessum réttum en með afleitum afleiðingum. (Ég gæfi allt fyrir soðna kjötfarsið þitt og kál með feiti, já eða væna flís af röndóttri jólaköku. Þvílíkar gersemar sem hafa tapast!) Svo virðist sem enginn í fjölskyldunni hafi lært þá list þína að sykra kartöflur – allavega hefur það sem mér hefur verið boðið síðan veikindin tóku úr þér kraftinn verið móðgandi.

Þú afsakar gleymskuna. Ég gerðist sekur um þann slæma sið barnabarna að taka ömmu minni sem órjúfanlegum hluta af lífinu. Ég hefði betur skrifað minningarnar niður í gegnum árin til að greypa þær fastar í minnið. Eitt veit ég þó fyrir víst: öll þessi brot, allar þessar glefsur héðan og þaðan – hver og ein einasta – er lituð gleði, ást og hamingju. Þú gafst mér þína bestu gjöf, skilyrðislausa hlýju, og ég vona frá dýpstu hjartarótum að ég hafi launað þér hana til baka.

Þinn

Adolf (yngri).

Eftirminnileg eru fyrstu kynni mín af Ástu mágkonu. Það var á fallegum vordegi í Skjólunum árið 1961 – ég var tólf ára. Adolf bróðir minn hafði boðað komu sína frá Vestmannaeyjum með unnustu sína. Þarf ekki að orðlengja það frekar að frá þeirri stundu sem hún sté yfir þröskuldinn í Faxaskjóli 12 átti hún hug og hjarta heimilisfólksins. Frá þessari háu, ljóshærðu 21 árs Vestmannaeyjamær stafaði glæsileiki og umfram allt góðvild. Brosið og augun hlýju og glaðværu létu engan ósnortinn. Síðar kynntist maður staðfestu hennar, þrautseigju, tryggð og samkennd með mönnum og málleysingjum og reyndar með náttúrunni allri.

Ásta og Adolf hófu búskap í Vestmannaeyjum en fluttu þaðan til Reykjavíkur og bjuggu í sambýli við foreldra mína, í Faxaskjóli, í mörg ár. Í því samneyti bar aldrei skugga á og þakka ég Ástu fyrir einstaka vinsemd og ræktarsemi við foreldra mína alla tíð. Það getur nærri að kona með svo stórt hjarta umvafði ekki einungis sína nánustu með hlýju og ástríki heldur náði það til okkar hinna sem stóðum þar nærri. Við Sigrún og dætur okkar fengum þar að njóta og minnumst hennar öll með miklu þakklæti.

Það var fjölskyldunni mikið áfall þegar Ásta greindist með alzheimersjúkdóminn fyrir nokkrum árum. Aðdáunarvert var að fylgjast með hversu Adolf og börnin önnuðust hana af mikilli umhyggjusemi, bæði á heimili þeirra og síðar á Seltjörn.

Við sendum Dolla bróður mínum, Gunnari Þór, Margréti, Bjarna og fjölskyldum þeirra hjartanlegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Ástu.

Bjarni Grétar

og Sigrún.

Ég geng eftir löngum og björtum gangi hjúkrunarheimilis á Seltjarnarnesi með dóttur mína mér við hlið. Við mætum hávaxinni og glæsilegri konu og ég heilsa henni glaðlega með nafni. Það lifnar yfir konunni, hún brosir með öllu andlitinu og hefur ekki augun af ljóshærðu stúlkunni minni. Þarna er komin Ásta Jóhannesdóttir, ömmusystir mín.

Síðustu ár hitti ég Ástu af og til á heimili hennar og Láru ömmu minnar. Ásta hafði búið þar lengur og þegar amma flutti inn fannst mér gott að vita af Ástu. Það er ekki auðvelt að skipta um umhverfi eftir að hafa búið í tugi ára á sama staðnum, hvað þá þegar heilinn er farinn að bregðast manni, en að sjá kunnuglegt andlit systur sinnar var ömmu án efa dýrmætt.

Eitt af síðustu skiptunum sem ég hitti Ástu var þegar hún sat með okkur hjónunum, börnunum okkar og Láru ömmu í stofunni. Katla púslaði með langömmu sinni en Feykir var upptekinn af Ástu frænku. Hann teygði sig til hennar og skoðaði stólinn sem hún sat í. Ásta ljómaði, spjallaði við drenginn og klappaði honum á kollinn. Hann átti athygli hennar óskipta. Þetta var falleg stund og það sást langar leiðir að Ásta tengdi afar vel við yngstu kynslóðina.

Elsku Dolli og fjölskylda. Ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur og vona að hækkandi sól færi ykkur gleði og aukinn kraft.

Lára Halla

Sigurðardóttir.