Jindayris Sýrlenska drengnum Musa Hmeidi, sem er sex ára, var bjargað úr rústunum í gær í Aleppo-héraði.
Jindayris Sýrlenska drengnum Musa Hmeidi, sem er sex ára, var bjargað úr rústunum í gær í Aleppo-héraði. — AFP/Bakr Alkasem
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Allt að 5,3 milljónir manna í Sýrlandi gætu orðið heimilislausar eftir jarðskjálftann,“ sagði fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, Sivanka Dhanapala, á blaðamannafundi í gær

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Allt að 5,3 milljónir manna í Sýrlandi gætu orðið heimilislausar eftir jarðskjálftann,“ sagði fulltrúi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, Sivanka Dhanapala, á blaðamannafundi í gær. „Það er gríðarlegur fjöldi og kemur niður á fólki sem þegar hefur misst heimili sín og er á flótta,“ sagði hann og segir ekki bætandi á hrikalega áfallasögu Sýrlendinga. Átökin í Sýrlandi hófust árið 2011 og nærri hálf milljón manna hefur fallið í átökunum sem neyddu um helming landsmanna til að flýja heimili sín, en margir hafa leitað hælis í Tyrklandi. Um fjórar milljónir manna í norðvesturhluta uppreisnarmanna reiða sig á mannúðaraðstoð. Nú er tala látinna í Tyrklandi og Sýrlandi að nálgast 24 þúsund.

Engin sértæk aðstoð borist

„Sameinuðu þjóðirnar hafa framið glæp gegn sýrlensku þjóðinni í norðvesturhluta landsins,“ sagði Raed Saleh, yfirmaður Hvítu hjálmanna, í samtali við AFP-fréttastofuna, en engin sértæk björgunaraðstoð hefur borist til landsins, og aðeins tvær hjálparsveitir komið í gær og á fimmtudag. Sjálfboðaliðar með aðstoð Hvítu hjálmanna hafa keppst við að finna fólk í rústunum. Í angistarfullri leit að ástvinum sínum hafa þeir engin tæki nema berar hendurnar eða eldhúsáhöld til að grafa með.

Þegar sífellt færri finnast á lífi í rústunum er lífsmark eins og kraftaverk. Þegar sjálfboðaliðar drógu hinn óttaslegna Musa Hmeidi undan rústunum fögnuðu tugir íbúa bæjarins að sögn fréttaritara AFP-fréttastofunnar. Marið andlit litla drengsins var hulið umbúðum eftir að læknar veittu honum skyndihjálp á staðnum í Jindayris, einum af bæjum uppreisnarmanna sem skemmdust mikið í skjálftanum á mánudag.

„Musa var bjargað undan rústunum á fimmta degi eftir jarðskjálftann,“ sagði Abu Bakr Mohammed, einn sjálfboðaliðanna sem drógu drenginn unga út. „Hann hlaut minniháttar áverka, en bróðir hans dó. Fjölskylda hans er enn undir brakinu.” Í bænum Jableh, sem er á valdi stjórnvalda, drógu neyðarsveitir tvo á lífi undan rústunum. Það vekur von að finna fólk með lífsmarki þegar vitað er að meirihluta lifenda er bjargað á fyrstu þremur dögunum frá hamförunum. Sýrlensk stjórnvöld sögðust í gær hafa samþykkt afhendingu mannúðaraðstoðar til svæða sem eru utan yfirráðasvæðis þeirra í norðvesturhluta landsins.

Illa byggð stórhýsi

Tyrkneska lögreglan handtók í gær byggingarverktakann Mehmet Yasar Coskun sem reyndi að flýja land eftir að bygging hans hrundi á mánudag í borginni Antakya í Hatay-héraði. Blokkin var byggð árið 2013 og greindi ríkisfréttastofa Tyrkja frá því að fjöldi fólks væri enn fastur í rústunum. Ströng byggingarreglugerð var sett á 1999 í kjölfar jarðskjálfta í norðvesturhluta landsins sem urðu yfir 17 þúsund manns að bana, en nú hefur komið í ljós að margar nýrri byggingar hafa hrunið, sem hefur valdið mikilli reiði í samfélaginu.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir