„Kanadískur læknir, Shaefer að nafni, skrifaði nýlega grein í kanadíska læknablaðið um mjög sérstæða fæðingu. Barnið kom nefnilega ölvað í heiminn.“
Með þessum orðum hófst frétt í Morgunblaðinu 12. febrúar 1963.
Shaefer sagði svo frá, að 27 ára gömul kona hefði komið alldrukkin á Whitehorse-sjúkrahúsið í Kanada. 45 mínútum eftir komuna ól konan barn. Barnið var sett í súrefnistjald og næstu tólf tíma gaus upp megn áfengislykt í hvert skipti sem tjaldið var opnað. Þegar farið var að kanna ástand móðurinnar nánar kom í ljós að varla hafði runnið af henni síðustu tvo mánuði.
„Fyrstu 18-24 tímana eftir fæðingu hegðaði barnið sér eins og drykkjumaður, sem verið er að venja af neyzlu áfengis. Það var mjög óvært, og hendur þess og fætur skulfu. Viðbrögð þess við hverja smá hreyfingu í herberginu voru krampakenndir kippir og skerandi óp. Shaefer er sannfærður um að sjúkdómsgreining hans á barninu er rétt.“