Klíníkin Mikil ánægja hefur verið hjá þeim sem glíma við endómetríósu með að hægt sé að sækja þjónustu þangað.
Klíníkin Mikil ánægja hefur verið hjá þeim sem glíma við endómetríósu með að hægt sé að sækja þjónustu þangað. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta hefur gengið vel og það hefur verið heldur meira tempó í aðgerðunum síðan samið var. Það verður ekkert rof á þessum aðgerðum enda er mikilvægt að þessar konur fái þjónustu,“ segir Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta hefur gengið vel og það hefur verið heldur meira tempó í aðgerðunum síðan samið var. Það verður ekkert rof á þessum aðgerðum enda er mikilvægt að þessar konur fái þjónustu,“ segir Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar.

Tilkynnt var um það í lok nóvember að Sjúkratryggingar Íslands hefðu samið við Klíníkina um kaup á endómetríósuaðgerðum til að vinna niður biðlista. Fyrst um sinn gilti samningurinn aðeins í mánuð eða út árið. Hann var síðan framlengdur um áramótin og gildir nú út þetta ár að sögn Sigurðar. „Greiðsluþátttakan er lykilatriði. Það eru réttindi sjúklinganna að koma þessu í gott horf og engin rök fyrir öðru. Nú þurfum við að vinna á biðlistunum og komast á réttan stað.“

Mikil umræða hefur verið um stöðu þeirra er glíma við endómetríósu síðustu misseri og gagnrýnt hefur verið að löng bið sé eftir meðferð. Fyrir vikið gripu margar konur til þess ráðs að leita til Klíníkurinnar eftir að byrjað var að bjóða upp á meðferðir þar árið 2021. Þar til samið var um greiðsluþátttöku ríkisins á meðferðum þar þurftu þær konur að greiða á bilinu 700 þúsund upp í 1,2 milljónir úr eigin vasa.

Í byrjun síðasta árs biðu um 50 einstaklingar eftir fyrsta viðtali vegna endómetríósu á Landspítalanum og 22 biðu eftir aðgerð. Endómetríósu er ekki hægt að greina með óyggjandi hætti nema með aðgerð. Því hefur greiningartíminn oft verið langur, eða að meðaltali 6-7 ár fram á síðasta ár.

Sigurður segir í samtali við Morgunblaðið að margar konur hafi þurft að bíða lengi og vinna þurfi á uppsöfnuðum vanda. „Við þurfum að gera um það bil 130-140 aðgerðir á ári alla jafna en talsvert fleiri aðgerðir í einhver ár meðan við erum að vinna úr vandanum. Við gætum þurft að gera um það bil 200 aðgerðir í ár.“

Framkvæmdastjórinn hrósar samskiptum við Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og kveðst vona að bráðlega verði hægt að ráðast á stærsta vandamálið, biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. „Staðan núna er sú að rétt um 2.000 manns bíða eftir liðskiptaaðgerðum. Ef þú myndir raða þeim í einfalda röð og virða tveggja metra regluna þá myndi röðin ná frá slippnum vestur í bæ og inn undir Holtagarða.“

Enn hefur þó ekkert þokast í samningum um greiðsluþátttöku á liðskiptaaðgerðum hjá Klíníkinni. „Nei, það eru ekki hafnar neinar viðræður um það. En ég bind miklar vonir við það að eitthvað fari að gerast í alvörunni.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon