Björgunarsveitarmaður stendur ofan á rústum byggingar í sýrlenska bænum Jindayris á föstudaginn.
Björgunarsveitarmaður stendur ofan á rústum byggingar í sýrlenska bænum Jindayris á föstudaginn. — AFP/Rami al Sayed
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vikan heilsaði öllum að óvörum með gulum veðurviðvörunum. Björgunarsveitir höfðu það þó til þess að gera náðugt. Inflúensan er á heildina litið á niðurleið í samfélaginu

04.02-10.02

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Vikan heilsaði öllum að óvörum með gulum veðurviðvörunum. Björgunarsveitir höfðu það þó til þess að gera náðugt.

Inflúensan er á heildina litið á niðurleið í samfélaginu. B-stofn hennar hefur þó verið að færa sig upp á skaftið meðan A-stofninn er á hröðu undanhaldi. Ekki mun vera þörf á gulum viðvörunum en heilbrigðisyfirvöld fylgjast þó vel með.

Undirbúningur að opnun farsóttardeildar Landspítalans er vel á veg kominn.

Hagavagninn, sem fór illa í eldsvoða fyrir skemmstu, verður opnaður aftur bráðlega.

Sjaldan hefur framþróun gervigreindar verið eins hröð og undanfarin ár.

Parasætin seljast best í flunkunýjum lúxussal Sambíóanna í Kringlunni. Rétt er að taka fram, í ljósi sterkra enskuáhrifa í landinu, að við erum í raun og sann að tala um sæti fyrir pör en ekki ógeðfelld sníkjudýr, eins og margir af yngri kynslóðinni kunna að halda.

Fleiri hafa slasast við vinnu á seinustu árum en áður, 1.847 tilkynningar bárust Vinnueftirlitinu árið 2021.

Rætt var um Klappapp strætó í borgarstjórn en brögð munu vera að því að fólk lendi í vandræðum þegar það stígur um borð og hyggst greiða fyrir farið.

Íslenski arnarstofninn er í hættu vegna innbyrðis skyldleika og erfðafræðilegrar einsleitni.

Már Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, líkir stöðu fólks sem er á leigumarkaði við það að vera undir snjóhengju.

Múlaþing ætlar að taka á móti 40 flóttamönnum.

Miklar hamfarir urðu þegar jarðskjálfti, 7,8 að stærð, reið yfir suðurhluta Tyrklands og Aleppo-svæðið í norðurhluta Sýrlands. Þetta eru verstu skjálftar á svæðinu í heila öld og tala látinna var í lok vikunnar komin yfir 22.000. Fólk var þó enn að finnast á lífi fram eftir vikunni. Öll spjót standa nú á Recep Tayyip Erdogan forseta Tyrklands sem gagnrýndur hefur verið fyrir slæleg viðbrögð.

Íslenskur hópur, alls 11 manns, flaug utan til Tyrklands til aðstoðar. Sólveig Þorvaldsdóttir, sem fer fyrir hópnum, segir ástandið á svæðinu ömurlegt. Sérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir ekki ástæðu til að búast við svo stórum skjálftum hérlendis.

Ótímabundin vinnustöðvun starfsfólks Eflingar á sjö hótelum Íslandshótela hófst á þriðjudag.

Notkun ADHD-lyfja jókst um 12,3% á síðasta ári. Alls fengu 20.680 manns ávísað ADHD-lyfjum.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði frá tveimur ákæruliðum á hendur tveimur mönnum fyrir undirbúning hryðjuverka vegna óskýrs orðalags í ákærunni. Eftir standa ákæruliðir fyrir brot á vopnalögum.

Sami héraðsdómur staðfesti á hinn bóginn lögmæti miðlunartillögu ríkissáttasemjara í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins.

Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar síðustu ár, ef marka má stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Í skýrslunni er að finna 23 ábendingar um úrbætur sem stofnunin telur að þurfi að gera á stjórnsýslu málaflokksins.

Stórt stöðuvatn hefur myndast á Ljúflingi, neðsta svæði Urriðaholtsvallar, vallar golfklúbbsins Odds í Garðabæ. Framkvæmdastjóri klúbbsins var þó stóískur í samtali við Morgunblaðið: „Við höfum séð það verra en þetta.“

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vill koma sér upp vatnsgámum til að geta sett rafmagnsbíla í vatnsbað, komi upp eldur í þeim.

Tvö eru í framboði til formanns VR, Ragnar Þór Ingólfsson, núverandi formaður VR, og Elva Hrönn Hjartardóttir, sérfræðingur á skrifstofu VR.

Tveir hópar félagsfólks Eflingar til viðbótar samþykktu ótímabundnar vinnustöðvanir; olíubílstjórar Samskipa, Olíudreifingar og Skeljungs annars vegar og hótelstarfsfólk á Edition-hótelinu og hótelum Berjaya hins vegar. Á vinnustöðvunin að hefjast hinn 15. febrúar, á hádegi. Reiknað er með að verkfall olíubílstjóra bíti fljótt og brögð eru að því að fólk sé farið að hamstra bensínbrúsa.

Héraðsdómur dæmdi Landsbankann til þess endurgreiða tveimur lántakendum ofgreidda vexti vegna láns með breytilegum vöxtum, þar sem skilmáli bankans var talinn ósamrýmanlegur lögum um neytendalán.

Reiknað er með að það kosti 2-2,5 milljarða króna að leggja nýjan sæstreng á milli lands og Eyja.

Tengsl eru á milli langvinnra verkja á fullorðinsárum og sálrænna áfalla í æsku samkvæmt rannsókn þriggja sérfræðinga á Akureyri.

Stýrivextir hækkuðu í ellefta sinn í röð. Menn benda hverjir á aðra þegar kemur að ábyrgð á verðbólgunni sem nuddar sér utan í 10%.

Sunnan- og suðvestanstorminum sem gekk yfir landið eldsnemma á þriðjudag lá svo mikið á að margir sváfu hann af sér. Röskun varð þó á samgöngum. Smiðum í Urriðaholti varð víst hugsað til Jónasar Hallgrímssonar, „Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel“ og þar fram eftir götum.

Bjarg íbúðafélag áformar að afhenda þúsundustu íbúðina í sumar. Á þriðja þúsund manns búa nú í leiguíbúðum félagsins.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, segir tímabært að staldra við og endurmeta áætlanir í sambandi við samgöngusáttmálann enda sé framkvæmdin nú komin 50 milljarða fram úr áætlun.

Góður gangur er í kjaraviðræðunum við bandalög opinberra starfsmanna um endurnýjun kjarasamninga, að sögn formanns samninganefndar ríksins.

Bland í poka heyrir sögunni til eftir heimsfaraldurinn, að sögn sjoppueiganda í Hafnarfirði. Nema þá helst ef búið er að blanda í pokann fyrir mann.

Landsþing Viðreisnar hófst á föstudag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er ein í kjöri til formanns.

Íhlutir af margvíslegum toga eru í æ fleiri tilvikum í líkama látins fólks sem komið er með til líkbrennslu í ofnum Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Hjartalokur, gangráðar og fleiri slíkir munir eru fjarlægðir á Landspítalanum áður en komið er með jarðneskar leifar til brennslu.

Lýsi hf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Ice Fish ehf. í Sandgerði.

Hlutfallslega mesta fólksfjölgunin á landinu er í Kaldrananeshreppi.

Sjómenn lönduðu kjarasamningi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og samið var til tíu ára, sem heyrir til tíðinda.

Forsvarsmenn Eflingar og ríkissáttasemjara skrifuðu undir samkomulag þess efnis að aðfararbeiðni þess síðarnefnda til að sækja kjörskrá Eflingar yrði frestað fram að niðurstöðu Landsréttar um úrskurðinn sem kveður á um heimildina til aðfarar.

Stærsta kvikmyndaver landsins á að rísa í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Kostnaður við fyrsta áfanga eru 5-7 milljarðar.

Nýjar gervitunglamyndir sýna afbrigðilega stórar vakir í Öskjuvatni, sem annars er ísilagt.

Alls féllu 32 snjóflóð í Ísafjarðardjúpi á fimmtudag, samkvæmt tölum í skrá Veðurstofunnar.

Spennustigið var hátt við verkfallshótelin í vikunni. Forysta Eflingar segir augljóst að verið sé að fremja verkfallsbrot en Samtök ferðaþjónustunnar fordæma framkomu verkfallsvarða. Myndskeið af Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, hrópa á hótelgesti á ensku var sýnt á mbl.is og víðar. Hún hafnar því að hafa verið að áreita gestina.

Hrossin fagna hækkandi sól.