Sigurvegarar Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir með Flóvent frá Breiðsstöðum eftir sigurinn í fyrrakvöld.
Sigurvegarar Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir með Flóvent frá Breiðsstöðum eftir sigurinn í fyrrakvöld. — Ljósmynd/Louisa Hackl
„Það er magnað að hafa náð að sigra í báðum fyrstu greinunum. Ég geri það sem ég get til að standa mig vel í öllum greinum og reyna að klára deildina,“ segir Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir sem sigraði í slaktaumatölti í á hestinum Flóvent …

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það er magnað að hafa náð að sigra í báðum fyrstu greinunum. Ég geri það sem ég get til að standa mig vel í öllum greinum og reyna að klára deildina,“ segir Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir sem sigraði í slaktaumatölti í á hestinum Flóvent frá Breiðsstöðum í öðru móti meistaradeildarinnar í hestaíþróttum. Hún sigraði einnig í fyrsta mótinu, í fjórgangi, en það mót fór fram fyrir hálfum mánuði og er Aðalheiður Anna því með fullt hús stiga, 24 stig, í einstaklingskeppni meistaradeildarinnar.

Þótt Aðalheiður Anna hafi gott forskot er mikið eftir af mótaröðinni, fjögur mót með sex keppnum. Spurð um möguleikana á að sigra í deildinni segir hún að hún ætli að fara með Flóvent í tvær keppnir til viðbótar við þær tvær sem þau hafa unnið. Hún eigi möguleika á öðrum hestum í aðrar keppnir. Allt verði gert til að reyna að ná stigum í öllum keppnum. „Þetta fer þó eftir því hvort allt gengur upp. Við erum með lifandi skepnur og viðkvæmar greinar eru eftir. En ég mun klárlega gera mitt besta,“ segir Aðalheiður Anna.

Jafn og öruggur hestur

Spurð um keppnina í HorseDay-höllinni í fyrrakvöld segir Aðalheiður að hún hafi verið spennandi. Margir frábærir hestar og sterkir keppendur hafi verið í úrslitum. Aðalheiður og Flóvent voru efst eftir forkeppnina með naumt forskot á næstu keppinauta en í úrslitunum bætti hún einkunnina og sigraði nokkuð örugglega.

Segir Aðalheiður að Flóvent sé ákaflega jafn og öruggur hestur í öllum keppnum, hafi frábært geðslag og fylgi alltaf knapa sínum eftir. Telur hún að það hafi gert gæfumuninn í þessari keppni hvað hann var jafn í öllum þáttum keppninnar.

Slaktaumatöltið er tæknilega erfið grein, sérstaklega slaki taumurinn sem er síðastur. Segir Aðalheiður að gott sé að geta notað mikla orku í tvær fyrri greinarnar, án þess að hesturinn verði of spenntur þegar kemur að slaka taumnum. Aðalheiður Anna starfar við tamningar, þjálfun og reiðkennslu með manni sínum, Reyni Erni Pálmasyni.

Þau reka hrossabúið Margrétarhof á Króki í Ásahreppi fyrir sænsku Montan-fjölskylduna. Lið þeirra, Margrétarhof/Ganghestar, er efst í liðakeppninni með samtals 102,5 stig eftir keppnirnar tvær sem afstaðnar eru.

Höf.: Helgi Bjarnason