Óður Sigurður Helgi, Sólveig Sigurðar, Þórhallur Auður Helgason, Ragnar Jóhannsson og Áslákur Ingvarsson.
Óður Sigurður Helgi, Sólveig Sigurðar, Þórhallur Auður Helgason, Ragnar Jóhannsson og Áslákur Ingvarsson.
Ættu gamlir karlar að giftast ungum konum?

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Óperan Don Pasquale eftir Ítalann Gaetano Donizetti var frumsýnd árið 1843 í París. Hún varð um leið gríðarvinsæl og allar götur síðan verið talin eitt af höfuðverkum gamanóperunnar (opera buffa). Hér á landi var óperan fyrst sett á svið í Þjóðleikhúsinu árið 1960 og í kvöld, rúmum 60 árum síðar, flytur sviðslistahópurinn Óður verkið í Þjóðleikhúskjallaranum, í beinu og rökréttu framhaldi af uppfærslu hópsins á Ástardrykknum eftir téðan Donizetti.

Don Pasquale leitar í persónugallerí Comedie dell’arte eins og vinsælt var á þeim tíma, en verkið fjallar í stuttu máli um hinn roskna og vellauðuga og piparsvein, Don Pasquale, sem hótar að gera ungan frænda sinn Ernesto arflausan, fari hann ekki að fyrirmælum hans um virðulegt kvonfang. Ernesto lætur hins vegar ekki segjast og í hönd fer flókin og farsakennd atburðarás þar sem spurningum um kynhlutverk og hjónaband er velt upp og ekki síst þeirri spurningu sem margir spyrja í dag: ættu gamlir karlar að giftast ungum konum?

Sagði skilið við sönginn

Þórhallur Auður Helgason tenór túlkar Ernesto en litlu munaði að Þórhallur segði skilið við sönginn árið 2017 að loknu háskólanámi við hinn virta Musik og Kunst í Vínarborg.

„Mér fannst mér ekki gefið nægilegt rými úti, öfugt við það sem ég vandist á Íslandi þar sem einstaklingsbundin túlkun og persónuleg nálgun var eðlilegur hluti af náminu. Í Vín var hins vegar reynt að troða mér í fyrir fram ákveðið og hefðbundið mót sem hentaði mér einfaldlega ekki.“

Úr varð að Þórhallur sneri heim staðráðinn og yfirlýsingaglaður um að syngja ekki aftur og skráði sig þess í stað í tölvunarfræði.

„Satt að segja þá hafði ég engan áhuga á tölvunarfræði,“ segir hann hlæjandi. „Ég var þarna staddur með unga dóttur og þurfti að koma undir mig fótunum og fyrst að söngurinn var ekki málið þurfti ég að finna mér eitthvað praktískt.“

Þessi ákvörðun hugnaðist samnemendum hans og vinum, Ragnari Pétri Jóhannessyni og Sólveigu Sigurðardóttur, hins vegar ekki og tókst á endanum með klækjabrögðum að draga hann inn í sviðslistahópinn Óð enda vissu þau betur en hann sjálfur að Þórhallur mætti ekki gefa sönglistina upp á bátinn.

„Ég rakst svo á hliðlægt fag sem kallast lífupplýsingafræði og er núna meðfram söngnum á fyrsta ári að meistaragráðu í tölvunarfræði með áherslu á lífupplýsingafræði, hlaut meðal annars rannsóknarstyrk við Caltech síðasta sumar þar sem ég þróaði algóryþma við að greina bakteríur í stórum lífsýnum … þannig að þetta blessaðist allt saman“.

Bráðfyndin og aðgengileg

En af hverju Don Pasquale?

„Verkið liggur mjög vel að röddum okkar og svo er þetta alveg bráðskemmtileg ópera. Þó Ástardrykkurinn sé eflaust frægari þá er Don Pasquale áhugaverðari hvað tónsmíðar og söguþráð varðar. Það má segja að þetta sé ópera fyrir hipstera. Hún er líka bráðfyndin og tónmálið aðgengilegt sem auðveldar allar útsetningar, enda flytjum við hana við píanóundirleik.“

Sólveig Sigurðardóttir, sem syngur hlutverk Narinu, þýddi verkið yfir á íslensku. Að sögn Þórhalls höfðu þau gert dauðaleit að þýðingunni frá 1960 en ekkert fannst nema einn kórkafli. Því lagðist Sólveig einfaldlega í þýðingarvinnu og þýddi verkið frá upphafi til enda en um leið var lagt mikið upp úr því að textinn væri á fallegu nútímamáli.

Eins og áður segir frumsýnir Óður Don Pasquale í kvöld í leikstjórn Tómasar Helga Baldurssonar og í tónlistarstjórn Sigurðar Helga en fyrirhugaðar eru aðeins fjórar sýningar. Miðar fást á tix.is.

Höf.: Höskuldur Ólafsson