Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur Bjarnason: "Það er alltaf ögurstund þegar krabbamein ber á góma. Ég er búinn að missa of marga vini úr krabbameinum til að hafa hendur í skauti."

Eitt sinn heimsótti ég bónda í einn framdal Skagafjarðar. Bóndinn kannaðist við mig, hann hafði séð mig í sjónvarpi og vissi að ég ætti sæti á Alþingi og færi með fjárveitingavald. Hann vissi einnig að þetta sama löggjafarvald hefði einnig heimild til skattlagningar. Skattlagningu taldi hann sig engu skipta, bændur væru skattlausir. Öll skattalög væru þannig hönnuð að skattfrelsi bænda væri innbyggt. Það væri annarra stétta að greiða skatta.

Hvað skiptir bændur máli?

Bóndi taldi jafnframt tvennt skipta höfuðmáli varðandi starfsemi löggjafarsamkomunnar. Það væri að beingreiðslur til bænda væru tryggðar til langrar framtíðar. Og einnig uppbygging vegakerfis utan þjóðvegar 1. Það væru sannkölluð þjóðþrif.

Bóndi taldi sig heilbrigðismál engu skipta, nema ef vera skyldu búfjársjúkdómar. Hann kenndi sér helst meins eftir þorrablót. Sérstaklega ef aðhaldssamar prestsfrúr væru í þorrablótsnefnd.

Annars taldi bóndi mig hinn versta mann og að framdalir væru hættulegir fyrir mann eins og mig. Ferðir þar gætu skert langlífi manna af mínu tagi. Skipti þá engu þó ég væri afkomandi herra Guðbrandar í 11. lið.

Framtíð í heilbrigðismálum

Mannfjöldavísindi eru um margt merkileg. Það er ekki talningin. Hún er einföld. Það eru ályktanir sem hægt er að draga út frá talningunni. Þegar lífslíkur karla og kvenna eru áætlaðar er jafnframt verið að segja fyrir um tíðni tiltekinna sjúkdóma.

Vissulega skiptir hegðun og lifnaðarhættir nokkru um mannanna mein. Mataræði og hreyfing, reykingar og drykkja, hafa veruleg áhrif á framgang krabbameina og hjartasjúkdóma.

Á liðnum 40 árum hefur dregið úr ótímabærum dauðsföllum af hjartasjúkdómum um 80%. Sá árangur stafar af bættu mataræði, samdrætti í reykingum, auknu eftirliti með heilsufari og síðast en ekki síst af bættri meðferð vegna lyfja og árangri í skurðlækningum. Opnar hjartaaðgerðir eru ekki lengur tiltökumál.

Áætlanir um fjölda liðskiptaaðgerða eru ekki geimvísindi. Það er hægt að segja fyrir með nokkurri vissi um hve margar liðskiptaaðgerðir þarf að gera fyrir hvern árgang á næstu árum.

Vegna þeirra þátta, sem að framan eru taldir, er þess að vænta, að með öldrun eigi næstu kynslóðir gott líf fram undan.

Horfur um aukna tíðni krabbameina

Krabbameinsfélag Íslands hefur birt tölur um fjölgun tilfella krabbameina hér á landi fram til ársins 2040. Spáð er 50% fjölgun tilfella í lok spátímabilsins.

Þessar tölur eru mjög sláandi. Fjölgunin er ekki aðeins rakin til aukinnar tíðni vegna fólksfjölgunar, heldur miklu fremur vegna breytinga á aldursamsetningu þjóðarinnar.

Þessu spáir Krabbameinsfélagið og byggir á gögnum úr NORDCAN-gagnagrunni Samtaka norrænna krabbameinsskráa.

Fjölgun krabbameina hér á landi verður meiri en hjá öðrum Norðurlandaþjóðum á sama árabili. Sennilega hafa þær þjóðir farið í gegnum sama ferli og Íslendingar eiga eftir að fara í gegnum. Líkur á krabbameinum vaxa með hækkandi aldri manneskjunnar.

Þessi sannleikur er unninn upp úr gögnum í gagnagrunnum um krabbamein.

Samhliða birtingu kemur fram annar og ánægjulegri sannleikur. Hann er að spáð er auknum fjölda lifenda eftir að hafa veikst af krabbameinum.

Lækkandi dánartíðni af völdum krabbameina má meðal annars rekja til þess að greining á sér stað fyrr, fyrirbyggjandi aðgerðir eru öflugar og meðferðarúrræðin betri en áður.

Ætlanir stjórnvalda

Í maí 2016 gaf heilbrigðisráðuneytið út áætlun sem bar heitið: „Tillaga að íslenskri krabbameinsáætlun til ársins 2020“. Þessi áætlun hefur verið framlengd til ársins 2040.

Slíkar áætlanir eru góðra gjalda verðar. En þær eru vart meira en óskalistar og ekki til brúks nema þeim fylgi verulega aukið fjármagn til að takast á við nýja framtíðarsýn.

Eins og leikmaður sér fyrir sér framtíð í leit og meðferð krabbameina, þá verða engar grundvallarbreytingar. Skimanir við leit og greiningu munu að sjálfsögðu þróast og taka mið af aukinni þekkingu sem grundvallast á rannsóknum og fyrri meðferðum.

Meðferðir til lækningar krabbameina verða, sem fyrr, lyfjameðferðir, geislanir og lyfjameðferðir.

Ný lyf og ný tæki við meðferðir krabbameina eru ekki af ódýrari gerðinni. Vissulega lækkar allur kostnaður með snemmbærum greiningum og ekki síður með því að stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum einstaklinga.

Engin meðferð krabbameina getur þó tekið þá ábyrgð af einstaklingum að bera að vissu marki ábyrgð á eigin lífi.

Undirmarkmið krabbameinsáætlunar

Í „Krabbameinsáætlun“ stjórnvalda segir um undirmarkmið áætlunarinnar:

• „Landsmönnum skal standa til boða að búa í samfélagi þar sem áhersla er lögð á forvarnir með heilsueflingu og snemmgreiningu sem miðar að því að lágmarka hættuna á því að fá krabbamein og deyja af völdum þeirra.

• Landsmönnum skal standa til boða heilbrigðisþjónusta þar sem einstaklingsbundið mat er lagt á hættu á krabbameini út frá áhættuþáttum, erfðum og fjölskyldusögu.

• Landsmönnum skal standa til boða fræðsla og stuðningur heilbrigðisþjónustunnar vegna einstaklingsbundinna lífsstílstengdra áhættuþátta sem valdið geta krabbameini.

• Landsmönnum skal standa til boða skipulögð hópleit sem er byggð á gagnreyndri þekkingu um skimun krabbameina og forstiga þeirra.

• Landsmönnum skal standa til boða þjóðfélag sem leggur sitt af mörkum til rannsókna á orsökum og áhættuþáttum krabbameina.“

Ekki verður séð á fjárveitingum til heilbrigðismála að sérstakt framlag sé ætlað til að ná þessum undirmarkmiðum eða til að takast á við þá auknu tíðni, sem Krabbameinsfélagið telur að verða muni fram til ársins 2040.

Krabbameinsfélagið

Krabbameinsfélagið er frjáls félagasamtök sem er og verður aldrei í stakk búið til að takast á við þá framtíð sem spár um nýgengi gera ráð fyrir.

Félagið mun aldrei geta tekist á við lækningar. Það er hlutverk þjóðarsjúkrahúss.

Krabbameinsfélagið hefur umsjón með vísindasjóði. Hann mun aldrei geta styrkt allar nauðsynlegar vísindarannsóknir á sviði krabbameina. Vonandi tekst þó að efla getu sjóðsins á þessu ári og komandi árum. Sjóðnum er ætlað að gera ungum vísindamönnum kleift að komast að í stórum og öflugum rannsóknarhópum.

Og stuðningsfélög þeirra, sem hafa greinst með krabbamein, þurfa sitt. Og enn meira með fjölgun tilfella.

Það er alltaf ögurstund þegar krabbamein ber á góma. Ég er búinn að missa of marga vini úr krabbameinum til að hafa hendur í skauti.

Skiptir þá ekki máli hvað bændur í Skagafirði hafa til mála að leggja varðandi afdalavegi.

Óvalinn syndari

„Mér er sem ég sjái óvalinn syndara prédika yfir dómkirkjuprestinum!“ Svo kann einhver að mæla þegar óinnvígður talar um efni, sem heilbrigði er.

Höfundur var alþingismaður og er í stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins.