Dæling Stór sanddæluskip verða notuð til að dæla efni af hafsbotni.
Dæling Stór sanddæluskip verða notuð til að dæla efni af hafsbotni. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Umhverfisstofnun telur jákvætt að athugaðir verði möguleikar á efnisvinnslu í sjó við Landeyjahöfn fyrir mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn, ef framkvæmdin verður til þess að fallið verði frá því að flytja vikurinn landleiðina

Umhverfisstofnun telur jákvætt að athugaðir verði möguleikar á efnisvinnslu í sjó við Landeyjahöfn fyrir mölunarverksmiðju í Þorlákshöfn, ef framkvæmdin verður til þess að fallið verði frá því að flytja vikurinn landleiðina. Kemur þetta fram í umsögn stofnunarinnar til Skipulagsstofnunar sem vinnur að áliti um matsáætlun framkvæmdarinnar.

Íslenskt dótturfyrirtæki alþjóðlega sementsframleiðandans Heidelberg hefur hafið vinnu við umhverfismat á efnisvinnslu undan strönd Landeyja- og Eyjafjallasands. Tilgangurinn er að flytja efnið sjóleiðina til Þorlákshafnar og mala það þar og flytja út til íblöndunar við sementsframleiðslu. Fyrirtækið hefur einnig gert áætlanir um efnisvinnslu úr námum í Þrengslum en því fylgja flutningar á landi.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin telur jákvætt að fjallað verði um setflutning Markarfljóts og endurnýjun efnis og það sett í samhengi við jafnvægi og sjálfbærni. Telur stofnunin að gera þurfi grein fyrir grunnástandi og setbúskap, það er að segja hvernig áætlað er að ástandið verði eftir 30 eða 50 ár, enda magn efnis sem ætlunin er að taka á hverju ári meira en nemur framburði Markarfljóts. Þá telur stofnunin vert að skoða hvort efnistakan geti að hluta nýst til að dýpka Landeyjahöfn.
helgi@mbl.is