— Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
Mörgum loðnuskipum hefur tekist að hefja vertíð þrátt fyrir leiðindaveður. Ekki er ólíklegt að veður kunni að valda frekari truflunum næstu vikurnar. Sem betur fer hafa íslenskar útgerðir haft tök á að fjárfesta í öflugum uppsjávarskipum sem geta,…

Mörgum loðnuskipum hefur tekist að hefja vertíð þrátt fyrir leiðindaveður. Ekki er ólíklegt að veður kunni að valda frekari truflunum næstu vikurnar. Sem betur fer hafa íslenskar útgerðir haft tök á að fjárfesta í öflugum uppsjávarskipum sem geta, ef allt gengur að óskum, náð að veiða þau tugþúsund tonn sem eftir eru af útgefnum heimildum áður en vertíðinni lýkur.

Það er hins vegar eitt að ná í hráefnið, það þarf að vinna það líka og skiptir þar engu hvort um er að ræða frystingu, hrognavinnslu, mjöl- eða lýsisgerð. Allt útheimtir þetta vinnuframlag alls þess fólks sem starfar í afurðastöðvuðunum, en ekki síður orku til að knýja tæki og tól.

Staðan í dag er hins vegar sú að þessi orka fæst ekki í nægilegu magni sem rafmagn og virðist þar engu skipta hvort það er á Eskifirði, í Neskaupstað eða í Vestmannaeyjum. Ganga nú varaaflstöðvar fyrir olíu til að anna orkuþörf framleiðslunnar. Þessi hreina afurð sem framleidd er með 100% endurnýjanlegri orku heyrir því einfaldlega sögunni til. Dreifikerfi raforku á Íslandi árið 2023 býður ekki upp á annað.

Fyrir jólin 2021 var í þessum dálki blaðs 200 mílna einnig fjallað um orkuþörf greinarinnar og spurt hvort yfirvöld gætu boðið fyrirtækjum landsins afhendingaröryggi raforku í jólagjöf? Svarið við þeirri spurningu var augljóslega nei.

Nú hefur sjómönnum og útgerðum tekist að landa langþráðum kjarasamningi og það til tíu ára! Spurningin er nú hvort yfirvöld geti boðið greininni afhendingaröryggi áður en þeir samningar renna út 31. janúar 2033?

gso@mbl.is