Norður
♠ Á43
♥ 63
♦ 8532
♣ KG64
Vestur
♠ KDG107
♥ 4
♦ KDG109
♣ 32
Austur
♠ 952
♥ G752
♦ 74
♣ D1098
Suður
♠ 86
♥ ÁKD1098
♦ Á6
♣ Á75
Suður spilar 4♥.
„Mæl þarft eða þegi,“ segir í Hávamálum og er meint sem ráð til þeirra sem sitja að sumbli. En heilræðið gildir ekki síður við græna borðið, enda fer ógætilegt tal ekki fram hjá glöggum sagnhafa sem „þunnu hljóði þegir, eyrum hlýðir, en augum skoðar“.
Vestur opnar á 1♠ í fyrstu hendi og getur svo ekki stillt sig um að segja 2♦ við opnunardobli suðurs í fjórðu hendi. Norður passar, austur breytir í 2♠ og suður stekkur í 4♥. Spaðakóngur út.
Sagnhafi dúkkar spaðakónginn, tekur næsta slag á spaðaás og spilar trompi á ás. Spilar svo laufás og laufi upp á kóng! Sérkennilegur leikur, en tilgangurinn er djúpur – að afla upplýsinga um laufleguna. Þegar vestur fylgir tvisvar lit dregur sagnhafi þá rökréttu ályktun að vestur sé með einspil í hjarta og svínar fyrir hjartagosann. Tíu slagir, þökk sé lausmælgi vesturs í öðrum hring.