Mikill mismunur var á mælingum Hafrannsóknastofnunar á stærð loðnustofnsins.
Mikill mismunur var á mælingum Hafrannsóknastofnunar á stærð loðnustofnsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur í upphafsráðgjöf sinni lagt til að engin loðna verði veidd á vertíðinni 2023/2024 og byggist hún á magni ókynþroska loðnu í haustmælingu 2022. Vert er að veita því athygli að mælingin sem um ræðir var svo…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur í upphafsráðgjöf sinni lagt til að engin loðna verði veidd á vertíðinni 2023/2024 og byggist hún á magni ókynþroska loðnu í haustmælingu 2022. Vert er að veita því athygli að mælingin sem um ræðir var svo frábrugðin fyrri mælingum að ákveðið var að halda í aukaleiðangur í desember síðastliðnum.

Hafrannsóknastofnun hafði í október lagt til að hámarksafli á yfirstandandi vertíð yrði ekki meiri en 218.400 tonn og byggði það á niðurstöðum bergmálsmælinga á loðnustofninum á tímabilinu 27. ágúst til 29. september. Var ráðgjöfin töluverð vonbrigði þar sem upphafsráðgjöf gerði ráð fyrir 400.000 tonnum, en hún var veitt á grundvelli magns ókynþroska loðnu í haustmælingum 2021.

Fyrrnefnd aukamæling í desember skilaði ekki marktækum niðurstöðum þar sem loðnan hafði ekki hafið göngu sína og hélt sig enn undir hafísnum. Var því ekki hægt að endurskoða ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna yfirstandandi vertíðar á þeim grundvelli. Héldu síðan fimm skip til vetrarmælingar á loðnustofninum 23. janúar síðastliðinn, að undangengnum könnunarleiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar. Gat Hafrannsóknastofnun í kjölfarið endurskoðað ráðgjöf sína um hámarksafla á yfirstandandi loðnuvertíð og var hún hækkuð um 57 þúsund tonn í 275.705 tonn.

Alls falla 182 þúsund tonn í hlut íslenskra loðnuskipa sem er rétt rúmur þriðjungur af afla skipanna á síðustu vertíð en hann var umfram 521 þúsund tonn. Áætlað er að yfirstandandi loðnuvertíð skili um 30 milljörðum króna í útflutningstekjur.

Ráðgjöf um hámarksafla á næstu vertíð gæti breyst á grundvelli haustmælingar 2023.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson