Erna Marsibil Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi kennari og skólastjóri, fæddist á Torfastöðum í Fljótshlíð 5. júní 1944. Hún lést 20. janúar 2023 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Foreldrar hennar voru hjónin Ásta Ingibjörg Árnadóttir húsfreyja, f. 23.1. 1923, d. 6.12. 2013, og Sveinbjörn Sigurjónsson bifreiðastjóri, f. 19.3. 1920, d. 17.7. 2011. Systkini Ernu: Sigurlín, f. 3.7. 1947, Árni, f. 30.8. 1950, d. 4.3. 1951, Óskar Örn, f. 3.12. 1953, d. 1.7. 1954, og Margrét Þóra, f. 22.11. 1959, d. 12.7. 1960.

Hinn 4. júní 1966 giftist Erna eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóni Sverri Garðarssyni mjólkurfræðingi, f. 24.9. 1945, frá Patreksfirði. Foreldrar hans voru hjónin Garðar Jóhannsson verkstjóri, f. 25.7. 1917, d. 16.7. 2010, og Sigrún Jónsdóttir húsfreyja, f. 8.9. 1918, d. 24.4. 1988.

Börn Ernu og Jóns eru: 1) Sveinbjörn, f. 28.8. 1965, d. 6.9. 2019, eftirlifandi eiginkona hans er Marcosa Medico, f. 25.4. 1970. Börn þeirra eru a) Carter Don, f. 2.8. 1994, b) Óskar Nikulás, f. 10.8. 2001, sambýliskona hans er Herdís Ásta, f. 21.5. 2002, c) Erna Marsibil, f. 28.10. 2003, sambýlismaður hennar er Auðunn, f. 23.2. 1999. 2) Sigrún, f. 21.9. 1970, gift Vitor Hugo, f. 16.12. 1975. Sonur þeirra er Kolbeinn Þór, f. 29.7. 1996. 3) Ásta Björg, f. 14.8. 1971, barnsfaðir hennar er Jóhann Ólafur, f. 29.11. 1963. Börn þeirra eru a) Jón Árni, f. 23.3. 1990, sambýliskona hans er Anna Soffía, f. 3.6. 1999, b) Hannes Dagur, f. 12.10. 1994, c) Björn Kristinn, f. 25.6. 2000, d) Hildur Sigrún, f. 24.8. 2002, sambýlismaður hennar er Andri, f. 13.10. 1992, e) Dagný Dís, f. 1.3. 2006. Langömmubörnin eru þrjú.

Erna gekk í barnaskólann í Fljótshlíðinni og lauk síðan landsprófi í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Leið hennar lá síðan í Kennaraskólann, og lauk hún þaðan kennaraprófi árið 1967. Árið 1983 lauk hún stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Tveimur árum seinna fékk hún inni í Danmarks Lærerhøjskole í Óðinsvéum og lauk þaðan sérkennaranámi. Hún fór síðan í meistaranám í Kennaraháskóla Íslands og lauk M.Ed.-gráðu í uppeldis- og kennslufræðum með áherslu á stjórnun árið 2001.

Stærstan hluta starfsævinnar starfaði Erna við kennslu og stjórnun. Á árunum 1968-1970 starfaði hún sem kennari í Hússtjórnarskólanum á Blönduósi. Öll árin (1973-1995) á Patreksfirði starfaði hún sem kennari í grunnskólanum og síðar (1990) sem skólastjóri. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur starfaði hún sem kennari og skólastjóri í Langholtsskóla. Einnig tók hún að sér verkefni fyrir menntamálaráðuneytið. Um áramótin 2001-2002 tók hún við stöðu skólastjóra í Gerðaskóla í Garði. Þá starfaði hún tímabundið hjá sveitarfélaginu Garði.

Útför hennar verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag, 10. febrúar 2023, klukkan 12.

Í dag, kveð ég hana móður mína, Ernu Marsibil Sveinbjarnardóttur. Orð á blaði virðast fátækleg, en minningarnar á ég margar og þær mun ég varðveita.

Árið 1973 fluttist fjölskyldan til Patreksfjarðar, þar sem mamma og pabbi áttu afar góð tuttugu og tvö ár. Mamma sem kennari, síðar skólastjóri, í grunnskólanum og pabbi sem mjólkurbússtjóri. Menntun skipti mömmu miklu máli. „Menntun er máttur“ sagði hún. Börnin hennar nutu góðs af því að hafa kennara á heimilinu sem gat aðstoðað þau við heimanámið. Þegar unglingurinn ég nennti t.d. ekki að lesa fyrir sögupróf, las hún bókina inn á kassettu svo ég gæti bara hlustað á fróðleikinn. Síðar nutu svo barnabörnin aðstoðar hennar við námið. Aldrei komu þau að tómum kofanum hjá henni. Hún bauð þeim upp á heimanámsaðstoð og hjálpaði þeim við ritgerðasmíð, alveg sama hvort þau voru á grunnskóla-, menntaskóla- eða háskólastigi. Hún kynnti sér efnið sem ritgerðin átti að fjalla um svo hún gæti hjálpað þeim sem best.

Mamma var hagleikskona í hvers konar hannyrðum. Hún kenndi meðal annars handavinnu í grunnskólanum á Patreksfirði, auk þess sem hún hélt námskeið í fatasaumi. Áður en ég byrjaði í grunnskóla fékk ég stundum að fara með henni í kennslustund. Þar kenndi hún mér að prjóna. Husqvarna-saumavélin og Burda-saumablöðin voru vel notuð hjá mömmu. Þegar dætur hennar voru táningar og vildu flíkur eins og í tískublöðunum, saumaði hún þær fyrir okkur. Með efni, tvinna, málband og að sjálfsögðu Husqvarna að vopni, saumaði hún svo brúðarkjólinn minn, daginn fyrir brúðkaupið.

Árið 1995 fluttu mamma og pabbi til Reykjavíkur og síðan í Garðinn, áramótin 2001-2002 og hafa þau búið þar síðan. Ég varð eftir á Patreksfirði, enda búin að stofna fjölskyldu. Ófáar voru ferðirnar okkar til þeirra og þau voru mjög dugleg að koma vestur til okkar. Það var svo haustið 2005 sem ég og fjölskyldan fluttum suður með sjó til að vera nær þeim.

Mömmu og pabba þótti afar ánægjulegt að ferðast jafnt innan- sem utanlands. Þau flökkuðu mikið á húsbíl innanlands og oftar en ekki fengu barnabörnin að koma með í ævintýraferð. Einnig buðu þau barnabörnunum með sér í utanlandsferðir.

Mamma hafði alla tíð gaman af lestri góðra bóka, fræðibóka, skáldsagna og ljóðabóka. Á heimili hennar og pabba eru bókahillur fullar af bókum og á náttborðinu hennar mömmu var ekki bara ein bók heldur margar. Hún hafði líka gaman af að lesa fyrir barnabörnin og fræða þau í leiðinni. Elsta barnabarninu kenndi hún að lesa áður en hann byrjaði í grunnskóla. Mamma var líka góður penni. Hún skrifaði ritið Mjólkurfræðingafélag Íslands, saga 1990 til 2020 og félagatal, ásamt systur sinni. Einnig skrifaði hún og yngsta barnabarnið hennar Dagný Dís, barnabókina Vinátta án landamæra, sem gefin var út í nóvember sl. Falleg samvinna þar á ferð og minning sem mun lifa.

Hafðu þökk

Þín gullnu spor

yfir ævina alla

hafa markað

langa leið.

Skilið eftir

ótal brosin,

bjartar minningar

sem lýsa munu

um ókomna tíð.

(Hjartalag)

Þín dóttir,

Ásta Björg.

Þær eru ófáar minningarnar og gæðastundirnar sem koma upp í hugann, nú þegar ég kveð elskulegu Ernu ömmu mína. Það er erfitt að hugsa til þess að geta ekki lengur notið nærveru hennar og hlýju, enda þótti mér fátt annað yndislegra en að heimsækja ömmu. Erna amma var kennari af guðs náð. Hún kenndi mér svo margt, allt frá því að læra stafina þegar ég var þriggja ára, til góðra gilda lífsins. Ég get ekki annað en minnst á þorpið og fjörðinn fyrir vestan þegar ég hugsa til ömmu. Hvort tveggja átti djúpan stað í hjörtum okkar beggja og þótti okkur einstaklega vænt um fallega fjörðinn fyrir vestan. Amma sagði mér oft söguna af því þegar hún og afi komu á sjúkrahúsið á Patró daginn sem ég fæddist. Barnsgráturinn ómaði um allt sjúkrahúsið og fæðingarlæknirinn sagði við ömmu og afa þegar þau gengu inn á sjúkrahúsið að ég yrði sennilega söngmaður eins og afinn. Látum orð læknisins liggja milli hluta, en ömmu þótti þessi saga alltaf skemmtileg. Amma og afi fluttu til Reykjavíkur um það leyti sem grunnskólaganga mín hófst. Alltaf þegar við fjölskyldan komum til Reykjavíkur gistum við hjá ömmu og afa í Álfheimunum. Einnig man ég hvað mér þótti gaman þegar amma og afi komu vestur í heimsókn meðan við bjuggum þar. Þá gistu þau yfirleitt á Hól og þar voru gæðastundir meðan amma og afi dvöldu fyrir vestan. Seinna lá leið ömmu og afa suður með sjó í Garðinn og sömu leið fóru ég og fjölskylda mín sumarið fyrir síðasta veturinn minn í grunnskóla. Amma var þá skólastjóri Gerðaskóla og þótti okkur systkinunum mikilvægt að sýna af okkur einstaklega góða hegðun. Tel ég að prúðmennskan hafi gengið nokkuð vel. Amma var einstaklega góð kona og lifði eftir góðum gildum. Fjölskyldan var henni afar kær og dýrmæt. Það var ömmu mikið hjartans mál að öllum hennar nánustu liði vel og yndu sér í leik og starfi. Sérstaklega var henni mikið í mun að börn sín og barnabörn næðu sér í menntun og þótti henni alltaf gaman að sjá þegar góðar einkunnir komu í hús. Amma var alltaf boðin og búin að aðstoða okkur barnabörnin við heimanám og ritgerðarskrif. Og ekki var verra að eiga ömmu sem talaði og skrifaði góða dönsku. Ömmu þótti gaman að ferðalögum og ferðuðust hún og afi um landið þvert og endilangt á húsbílnum sínum. Oft fengum við barnabörnin að koma með í slíkar ferðir. Ég minnist skemmtilegrar ferðar með ömmu og afa á húsbílnum norður á Dalvík á Fiskidaginn mikla. Ferðalög erlendis voru líka farin. Þegar ég fór í skólaferðalag til Danmerkur var amma með sem ein af starfsfólki skólans. Mér þótti gaman að hafa ömmu með í þessu ferðalagi. Sumarið 2019 var farið í ferðalag til Danmerkur með ömmu og afa, og vorum við fjögur af barnabörnunum með í för. Það var einstaklega skemmtileg ferð og amma fræddi okkur um Danaveldið og sögurnar frá námsárum hennar og afa í Danmörku.

Elsku amma. Þú átt alltaf eftir að eiga stóran stað í hjarta mér. Takk fyrir allar góðu stundirnar og takk fyrir alla þá hjálp sem þú veittir mér á erfiðum stundum. Guð blessi þig, elsku amma.

Jón Árni

Jóhannsson.

Í dag, 10. febrúar, fer fram í Keflavíkurkirkju útför systur minnar Ernu Marsibil Sveinbjarnardóttur. Hún fæddist á Torfastöðum í Fljótshlíð hinn 5. júní 1944, fyrsta barn foreldra okkar. Næst fæddist ég og síðan þrjú yngri systkin sem öll dóu á fyrsta aldursári. Því hvíldi sorg yfir bernskuheimili okkar sem þó einkenndist af mikilli ást og umhyggju.

Hún Erna systir mín var alltaf að passa mig, óttaðist að ég færi mér að voða eða eitthvað kæmi fyrir mig, og að ég mundi líka deyja eins og bræður okkar og systir. Þegar ég fór í mína fyrstu Reykjavíkurferð tveggja ára hljóp ég út á götu á Hverfisgötunni og var naumlega bjargað frá bílunum. Þetta sat alla tíð í stóru systur.

Margs er að minnast frá uppvextinum, líka á léttum nótum. Á Torfastöðum var fimmbýli og margir krakkar, sérstaklega á sumrin þegar borgarbörnin voru send í sveit. Þar var því líf og fjör. Erna systir mín var dugleg að sauma og einu sinni saumaði hún rússneska fánann sem hún, ásamt tveimur strákum, dró að húni hjá góðum nágranna sem var orðlagður sjálfstæðismaður og mjög á móti Rússum. Hann varð furðu lostinn og þetta var mikið rætt. En engum datt í hug að Erna, þessi prúða stúlka, hefði átt hlut að máli. Eins var hún snjöll að koma öskupokum á virðulega eldri bændur sem voru mjög á varðbergi gagnvart okkur krökkunum á öskudaginn.

Þegar við vorum sjálfar farnar að búa og búnar að eignast börn styrktust böndin enn og oft vorum við að passa hvor fyrir aðra. Við töluðum mikið saman í síma alla tíð því yfirleitt bjuggum við hvor í sínum landshlutanum eða hvor í sínu landinu. Þegar við síðar eignuðumst barnabörn fylgdumst við vel með fjölskyldum hvor annarrar, tilbúnar að aðstoða ef á þurfti að halda. Þær eru ófáar lopapeysurnar sem Erna hefur prjónað á barnabörnin mín.

Ég veit ekki um neina ömmu sem hefur aðstoðað barnabörnin sín við heimanám eins vel og hún systir mín gerði. Hún fylgdist vel með þeim og þau áttu að koma til hennar í aðstoð hvenær sem þeim hentaði eftir skóla. Þá skipti engu hvort það væri kvöldmatartími, fréttatími sjónvarps eða einhver að hringja í hana. Hún var upptekin, því þetta var í forgangi alla daga. Þannig var það hjá öllum gegnum allan grunnskólann, framhaldsskólann og jafnvel upp í háskóla. Einnig lagði hún þeim lífsreglurnar og þau gátu alltaf leitað til hennar um ráð.

Erna systir mín hætti aldrei að passa mig. Þegar maðurinn minn dó fyrir 12 árum fylgdist hún enn betur með mér en áður. Hún vissi að ég var mjög oft ein að keyra, stundum í vondu veðri og þá fylgdist hún alltaf með hvort ég hefði komist alla leið á áfangastað. Við rifumst aldrei en við hlógum mjög oft saman, jafnvel af litlu tilefni.

Ég mun sakna hennar systur minnar um ókomna tíð. Nú þarf ég kannski að fara varlegar en áður svo ég fari mér ekki að voða.

Ég sendi innilegar samúðarkveðjur til Jóns Sverris Garðarssonar, eiginmanns Ernu, Sigrúnar dóttur þeirra og fjölskyldu hennar, Ástu dóttur þeirra og fjölskyldu hennar og Cosu tengdadóttur þeirra og fjölskyldu hennar.

Sigurlín

Sveinbjarnardóttir.

Nú hefur Erna Marsibil Sveinbjarnardóttir, mágkona mín, kvatt þessa jarðvist og langar mig að minnast hennar með nokkrum orðum. Þegar ég var sjö ára gamall þá kom Erna Marsibil inn í líf mitt þegar hún kynntist Jóni Sverri, bróður mínum. Erna var mér, og þeim sem henni kynntust, góð fyrirmynd. Hún var blíð og hjálpsöm þeim sem til hennar leituðu. Það er hægt að segja frá mörgum góðum minningum frá liðnum 60 árum enda af mörgu að taka. Þær voru margar, heimsóknirnar sem ég fór til hennar og Jóns á ýmsa staði sem þau bjuggu á. Erna og Jón eignuðust þrjú börn, Sveinbjörn, f. 28.8. 1965, d. 6.9. 2019, Sigrúnu, f. 1970, og Ástu, f. 1971.

Þegar Erna og Jón bjuggu á Ólafsfirði var ég þar í heimsókn í stuttan tíma. Erna var á fæðingardeildinni á Akureyri um haustið og þá þurftum við Jón að aka á gamla Moskwitchnum Ó32 um Ólafsfjarðarmúlann oft og mörgum sinnum til Akureyrar og þá ekki í besta færinu en Sigrún fæddist á Akureyri. Ári seinna fæddist svo Ásta Björg á Ægisgötu 19 á Ólafsfirði.

Erna var menntuð sem kennari og starfaði um skeið á Blönduósi 1968-1970. Þau fluttu í Borgarnes 1972, bjuggu þar um skeið og fluttu síðan í Sólheimatungu. Árið 1973 fluttu þau til Patreksfjarðar, þar sem Erna var kennari og síðar skólastjóri. Það var alltaf gaman að koma á Patreksfjörð, gamla heimabæinn sinn, til þeirra. Þau tóku alltaf svo vel á móti öllum sem komu.

Þegar Erna og Jón fluttu til Reykjavíkur í Álfheima 64, árið 1995, fékk Erna starf sem sérkennari og síðan skólastjórastöðu í gamla skólanum mínum, Langholtsskóla. Árið 2001 fluttu þau hjónin í Suðurnesjabæ (Garð) þar sem Erna starfaði sem skólastjóri í Gerðaskóla fram að starfslokum. Hún starfaði við sérkennslu eftir að hún hætti sem skólastjóri um nokkurra ára skeið og var formaður Hollvina Unuhúss frá 2011-2022.

Við eigum margar góðar og hlýjar minningar um húsbílaferðalög um Ísland. Erna og Jón á húsbílnum Hóllinn og við á Maístjörnunni. Við fórum nokkrum sinnum til Kaupmannahafnar, þar sem Jón og Erna voru á heimavelli, enda höfðu þau búið þar. Ekki má gleyma ferðum okkar til Spánar þar sem við ferðuðumst um áhugaverð svæði í Orihuela Costa.

Hér er stiklað á stóru. Erna Marsibil var orkumikil þótt hún væri komin á síðustu metrana. Nú fyrir þessi jól kom út barnabókin Vinátta án landamæra sem hún og barnabarn hennar, Dagný Dís Jóhannsdóttir, gáfu út. Síðustu dagana hafði ég tækifæri til að heimsækja hana á sjúkrahúsið í Keflavík. Erna var mjög skýr á öllum sviðum og gat rætt um gamla tíma. 14. janúar horfðum við saman á HM í handbolta, Ísland-Ungverjaland.

Guð blessi minningu Ernu Marsibil og styrki ykkur öll í sorginni. Erna var ávallt að hugsa um fólkið sitt.

Sorg og söknuður er í hjörtum okkar, sem vorum samferða öll þessi ár, elsku Erna okkar.

Guðjón Steinar

og Guðlaug.

Vinátta er eitt af því fallegasta sem þú getur eignast og eitt af því besta sem þú getur orðið.

Vinur er lifandi fjársjóður og ef átt einn slíkan, þá áttu eina verðmætustu gjöf lífsins.

Vinur er hönd sem heldur í þína, sama hver þú ert, sama hve langt eða stutt er á milli ykkar.

Vinur er tilfinning um eilífa tryggð.

Vinur er það besta sem þú getur eignast

og það besta sem þú getur orðið.

(Valgarður Einarsson tók saman )

Erna var mér þetta allt og miklu meira til frá því við kynntumst fyrir rétt rúmum 40 árum og til seinustu daga. Við vorum trúnaðarvinkonur og leituðum hvor til annarrar með nánast allt milli himins og jarðar og alltaf fannst okkur við fara betri til baka og léttari í hjarta þegar þannig stóð á og einnig þegar við vildum deila ánægju, gleði og sigrum, jafnt okkar eigin eða barna okkar og barnabarna. Og báðar fundum við til stolts í hjarta þegar afkomendum okkar varð ágengt á þeirra lífsins braut. Við deildum mörgum áhugamálum og höfðum svipaðar lífsskoðanir og gátum spjallað um hugðarefnin tímunum saman ef því var að skipta.

Báðar höfum við á þessum 40 árum flust búferlum milli landshorna eða yfir hafið um tíma en alltaf héldum við sambandi og höfðum stundum orð á því hvað það væri gott að hvorki tími né vegalengd breytti nokkru um vináttuna, hún þroskaðist bara eins og gott vín.

Við kynntumst á Patreksfirði en kveðjumst hér í Garðinum um stundarsakir en vináttan eyðist aldrei því „samband sálna úr mismunandi heimum getur orðið mjög persónulegt“ (Una Guðmundsdóttir) og við hittumst á ný handan þessa lífs og tökum upp þráðinn rétt eins og áður þegar tími eða rúm höfðu áhrif á tíðni hittinga. Þangað til reyni ég að bera höfuðið hátt og geri mitt besta til að feta í fótspor Ernu sem formaður Hollvinafélags Unu Guðmundsdóttur og vona að mínar tær nálgist einhvern tíma þann stað sem Erna hafði hælana í þeim efnum.

Fjölskyldu Ernu lít ég á sem viðbótarfjölskyldu og umvef þau eins og mér er unnt í sorg sinni.

Guð gefi ykkur öllum styrk.

Ásta Óskarsdóttir.

Elsku Erna mín, í fáum orðum sem koma hér á eftir mun ég minnast þín og geyma með mér. Þín verður minnst fyrir frumkvöðlastarf, dugnað, heiðarleika, ábyrgð, framsýni og réttsýni, hugrekki, kjark, skipulag, áræði, vinnusemi, fyrirhyggju, framkvæmdir, sem öflugur leiðtogi, lífsgleði, dug og þor, kærleik, spaugsemi, rólyndi, fyrir góða og gefandi nærveru en umfram allt minnist ég þín fyrir einlæga vináttu okkar í rúmlega tuttugu ár eða allt frá því þú komst til starfa í Gerðaskóla.

Elsku Jón minn, mínar innilegustu samúðarkveðjur til þín og fjölskyldunnar. Minning um einstaka Ernu lifir í hjarta okkar.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Jónína Holm.

Kær vinkona og samstarfskona er látin og vil ég minnast hennar með nokkrum orðum.

Það var mikið happ fyrir Gerðaskóla þegar Erna Marsibil var ráðin í stöðu skólastjóra um áramótin 2002-2003. Hún hafði víðtæka þekkingu og reynslu í kennslu og skólastjórnun. Mér líkaði strax vel við Ernu og sýn hennar á skólastarfið. Undir hennar stjórn var hafist handa við að gera skólann umhverfisvænan og vinna að því að fá grænfánann, sem okkur tókst með sóma.

Erna var hugmyndarík og fylgin sér á mjög hógværan hátt svo auðvelt var að hrífast með henni. Hún stóð að stofnun Norræna félagsins í Garði árið 2007 og var formaður þess frá 2011 til 2019.

Árið 2017 stóð Erna að stofnun Suðurnesjadeildar U3A og var þar áhugasöm og virk í starfinu eins og henni var líkt. Erna fékk þá hugmynd að vera með ritunarhóp í U3A sem vann að skapandi skrifum. Hópurinn afrekaði það að skrifa saman sögu sem kom út í bók í maí 2020. Bókin nefnist Saga án titils og var gefin út í fáeinum eintökum þátttakendum til gamans.

Erna gekk í kvenfélagið Gefn í Garði og vann að þeim verkefnum sem þar voru unnin hverju sinni og ég veit að henni þótti vænt um félagið og vildi láta gott af sér leiða.

Eitt stærsta verkefnið sem Erna tók að sér hér í Garðinum var formennska í Hollvinafélagi Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst. Þar nutum við krafta hennar og velvilja. Hún vann að því að leita styrkja til endurbyggingar Sjólystar, húss Unu, og lifði það að sjá húsið verða að fallegum og notalegum minningarstað um Unu, sem var frænka Ernu og henni mjög kær. Erna var enn með hugann við starfsemina í Sjólyst þótt hún væri orðin mikið veik og hafði nýlega sótt um styrk til að undirbúa kennsluverkefni sem fyrirhugað er að vinna með Gerðaskóla.

Erna var driffjöðrin í því að endurútgefa bókina um Unu, Völvu Suðurnesja eftir Gunnar M. Magnúss sem kom út í 3. útgáfu 2021. Einnig valdi hún úr bókinni viskuorð Unu sem prentuð voru á spjöld og gefin út 2022. Ég veit að fólk sem hefur eignast stokk með þessum viskuorðum kann að meta þau.

Á einu spjaldinu eru þessi orð Unu: „Það er líf eftir þetta líf og við dauðann höfum við aðeins vistaskipti en hverfum ekki af sviði lífsins.“

Það er alveg víst að minningar okkar um Ernu Marsibil lifa með okkur um ókomna tíð.

Erna var mjög bókhneigð og var ein þeirra sem stofnuðu leshópinn Unu sem starfað hefur hér í rúm sjö ár. Nafn hópsins er til heiðurs Unu í Sjólyst sem var fyrsti bókavörður á Suðurnesjum, en bókasafn Ungmennafélagsins Garðars var starfrækt uppi á lofti á heimili Unu í Sjólyst í mörg ár.

Ég er innilega þakklát fyrir allt okkar samstarf og vináttu sem yljar mér um hjarta á kveðjustundu.

Við Jói sendum Jóni eiginmanni Ernu og fjölskyldu þeirra innilegar samúðarkveðjur og biðjum Guð að blessa þau og styrkja.

Kristjana H.

Kjartansdóttir.

Látin er Erna Marsibil, skólasystir okkar og kær vinkona.

Það var haustið 1963 að við, þessi hópur, hófum nám við Kennaraskólann. Þar var lagður grunnur að lífsstarfi okkar flestra og þá skapaðist sú vinátta og samheldni sem hefur fylgt okkur síðan. Hópurinn náði fljótt saman, kannski var það hversu ólíkar við vorum, á mismunandi aldri og víðar að af landinu en höfuðborgarsvæðinu og því með ólíkan bakgrunn. Úr varð saumaklúbburinn Flækjan sem við stofnuðum 1963.

Við hittumst einu sinni í mánuði yfir vetrartímann, öllu er raðað skipulega niður og flestar mæta með handavinnu með sér, jafnvel þær sem varla kunnu að fitja upp en prjóna sér nú til hugarhægðar. Mörgum hagnýtum ráðum um allt slíkt handverk hefur verið miðlað á þessum samverustundum, oft fylgja skarpar hlátursrokur með og víst er að við eigum eftir að sakna sárlega hlátursins hennar Ernu, hann var svo dillandi og smitandi!

Flækjurnar ferðuðust saman nokkrum sinnum og lánaði Erna þá hann Jón sinn sem einkabílstjóra á lítilli rútu og í lok ferða var hann að sjálfsögðu orðinn „Jón okkar“, ótrúlega þolgóður að umbera þennan hressa hóp.

Höfum við heimsótt söfn og menningarlegar byggingar í þessum ferðum og eitt sinn var heimsókn til Birmingham þar sem ein okkar bjó. Við þáðum líka gestrisni Ernu og Jóns í sumarbústaðnum þeirra í Fljótshlíðinni.

Þakklátar erum við fyrir allar þær minningar.

Ernu var umhugað um börn og menningu og var bæði kennari og skólastjóri á nokkrum stöðum á landinu. Nú síðast í Garðinum á Reykjanesi. Eftir að hún hætti störfum vann hún að barnabók ásamt Dagnýju Dís Jóhannsdóttur og Auði Elínu Sigurðardóttur og heitir bókin Vinátta án landamæra og er komin út. Hún ritstýrði enn fremur bók, ásamt systur sinni Sigurlín Sveinbjarnardóttur, um Mjólkurfræðingafélag Íslands.

Erna hafði brennandi áhuga á félagsmálum í sínu nærumhverfi hverju sinni og sat í stjórn ýmissa félaga.

