Kansas City Patrick Mahomes, leikstjórnandi Kansas City Chiefs, hefur kastað fyrir 41 snertimarki og 67% sendinga hans í ár hafa heppnast.
Kansas City Patrick Mahomes, leikstjórnandi Kansas City Chiefs, hefur kastað fyrir 41 snertimarki og 67% sendinga hans í ár hafa heppnast. — AFP/Kevin C. Cox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ofurskálarleikurinn í NFL-ruðningsdeildinni fer fram í Phoenix í Arizona-eyðimörkinni á morgun. Tvö af bestu liðunum á keppnistímabilinu, Kansas City Chiefs og Philadelphia Eagles, berjast um titilinn að þessu sinni

NFL

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Ofurskálarleikurinn í NFL-ruðningsdeildinni fer fram í Phoenix í Arizona-eyðimörkinni á morgun. Tvö af bestu liðunum á keppnistímabilinu, Kansas City Chiefs og Philadelphia Eagles, berjast um titilinn að þessu sinni.

Bæði þessi lið hafa unnið titilinn á undanförnum árum (Chiefs 2020 og Eagles 2018), og ættu flestir leikmenn þeirra að vera vanir öllu því umstangi sem er í kringum leikinn.

Tvær vikur líða frá undanúrslitaleikjunum tveimur til úrslitaleiksins sjálfs og í millitíðinni hafa hundruð fréttafólks og óteljandi myndavélar umkringt leikmenn fyrir og eftir æfingar liðanna fyrri vikuna. Liðin fljúga síðan til borgarinnar þar sem leikurinn fer fram og þá mæta þeir þúsundum fréttafólks og jafnvel enn fleiri myndavélum!

Gjörólíkt umstang

Allt þetta umstang er gjörólíkt því sem leikmenn eiga að venjast á öðrum hluta keppnistímabilsins. Leikmenn sem hafa leikið í þessum úrslitaleik hafa oft haft á orði að ef leikmenn hafa ekki farið í gegnum þessa reynslu, gæti verið erfitt að vita hvaða áhrif þessi ólíki undirbúningur hafi á það hvernig þeir bregðist við þegar leikurinn hefst.

Þar að auki er hálfleikurinn þrisvar sinnum lengri en í venjulegum leikjum þar sem meiriháttar tónleikar fara nú fram í hálftíma. Í þetta sinn stígur sjálf Rihanna á svið og bíða víst margir eftir tónleikum hennar.

Tvö sterk lið

Lengi framan af deildarkeppninni veðjuðu margir sérfræðingar á að Buffalo Bills yrði hlutskarpast í Ameríkudeildinni, en eftir að úrslitakeppnin hófst og Cincinnati Bengals rúlluðu þeim upp í annarri umferðinni í snjónum í Buffalo, töldu flestir þeirra að fátt gæti komið í veg fyrir að liðið kæmist í úrslitaleikinn. Íslandsvinurinn og leikstjórnandi Kansas City Chiefs, Patrick Mahomes, fékk víst ekki þær fréttir.

Í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar fyrir tveimur vikum síðan haltraði Mahomes, sem hafði snúið sig illa á ökkla vikuna áður, í gegnum leikinn á heimavelli gegn Cincinnati. Chiefs unnu leikinn nokkuð óvænt um leið og tíminn rann út með vallarmarki, 23:20. Mahomes er án efa besti leikstjórnandinn í deildinni – sem hann sýndi í þessum leik, haltrandi um völlinn. Mahomes hefur reyndar verið besti leikmaðurinn í NFL-deildinni undanfarin þrjú ár.

Stóðu undir væntingum

Í Landsdeildinni var Philadelphia talið sterkasta liðið frá byrjun deildarkeppninnar og liðið stóð undir þeim væntingum. Reyndar veittu San Francisco 49ers þeim harða keppni, en í úrslitaleik deildarinnar í Fíladelfíuborg fyrir tveimur vikum meiddust tveir leikstjórnendur 49ers eftir að tveir fyrrverandi byrjunarleikmenn í þeirri stöðu urðu að hætta keppni á leiktímabilinu eftir að hafa meiðst illa. Meiðsl fjögurra leikstjórnenda reyndist á endanum of dýrkeypt fyrir annars sterkt lið 49ers og Eagles komust því auðveldlega í úrslit eftir 31:7 sigur.

Bæði þessi lið koma inn í leikinn með meidda leikstjórnendur. Mahomes er enn ekki orðinn góður af ökklameiðslum sínum og leikstjórnandi Eagles, Jalen Hurts, er ekki búinn að ná sér af axlarmeiðslum á kasthandleggnum. Báðir leikmenn mæta hins vegar til leiks, enda eru leikir sem þessir ekki á hverju strái á ferli leikmanna.

Leikstjórnendurnir tæpir

Einn af helstu styrkleikum Mahomes er hve fljótur hann er að komast hjá varnarmönnum sem reyna að koma honum á sjúkrahús. Meiðsli Mahomes þýða að geta hans á þessu sviði verður skert. Í mörgum leikjum væri þetta ekki endilega mikið vandamál fyrir sókn Chiefs, en styrkleiki Eagles er sóknarlína liðsins. Þeir hafa gert leikstjórnendum andstæðinganna lífið leitt allt keppnistímabilið, þannig að Mahomes verður að koma tuðrunni frá sér sem fyrst. Ef hann reynir að bíða eftir því að tækifæri opnist lengra frammi á vellinum, gæti hann fengið þungan andstæðing ofan á sig sem fellir hann – og tuðran fjarri.

Þessi staða verður sjálfsagt lykillinn í þessum leik. Ef Mahomes verður nærri fullri getu er vel hægt að spá Kansas City sigri hér. Spáin á þessum bæ er hins vegar að vörn Philadelphia verði lykillinn í þessum leik og að Eagles vinni leikinn, 27:20.

Maður hefur hins vegar haft rangt fyrir sér í þessum spádómum fyrr. Að spá fyrir um úrslit í Ofurskálarleiknum er eins og að draga kanínu upp úr hatti.

Höf.: Gunnar Valgeirsson