Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Samfylkingin, sem áður virtist nánast leggja upp úr því að fæla frá sér kjósendur, hefur tekið algjörum sinnaskiptum. Henni hefur lánast það sem áður virtist útilokað, að sjarmera til sín kjósendur. Einhverjir segja önugir að Samfylkingunni hafi tekist þetta með því að setja stefnumál sín út í horn og þykjast vera opin á báða enda. Þetta er ekki sanngjörn gagnrýni. Ekki má gleyma því að Samfylkingin hafði fyrir löngu leiðst út í ógöngur og var nánast orðin harðlínuflokkur þar sem voru gerðar stöðugar kröfur til kjósenda, sem áttu allir að vera nokkurn veginn af einni og sömu gerðinni.
Þingmenn flokksins, borgarfulltrúar og fleiri, töluðu alltof oft eins og þeir einir stunduðu rétta pólitík og hugmyndir þeirra væru þær einu sem væru í boði, ætti að skapa gott og réttlátt samfélag. Áberandi óþol ríkti gagnvart öðrum viðhorfum. Þannig stundaði flokkurinn það sem kalla má geislabaugapólitík. Kjörnir fulltrúar flokksins, umvafðir siðferðilegum heilagleika, voru stöðugt að beina skilaboðum til fólks um það hvernig það ætti að haga sér og hvernig það ætti að hugsa til að geta átt heima í Samfylkingunni. Stundum var engu líkara en að kjósendur þyrftu að sanna að þeir væru þess verðugir að kjósa jafngöfugan flokk og Samfylkinguna.
Þetta er einmitt ástæða þess að þegar kom að kjördegi í síðustu alþingiskosningum þá sagði eiginmaður fyrrverandi áhrifakonu innan Samfylkingarinnar við hana: „Veistu, elskan mín, ég held að ég sé ekki nógu góður maður til að kjósa Samfylkinguna.“
Með tilkomu nýs formanns Samfylkingarinnar, Kristrúnar Frostadóttur, og varaformannsins, Guðmundar Árna Stefánssonar, hefur mjög verið dregið úr hörðum inngönguskilyrðum sem áður fylgdu því að mega styðja Samfylkinguna. Áður var ætlast til að stuðningsmenn horfðu nánast með trylltum trúarglampa í átt að Evrópusambandinu. Nú leyfist að hafa efasemdir um að Íslandi sé best borgið innan sambandsins, það má jafnvel vera andvígur aðild. Þetta hljóta að teljast tíðindi.
Loksins, loksins er svo búið að henda kröfunni um nýja stjórnarskrá. Stjórnarskrármálið hlýtur að teljast eitt furðulegasta upphlaupsmál seinni ára í íslenskri pólitík. Þótt endalaust væri reynt að tyggja ofan í þjóðina að ný stjórnarskrá væri lykill að framförum og farsæld þá botnaði meirihluti þjóðarinnar aldrei nokkurn skapaðan hlut í málinu. „Herópið „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ vakti engin sérstök viðbrögð meðal fólks fyrir utan hið einfalda orð „Ha?“
Áður þurftu stuðningsmenn Samfylkingarinnar helst að hafa megna andúð á Sjálfstæðisflokknum, líta á hann sem skaðvald í íslensku samfélagi, spilltan flokk sérhagsmuna og telja brýnt forgangsatriði að halda honum frá völdum. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn þótti útilokað – einkenndist af „Vík frá mér Satan!“ viðhorfinu. Nú er samstarf við flokkinn ekki útilokað, þótt ljóst sé að Kristrún Frostadóttir vilji helst mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað vill hún leiða ríkisstjórn sem forsætisráðherra í stórum flokki og vera í samstarfi við minni flokka þar sem Samfylkingin leggur allar höfuðlínurnar. Sjálfstæðisflokkurinn er frekur til fjörsins og myndi í samstarfi illa þola að vera gerður að hornkerlingu. Litlir flokkar sætta sig frekar við slíkt hlutskipti enda eru þeir oftar en ekki nauðbeygðir til að hirða möglunarlaust það sem að þeim er rétt. Öðruvísi tóra þeir víst ekki lengi.
Samfylkingin er örugglega farin að gæla við tilhugsunina um völd meðan pólitískir andstæðingar lifa eflaust í voninnni um að flokkurinn hafi toppað of snemma. Hér skal hins vegar veðjað á að flokkurinn vinni góðan sigur í næstu kosningum og verði í ríkisstjórn. Hin skyndilega umbreyting flokksins úr hörðum og fráhrindandi rétttrúnaðarfokki yfir í frjálslyndan og víðsýnan flokk virkar greinilega vel á landsmenn, sem þurfa ekki lengur að vera vinstri sinnaðir til að kjósa flokkinn.