Hún var framkvæmdasöm og eitt sinn er ein úr hópnum okkar átti leið á Patreksfjörð og leit inn til Ernu og Jóns í kaffi og gleðispjall þá kom upp sú hugmynd hjá þeim stöllum að kaupa vel þykka og vandaða fundargerðabók og láta hana ganga á milli okkar í Flækjunni. Þar átti hver og ein að skrifa sitt æviágrip. Þetta var árið 1991 og nú erum við byrjaðar aðra umferð um ævi okkar á seinni stigum og er þetta orðin söguleg bók og hin skemmtilegasta aflestrar.

Fram undan er ferðalag í tilefni af 60 ára vináttu á þessu ári, sem Erna minnti okkur á. Sú ferð verður farin án okkar kæru Ernu og hennar verður sárt saknað.

Hugheilar samúðarkveðjur til eiginmanns, barna, systkina og fjölskyldna.

F.h. bekkjarsystra úr Kennaraskólanum,

Ingunn Erna

Stefánsdóttir.

Í Garðinum hvílir lítið timburhús sem ber nafnið Sjólyst. Húsið stendur á sjávarbakka við Gerðavörina, byggt 1890. Húsið hefur því séð tímana tvenna. Una Guðmundsdóttir, stundum nefnd Völva Suðurnesja, bjó þar í liðlega hálfa öld. Fjölmargir hafa velvilja til Sjólystar, bæði vegna Unu og svo er húsið sjálft verðugur fulltrúi húsagerðar fyrri tíma. Svo var komið að húsið stóð höllum fæti, þurfti endursmíði. Hópur fólks tók saman höndum og myndaði Hollvinafélag um Unu og Sjólyst. Bæjarfélagið studdi vel við verkefnið, sem tók góðan áratug. Nú stendur húsið Sjólyst endurgert og þar er minning um Unu varðveitt og húsið sjálft sýningargripur. Erna Marsibil var formaður Hollvina 2013-2021 sem var endurgerðartími hússins. Þar naut verkefnið einstakrar handleiðslu. Erna var þaulvön stjórnun sem skólastjóri og kunni á kerfi regluverks og fjármögnunar. Hún var þolinmóð, ráðagóð og fylgin sér frá upphafi verks til loka. Eftir að framkvæmdum lauk og Hollvinir tóku við rekstri hússins hefur verið efld þar menningarstarfsemi, sem Erna leiddi á veg. Endurgerð hússins og endurvakning menningarstarfs í Sjólyst er því jafnframt minnisvarði um velvilja og dugnað Ernu Marsibil Sveinbjarnardóttur. Hollvinir áforma að hafa svolítinn minningarstað í húsinu um Ernu sem þakklæti fyrir að menningarhúsið Sjólyst er nú ferðafært til minnis um svo margt sem þar var.

Megi Erna Marsibil í friði fara, minning um starf hennar lifir í menningarlífi Sjólystar.

Fyrir hönd stjórnar Hollvinafélags Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst,

Hörður Gíslason.

Nú kveðjum við mágkonu mína Ernu Marsibil sem var gift bróður mínum, Jóni Garðarssyni. Ernu hef ég þekkt síðan hún kom með Nonna á heimili okkar á Hjallavegi 10 hér í bæ. Ég var aðeins þriggja ára þegar Erna kom inn í fjölskylduna. Erna var kennari og mest þó skólastjóri á Patreksfirði, í Langholtsskóla og í Garði þar sem þau áttu heima ásamt börnum sínum, Sveinbirni, Sigrúnu og Ástu. Ég var svo heppinn að unglingsárin voru frábær. Ég var öll sumur hjá þeim. Við bræðurnir sex fórum oft í útilegu og voru það skemmtilegir tímar. En stundum fer ekki allt eins og við viljum. Fyrir rúmum þremur árum lést Sveinbjörn sonur þeirra og voru erfiðir tímar sem þau hjón tókust á við.

Ég votta fjölskyldunni, sem átti ekkert nema góða tíma með Ernu, samúð mína.

Við sendum bestu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar. Guð blessi ykkur öll.

Vignir Ingi

Garðarsson.