Andri hefur mikla reynslu af því að bæta líf fólks með kulda og réttri öndun.
Andri hefur mikla reynslu af því að bæta líf fólks með kulda og réttri öndun. — Morgunblaðið/Ásdís
Á þessum tímapunkti langaði mig ekki lengur að vera til, en mundi þá eftir að hafa heyrt talað um Wim Hof, ísmanninnn, sem vann með öndun og kulda.

Hver kannast ekki við frasann „Hættu að væla, komdu að kæla“, sem heilsuþjálfarinn Vilhjálmur Andri Einarsson, ávallt kallaður Andri, notar sem nafn á námskeið sem hann heldur reglulega. Andri flytur erindi á heilsueflandi ráðstefnunni „Hugsaðu um heilsuna“ sem haldin verður í Hörpu þann 18. febrúar næstkomandi. Þar munu fleiri stíga á stokk, en bandaríski metsöluhöfundurinn James Nestor, sem skrifaði bókina Breath, mun tala um öndun og Dr. Susanna Søberg, sérfræðingur á alþjóðavísu í vísindum og notkun kulda og hita, ræðir um streitustjórnun til heilsubótar. Slysa- og bráðalæknirinn Kristín Sigurðardóttir ræðir um streitu, hvernig hún gagnast okkur og hvenær hún hættir að vera gagnleg.

Blaðamaður dreif sig út á Granda til fundar við Andra sem leiddi hann í allan sannleikann um gildi þess að kæla og anda rétt.

Taugaskaði eftir fall

„Á ráðstefnunni sýnum við fólki það sem vísindin sýna í dag; hvernig við getum nýtt streitu og aukið seiglu, hvernig andardrátturinn okkar virkar og hvernig hægt er að nota kulda og hita til góðs,“ segir Andri og segir að fólk gæti nýtt sér þessar aðferðir til að losna við streitu, verki og bólgur.

Andri hefur reynt það á eigin líkama og sál að bæta líf sitt með þessum aðferðum.

„Fyrir sjö, átta árum var ég á virkilega slæmum stað. Ég lenti í slysi þrettán ára gamall, en ég datt á milli hæða. Ég fór upp á sjúkrahús og fann ekki fyrir fótleggjunum. Sem betur fer fékk ég aftur mátt í fæturna en ég átti enn eftir að taka út mikinn vöxt og þegar ég stækkaði fékk ég gríðarlega taugaverki, frá toppi til táar. Ég fékk langvinnar bólgur í bakið, var iðulega haltur og það kom oft fyrir að það leið yfir mig,“ segir hann.

„Þessir stöðugu verkir í mjóbakinu fylgdu mér í áratugi. Ég var mikið búinn að leita að því hvað væri að mér og þróaði með mér þunglyndi og kvíða. Það fannst aldrei neitt og ég leitaði þá í áfengi til að deyfa þessa stöðugu verki.“

Er 100 % heilbrigður

Andri segist hafa heyrt að kuldinn gæti dregið úr bólgum og hafði hann stundað það að liggja á köldum bökstrum kvölds og morgna. Það dugði þó skammt.

„Kerfið mitt hrundi svo algjörlega og ég endaði uppi á spítala í tíu daga og þaðan fór ég á Grensás þar sem læknar loksins greindu mig með skemmd í mænutaglinu sem orsakaði þessa taugaverki. Þar fékk ég lyf og meiri lyf og endaði á að bæta á mig þrjátíu kílóum.“ segir Andri.

„Á þessum tímapunkti langaði mig ekki lengur að vera til, en mundi þá eftir að hafa heyrt talað um Wim Hof, ísmanninnn, sem vann með öndun og kulda. Ég fór að prófa þetta og það breyttist allt í mínu lífi og ég öðlaðist meiri ró,“ segir hann og segir margt fólk þjást af þögulli streitu.

„Ég fann jafnvægi og hætti til dæmis að verða lasinn. Ég var búinn að vera með ennis- og kinnholusýkingar í tuttugu ár og var á sýklalyfjum á hverju ári. Eftir að ég byrjaði að kæla hef ég ekki orðið veikur og ég hætti líka að drekka áfengi og taka lyf. Nú er ég alveg verkjalaus og hundrað prósent heilbrigður.“

Að kveikja á kerfinu

Kerfin okkar þurfa á örvun að halda, að sögn Andra. Hann segir kalt vatn tilvalið til að kveikja aðeins á kerfinu. Andri segir fólk alls ekki vera að frjósa þegar það sitji ofan í köldu kari.

„Það er gott að taka smá dýfingar til að örva kerfið. Kuldinn er góð streita, en getur þú farið ofan í kalda vatnið og slakað á? Það er enginn að tala um að sitja í tuttugu mínútur í ísbaði, heldur að nota kuldann sem streitustjórnun,“ segir Andri og segir fólk geti hægt á öndun sinni og breytt með því líðan sinni.

„Þá hægist á hjartslætti og í kuldanum eykst dópamínið um 250% og lætur okkur líða vel,“ segir hann og segir að allir geta notið góðs af því að anda rétt, líka fólk sem ekki þjáist af verkjum.

„Þessi ráðstefna er ekki bara fyrir fólk sem er lasið, hún er fyrir alla þá sem vilja bæta heilsuna.“

Álag á hjarta og lungu

Fyrirlestur James Nestors ber yfirskriftina: Andardráttur: Ný vísindi glataðrar listar. Blaðamaður spyr Andra hvort mannskepnan hafi einhvers staðar á leiðinni misst hæfileikann til þess að anda rétt.

„Já, það er talið að um 60% af mannkyninu andi vitlaust,“ segir hann og segir fólk með tímanum hafa farið að anda meira með munninum og minna með nefinu, sem sé slæmt.

„Röng öndun veldur meira álagi á hjartað og æðakerfið og starfsemi lungna minnkar,“ segir hann og segir streitu valda hraðari og grynnri andardrætti.

„Þá líður þér ekki vel og það kemur streita í kerfið. Svo getum við talað um hvað kuldinn gerir og hitinn, en Susanna ætlar einmitt að tala um hvað gufuböð gera fyrir fólk, sem hún byggir á þrjátíu ára rannsókn á þúsundum manna í Finnlandi,“ segir hann og segir að niðurstöður rannsóknarinnar hafi sýnt að fólk sem stundaði gufuböð fengi síður hjarta- og æðasjúkdóma.

Að róa andardráttinn

Kæling og rétt öndun hefur haft gríðarlega góð áhrif á marga, að sögn Andra.

„Ég kann endalausar sögur af alls konar fólki, með verki eða ekki, sem líður betur eftir námskeið hjá mér. Fólk vantar oft fókus í líf sitt eða er með kvíða. Þetta stuðlar að jafnvægi.“

Hvað eiga kuldaskræfur að gera?

„Ég útskrifa fjölmargar fyrrverandi kuldaskræfur. Auðvitað er kalt að fara í kaldan sjó en þegar þú ferð í kalt vatn byrjum við að róa kerfin og lærum að kveikja aftur á brúnu fitunni okkar sem heldur svo á þér betri hita,“ segir hann og segir fólk almennt þurfa að finna meiri ró í líkamanum.

„Það er mikið álag og hraði í þjóðfélaginu. Þegar við notum áhrifaríkar leiðir til að nálgast andlegt og líkamlegt jafnvægi, lærum við að vera í lagi, alveg sama hvað.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir