Shania Twain var í banastuði á Grammy-verðlaununum um daginn.
Shania Twain var í banastuði á Grammy-verðlaununum um daginn. — AFP/Robyn Beck
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mér líður [eins og að ég hafi fengið annað tækifæri], sérstaklega vegna þess að ég missti söngröddina svo lengi. Ég óttaðist að ég myndi aldrei gera fleiri plötur og ekki framar leggjast í tónleikaferðalag

Mér líður [eins og að ég hafi fengið annað tækifæri], sérstaklega vegna þess að ég missti söngröddina svo lengi. Ég óttaðist að ég myndi aldrei gera fleiri plötur og ekki framar leggjast í tónleikaferðalag. Þess vegna er mér hátíð í hug og mig langar ekki að sóa andrúmslofti eða ganga að neinu sem gefnu. Covid ýtti líka við mér svo um munaði, ég varð svo iðin og samdi svo mörg lög.“

Þannig komst sveitasöngkonan vinsæla Shania Twain að orði í samtali við útvarpsþáttinn All Things Considered í Bandaríkjunum á dögunum en fyrsta breiðskífa hennar í sex ár, Queen of Me, kom út í byrjun mánaðarins.

Platan var samin í heimsfaraldrinum og Twain leit á sköpunarferlið, eins og endranær, sem þerapíu. „Út af þessari þvinguðu einangrun og öllu því varð ég að rífa mig upp og hressa mig við. Þess vegna byrjaði ég að semja lög sem komu mér til að dansa og í gott skap,“ sagði hún í viðtalinu.

Twain veiktist raunar heiftarlega af kórónuveirunni. „Ég fékk lungnabólguna sem fylgir veirunni og endaði í lausu rúmi á spítala. Ég hafði það af, sem er yndislegt, en áður þurfti ég að gangast undir nokkrar meðferðir, plasmameðferðir. Þegar ég losnaði af spítalanum gat tímasetningin ekki verið betri – ég heyrði einhvern tala um andrúmsloft, þá blessun sem því fylgir … og ég byrjaði að semja lag um allt sem við getum gert við loftið, annað en það sem blasir við.“

Fjallað var um hremmingar Twain í heimildarmynd á Netflix á liðnu ári og hún vonar að einhverjir hafi fundið styrk í því sem hún hafði þar að segja. „Ég meina, það eru margir sem hafa gengið eða eru að ganga gegnum miklu meiri erfiðleika en ég. En eina ráðið sem ég get gefið er: Alls ekki gefast upp! Sjálfri hefur mér margliðið eins og að ég geti ekki haldið áfram … en þetta er aldrei búið fyrr en það er búið, það verðum við öll að muna. Mín sjálfsbjörg er lagasmíðar … finnið eitthvað sem gerir ykkur kleift að ná valdi á líðan ykkar.“

Djúpstæð áhrif

Margir fagna nýju efni frá Twain en réttum þrjátíu árum eftir að fyrsta plata hennar kom út virðist hún enn eiga erindi og áhrifin á samtímapopptónlist eru óumdeild, eins og vefur breska ríkisútvarpsins, BBC, benti á í skemmtilegri grein á dögunum.

BBC vitnaði meðal annars í hina vinsælu indípoppsveit Muna sem kveðst vera undir sterkum áhrifum frá Twain. „Það er auðvelt að líta á víðtækar vinsældir kántrípopps sem sjálfsagðan hlut og auðvelt að gleyma því að þetta tiltekna svið hefði að öllum líkindum ekki orðið til nema vegna djúpstæðra áhrifa Shaniu Twain og fjölmargra smella hennar. Hún er sniðmátið.“

BBC kallar fleira málsmetandi fólk til vitnis, þar á meðal sjálfa Taylor Swift sem þakkaði Twain á samfélagsmiðlum árið 2021 fyrir að hafa lóðsað sig úr kántríinu yfir í poppið.

Hin vinsæla söngkona og lagahöfundur, Rina Sawayama, hefur kallað Twain „drottningu kántrípoppsins“ og sú bresk/japanska vitnaði meira að segja í heróp hennar í smell sínum This Hell sem út kom á síðasta ári: „Let's go girls!” Ekki þarf að segja ykkur að sú tilvitnun er úr ofursmellnum Man! I Feel Like a Woman!

Tvö upphrópunarmerki í sama lagatitlinum. Hversu harðir geta menn orðið?

Karlar líta ekki síður upp til Twain en athygli vakti þegar einn vinsælasti tónlistarmaður heims um þessar mundir, Bretinn Harry Styles, bauð henni að taka með sér lagið á Coachella-tónlistarhátíðinni í fyrra. Af því tilefni gróf BBC upp gömul ummæli frá Styles. „Ég held að bæði í tónlist og tísku sé Shania Twain minn helsti áhrifavaldur. Mér finnst hún geggjuð.“

Tenging í rauntíma

Styles og Twain sungu einmitt saman Man! I Feel Like a Woman! og stjórnandi útvarpsþáttarins All Things Considered gat ekki setið á sér að spyrja hana út í þá veislu og hvernig það sé að fá slíka kynningu meðal yngri kynslóða.

„Það er alveg frábært,“ svaraði Twain. „Það endurhleður mig á óteljandi vegu og hvetur mig til dáða að vita og fylgjast bókstaflega sjálf með í rauntíma þegar tónlistin mín tengir mig aftur við aðdáendur sem núna eru á þrítugs- og fertugsaldri og voru börn í áhorfendaskaranum fyrir öllum þessum árum. Núna eru þau orðin að fólki eins og Harry Styles ... það er bara meiriháttar.“

BBC þykir mikið til siglingarinnar á Twain koma, ekki síst í ljósi þess að Queen of Me er aðeins önnur breiðskífa hennar frá árinu 2002. Hin var Now sem kom út 2017. Mögulega hafa vaxandi vinsældir tíunda áratugarins meðal yngra fólks eitthvað að segja. Í öllu falli kinkar Twain kolli til þess dýrðartíma í sögu mannkyns í slagaranum Giddy Up! á Queen of Me. Greinilega mikil upphrópunarmerkismanneskja, Shanian okkar. En þar segir sum sé: „I got a fast car with the '90s on.“

Ekki spillti fyrir vinsældunum að myndböndin við lög Twain voru alla jafna eitursvöl. Hver man ekki eftir henni sposkri á svip á puttanum í eyðimörkinni í hlébarðadressi í That Don't Impress Me Much? Þar sem Brad Pitt hreif hana ekki neitt. Hversu svalur má maður vera til að hlaða í þá línu? Enginn getur heldur gleymt myndbandinu við Man! I Feel Like a Woman! þar sem hún drottnar yfir hópi karlmanna og snýr þannig við hlutverkunum í Addicted to Love með Robert Palmer. Var það óður eða ádeila?

Tja, segið þið mér!

Þreföld demantssala

Eilleen Regina Edwards, sem síðar tók sér listamannsnafnið Shania Twain, fæddist í Windsor í Ontariofylki í Kanada árið 1965. Fyrsta plata hennar, Shania Twain, kom út 1993 en náði ekki lýðhylli. The Woman in Me, sem kom út tveimur árum síðar, gekk mun betur og með Come On Over (1997) varð hún stórstjarna. Up!, sem kom út 2002, varð svo þriðja plata Twain í röð til að ná demantssölu, það er yfir 10 milljón eintökum. Það hefur engin kona leikið eftir.

Come On Over sker sig úr en hún hefur selst í um 40 milljón eintökum á heimsvísu. Þar er meðal annars að finna ofurballöðurnar From This Moment On og You're Still the One sem enn heyrast reglulega í útvarpi og á óteljandi karíókíbörum