Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Einar Már er Snæfellingur af Hellissandi og segir hann aldrei annað hafa komið til greina en að verða sjómaður. „Pabbi var sjómaður og vélstjóri, svo voru báðir langafarnir sjómenn og fleiri frændur. Ég man bara frá því að ég var lítill að það eina sem komst að var að ég ætlaði að verða sjómaður, löngu áður en maður vissi hvað það var að vinna.“
Draumurinn rættist 2005 þegar hann komst á sjó á litlum netabát í Sandgerði. „Svo færði ég mig yfir á gömlu Kristrúnina, svo Gullhólma, Faxaborgina og síðan var ég á Tjaldinum. Árið 2016 fór ég til Noregs og var þar í eitt og hálft ár og kom svo heim aftur. Það er miklu betra að vera heima. Þegar ég kom út fann ég að ég var miklu meiri Íslendingur í mér en maður gerði sér grein fyrir,“ segir hann og hlær.
Það var hins vegar ekki allt eins og hann hafði ímyndað sér þegar hann hóf ferilinn. „Mér þótti heldur fúlt hvernig þetta var orðið og hvernig hlutirnir hafa þróast frá því ég byrjaði. Maður hefur misst svo mikið af því hvernig sjómennskan var hérna áður fyrr, eins og pabbi og afi lýstu þessu. Samheldnin og hvernig viðhorfið til sjómanna hefur breyst. Lengi vel skammaðist ég mín fyrir að vera sjómaður, miðað við hvernig umtalið var um okkur í þjóðfélaginu. Það er nú sem betur fer horfið, en núna langar mig að upphefja sjómennskuna svolítið. Sjómenn eru máttarstólpi þjóðarinnar.“
Einar Már hefur verið hluti af áhöfninni á Huldu GK frá því í september síðastliðnum, en um er að ræða stærsta plastbát sem smíðaður hefur verið á Íslandi. Trefjar í Hafnarfirði afhentu bátinn 2021 og mælist hann 6,7 metra breiður og 11,99 metra langur.
Síminn allt í einu á milljón
En hvernig kom það til að þessi síkáti sjómaður skráði sig á samfélagsmiðilinn Instagram og tók upp nafnið „Icelandicfisherman“ eða íslenski fiskimaðurinn?
„Ég hef alltaf verið að taka myndir og myndbönd, allt frá því ég var gutti. Hef set inn á Facebook og svona. Eftir að ég byrjaði með núverandi kærustu minni – hún er sem sagt pólsk – og ég fór að fara út til Póllands og hitta fólkið hennar var svo rosalega mikið verið að spyrja hvernig sjómannsstarfið væri. Þá stakk einhver upp á því að ég kæmi einhverju á Instagram sem hægt væri að fylgjast með og ég gerði það. Byrjaði að setja eitt og annað inn.
Þetta voru nokkrir mánuðir þar sem ég var með einhverja 70 fylgjendur. Það var eitt vídeó sem fékk alveg nokkur þúsund áhorf, svo liðu nokkrir dagar og ég var eitthvað að kíkja á þetta og þá voru allt í einu bara hundrað. Ég hugsaði hvernig það gæti verið að þetta dytti svona niður. Þegar ég gáði betur stóð hundrað k [sem merkir þúsund]. Þá voru þetta hundrað þúsund og ég bara vissi ekki hvað. Þá fór þetta almennilega af stað og síminn var alveg á milljón,“ útskýrir Einar Már og hlær.
Það var síðasta sumar sem fylgjendahópurinn stækkaði ört og fór úr í kringum tíu þúsund upp í fimmtíu þúsund, en þeir eru nú ríflega 54 þúsund. „Mér fannst þetta ekki endilega neitt merkilegt sem ég var að setja inn. Þetta voru bara venjulegar vídeóklippur. Upp úr þurru rauk áhorfið upp og ég fékk allt í einu einhverjar milljónir áhorfs á einhver vídeó.“
Einar Már segir mjög gaman hve mikla athygli þetta hefur fengið. „Það var aldrei neitt markmið að láta þetta verða eitthvað. En það er skemmtilegt að geta sýnt hvað það er að vera á sjó. Það hefur komið svolítið í ljós að fólk úti í heimi veit ekkert hvað þetta er eða snýst um. Hversu langir túrarnir eru og svona.“
Sjóhrifavaldur?
Fiskimaðurnn íslenski er nú með jafn marga fylgjendur á Instagram og helstu svokallaðir áhrifavaldar á Íslandi. Það er því eðlilegt að spurja hvort hann sé þá formlega orðinn áhrifavaldur?
„Já, maður tekur því sem kemur með þessu. Ef fólk vill kalla mig það er það alveg í góðu lagi. Strákur sem er með mér á sjó sagði að ég væri sjóhrifavaldur, hvað sem það nú merkir,“ svarar Einar Már og skellir upp úr. „Það er tekið eftir þessu og það höfðu til dæmis samband við mig um daginn einhverjir frá Sleipni í sambandi við ferðir á Langjökli. Svo er einhver kóresk sjónvarpsstöð sem hafði samband sem er að gera þátt um íslenska sjómenn. Ég er búinn að vera að taka eitthvað upp fyrir þau og var svo í viðtali hjá þeim. Að ég sé áhrifavaldur, jú ætli það ekki bara!“
Það er ekki sjálfgefið að finna tíma til að sinna þessu á sjó enda ávallt nóg um að vera á línuveiðum, ekki síst þegar fiskast vel. „Ég er minna að sinna þessu ef það er mikið að gera, þá stilli ég kannski bara upp gopro-myndavélinni einhvers staðar og klippi síðan úr. En það er ekkert allt of erfitt fyrir mig að vera með myndavélina á lofti og strákarnir eru vel skilningsríkir á þessu öllu. Það er erfiðast að finna tíma til að klippa og setja inn. Það geri ég kannski í brælu, þá klippi ég nokkur vídeó og hendi inn einu og einu. Svo er með þetta eins og allt annað, maður missir kannski áhugann í smá tíma og kemur síðan aftur seinna.
Eins og ég segi þá var aldrei ætlunin með þessu að afla fullt af fylgjendum, mér fannst bara gaman að sýna fjölskyldu og vinum frá lífinu á sjó.“
Vilja komast á sjó
Einar Már kveðst hafa tekið sérstaklega eftir því að mun minni áhugi sé á sjómannslífinu hér á landi en úti í heimi. „Þetta eru kannski 90% útlendingar sem fylgjast með þessu. Svo hefur einn og einn Íslendingur bæst í hópinn.“
Margir á erlendri grundu virðast sjá tækifæri í að komast á sjó á Íslandi og fær Einar Már reglulega fyrirspurnir frá áhugasömum. „Ég er að fá kannski einhver sex skilaboð í viku að meðaltali frá hinum og þessum sem eru að biðja um vinnu og spurja hvað þurfi til að komast á sjó. Það eru rosalega margir sem vilja komast á sjó á Íslandi.“
Ætli þeir átti sér allir á því hvað það er að vera á línuveiðum í skítakulda?
„Nei, það held ég sko ekki. Ég er lítið búinn að sýna brælu, enda erum við lítið á sjó þegar svo er, en ég held að þeir átti sig engan veginn á hvað þeir gætu verið að koma sér út í,“ svarar Einar Már.