Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Þetta hefur vakið mikla athygli og við erum búin að selja dágóðan slatta,“ segir Steindór Gunnar Steindórsson, samskiptastjóri Þjóðminjasafns Íslands.
Gestir á safninu hafa veitt athygli nýrri vöru í gjafavöruverslun þess, svokallaðri blótshlíf. Um er að ræða gerðarlega regnhlíf sem skreytt er gömlum íslenskum blótsyrðum í mörkunarletri safnsins. Blótsyrðin sem prýða regnhlífina eru grábölvað, horngrýtis, ansvítans, déskotans, bévítans, djöfulsins, sveiattan og skrambans. Regnhlífin fæst einnig í netverslun Þjóðminjasafnsins og kostar 4.250 krónur.
Steindór segir að viðeigandi hafi þótt að hefja sölu á regnhlífinni á bóndadaginn sem markar upphaf þess tíma þegar fólk byrjar að blóta þorrann. Hann segir að hlífin sverji sig í ætt við fleiri vörur í versluninni. „Við erum þegar með bolla með sjö íslenskum orðum sem öll tákna einhvers konar ílát, bol með fimm gömlum íslenskum orðum yfir flík á efri hluta búks og taupoka með sama þema. Við reynum að vinna með íslenskuna, passa upp á hana og gera það á sniðugan hátt. Ég fékk þessa hugmynd með regnhlífina í tengslum við þetta. Hugmyndin að blótsyrðunum kom nú bara af því maður er ekki alltaf kampakátur þegar maður þarf að nota regnhlíf. Ég bað starfsfólkið um að koma með kjarnyrt blótsyrði á innri vefnum okkar. Því eldri, þeim mun betri. Þar fékk ég mörg skemmtileg orð sem við síuðum úr.“
Regnhlífin hefur eins og áður segir vakið athygli gesta og á netinu. Steindór segir að meira að segja erlendir ferðamenn, sem telja upp undir 90% gesta safnsins, séu mjög áhugasamir og finnist þetta sniðugt og merkilegt fyrirbæri.
Hann segir jafnframt að einhverjir hafi bent á óvænt not sem hafa megi af regnhlífinni sem starfsfólk Þjóðminjasafnsins hafi ekki séð fyrir. „Við höfum við fengið ábendingar um að fólk þurfi ekki að búa til skilti fyrir næstu mótmæli en það kemur ekki frá okkur,“ segir hann.