Svava Margrét Bjarnadóttir fæddist 16. nóvember 1956. Hún lést 21. janúar 2023. Útför hennar fór fram 9. febrúar 2023.

Elsku mamma. Ég trúi því varla að þú sért farin svona fljótt, þetta er ennþá svo óraunverulegt.

Mamma var einstök kona, bæði sterk og ákveðin og alltaf hörkudugleg og lét ekkert stoppa sig við það sem hún tók sér fyrir hendur.

Hún var alltaf fyrirmyndarhúsmóðir sem hugsaði vel um börnin og heimilið.

Heimilið var alltaf spikk og span og meira að segja rúmfötin voru alltaf straujuð áður en þau voru sett á.

Börnin voru alltaf tipptopp í hreinum og fínum fötum og hún sjálf alltaf vel til fara. Hún hugsaði vel um sig og sína.

Ástríða hennar var að sauma; hún elskaði að sauma og gat sko saumað hvað sem var.

Börnin voru í heimasaumuðum nýjustu tískufötum og hún og vinkonur hennar í glæsilegum drögtum eða kjólum sem hún hafði saumað fyrir þær.

Mamma var hlý og góð kona sem vildi allt fyrir alla gera. Það leituðu margir til hennar og hún var alltaf til staðar þrátt fyrir að hún væri sjálf í basli.

Hún var í mörg ár einstæð móðir með fjögur börn. Hún veitti þeim öruggt heimili og það var henni hjartans mál að þau ælust upp á sama stað og væru í sama skóla, sem henni tókst með ákveðni sinni og þrautseigju.

Hún seldi svo húsið fyrir tveimur árum og keypti sér fallega íbúð á Selfossi sem hún var svo ánægð með og fannst yndislegt að búa hér.

Ég er þér svo þakklát, mamma, fyrir lífið og allt sem þú kenndir mér.

Ég er þakklát fyrir vináttuna og stuðninginn sem við höfðum hvor af annarri. Ég mun seint gleyma sumrinu sem þú fluttir hingað, þú varst svo glöð og hamingjusöm.

Það er svo sárt að kveðja þig elsku mamma, minning þín lifir áfram í hjarta mínu þar til við hittumst á ný.

Ég elska þig mamma og kveð þig nú með söknuð í hjarta.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Þín dóttir,

Lilja.

Svava var amma mín og ég, Sara Lind, hennar fyrsta barnabarn.

Ég man alltaf hvað amma passaði vel upp á mig; þó svo að ég væri bara tveimur árum yngri en tvíburastrákarnir hennar þá fannst henni ég alltaf svo lítil. Hvert einasta skipti sem ég fór í heimsókn til ömmu, sem var mjög oft þar sem ég bjó rétt hjá henni, þá heyrðist alltaf út úr eldhúsinu: „Þið fylgið frænku ykkar heim strákar!“ Þá þurftu frændur mínir að passa að litla frænka kæmist heil heim, sama hversu gömul ég varð.

Ég var á sumarnámskeiði eitt sumarið með frændum mínum og amma vissi að ég vildi frekar hennar samloku en samlokuna sem ég var með í nesti þannig að amma smurði aukasamloku á hverjum degi og sendi strákana með fyrir mig. Hvert einasta skipti sem ég kom heim til ömmu var alltaf það fyrsta sem hún spurði hvort ég væri svöng og bauð mér upp á alls konar gott og oft var til besta skúffukaka í heimi sem amma bakaði. Það sem okkur systrum þótti alltaf svo vænt um voru glösin sem amma keypti sérstaklega fyrir okkur og það var ekki drukkið úr öðrum glösum þegar við vorum hjá ömmu. Svo faldi hún þau efst í skápnum á bak við alls konar dót svo enginn myndi nú nota glösin okkar og við tókum virkan þátt í að fela glösin mjög vel. En mín allra fyrsta minning af ömmu er að hún kenndi mér faðirvorið og hún var alltaf svo stolt af mér þegar ég þuldi það upp fyrir hana þegar ég kom í heimsókn. Fyrsta langömmubarnið hennar heitir Ástdís Lind og er dóttir mín, amma var svo ofboðslega stolt af henni að það skein úr augunum á henni í hvert skipti sem hún horfði á hana og þá sérstaklega þegar Ástdís var skírð í kjól sem ömmu þótti svo vænt um og amma brosti sínu blíðasta.

Við elskum þig amma og munum sakna þín sárt.

Sara Lind.

Svava systir mín er látin, 66 ára að aldri. Þegar ég sat hjá systur minni síðustu dagana á Landspítalanum, með börnin hennar allt um kring, rifjuðust margar góðar minningar upp. Svava var næstelst á eftir mér af börnum mömmu og tók ég hlutverki mínu sem stóra bróður alvarlega.

Svava systir var góð kona, dugleg og virkilega handlagin og ég minnist hennar með hlýju og væntumþykju.

Er völlur grær og vetur flýr

og vermir sólin grund.

Kem ég heim og hitti þig,

verð hjá þér alla stund.

Við byggjum saman bæ í sveit

sem brosir móti sól.

Þar ungu lífi landið mitt

mun ljá og veita skjól.

Sól slær silfri á voga,

sjáðu jökulinn loga.

Allt er bjart fyrir okkur tveim,

því ég er kominn heim.

Að ferðalokum finn ég þig

sem mér fagnar höndum tveim.

Ég er kominn heim,

já, ég er kominn heim.

Viðar Axel

og Svanhvít.