Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Vofa sést á sveimi hér. Síðan grind í hliði er. Á velli steinn, sem laskar ljá. Letingi er piltur sá. Helgi R. Einarsson kemur hér með lausnina frá Tene: Vofa og grind í hliði hér og hulinn steinn eitt nafnið ber, það líka kallast letihaugur

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Vofa sést á sveimi hér.

Síðan grind í hliði er.

Á velli steinn, sem laskar ljá.

Letingi er piltur sá.

Helgi R. Einarsson kemur hér með lausnina frá Tene:

Vofa og grind í hliði hér

og hulinn steinn eitt nafnið ber,

það líka kallast letihaugur.

Lausnin virðist hér nú draugur.

Guðrún B. leysir gátuna:

Draugur er dáldið á sveimi,

draugurinn snýst í hliði

og draugur í heyljásins heimi.

Svo hangsar draugur í liði.

Harpa á Hjarðarfelli á þessa lausn:

Draugur er djöfulleg vofa.

Draugur í hliðinu snýst.

Draugur sem drengir ei lofa.

Draugur er letingi víst.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna svona:

Draugur sést á sveimi hér.

Síðan draugur hliðgrind er.

Draugur steinn, sem laskar ljá.

Letiblóð draug kalla má.

Þá er limra:

Hún Lauga gamla á Laugum

kvað lifandis býsn af draugum

fylgja Sveini,

en fylgja Steini

framliðna, sem hún laug um.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Regnið dynur rúðum á,

rysjótt mjög er tíðarfar,

best er að húka heima þá

og halda sig við gáturnar:

Heystabba má hérna sjá.

Hlífðarflík er sjónum á.

Með flatan koll er klettur sá.

Kalla líka taðhrauk má.

Stakan „Draugur“ eftir Káinn:

Loks er endað lífsins skeið;

lítið hér að gera,

til þín kenndur legg ég leið,

lofaðu mér að vera.

Káinn lýsir viðhorfi sínu til samferðamannanna og þeirra til hans:

Óviljandi aldrei laug

oft við Bakkus riðinn

af flestum sem að fælast spaug

fremur illa liðinn.

Áhyggjur sóttu að Káinn:

Niðri á sandi nástrandar

nepja er blandin hita.

Hvort að landar þrífast þar

það má fjandinn vita.

Indriði á Fjalli kvað:
Haltu fast um heiður þinn,
hann svo ekkert skerði.
Gefa má þó sóma sinn
en selja aldrei verði.