ÍBV Stefanía Theodórsdóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir.
ÍBV Stefanía Theodórsdóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir. — Morgunblaðið/Kristinn
ÍBV tryggði sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik, Powerade-bikarsins, með því að hafa betur gegn Stjörnunni, 23:22, í 8-liða úrslitum keppninnar í Garðabæ. Leikurinn átti upphaflega að fara fram á miðvikudagskvöld…

ÍBV tryggði sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik, Powerade-bikarsins, með því að hafa betur gegn Stjörnunni, 23:22, í 8-liða úrslitum keppninnar í Garðabæ.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram á miðvikudagskvöld en var svo tvívegis frestað um einn dag vegna erfiðra veðurskilyrða.

Gestirnir úr Vestmannaeyjum náðu snemma leiks yfirhöndinni með því að komast í 8:4. Munurinn varð mestur sex mörk, 12:6, skömmu fyrir hálfleik. Staðan var 12:7 að fyrri hálfleik loknum.

ÍBV tókst að halda forystunni allt til loka leiksins. Gott áhlaup kom þó frá Stjörnunni undir lokin, þar sem heimakonur minnkuðu muninn mest niður í aðeins eitt mark, 23:22, en þar við sat.

Sunna Jónsdóttir var markahæst í leiknum með sex mörk fyrir ÍBV. Marta Wawrzykowska varði 11 skot í marki liðsins og var með 33 prósenta markvörslu.

Markahæstar hjá Stjörnunni voru Helena Rut Örvarsdóttir og Anna Karen Hansdóttir, báðar með fimm mörk. Darija Zecevic varði 13 skot í marki Garðbæinga og var þannig með 36 prósenta markvörslu.

ÍBV varð þar með fjórða og síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitunum. Áður höfðu Selfoss, Haukar og ríkjandi bikarmeistarar Vals gert það.

Undanúrslitaleikirnir fara fram í Laugardalshöll 15. mars næstkomandi og úrslitaleikurinn þremur dögum síðar. Dregið verður í undanúrslit áður en febrúar er úti.