Mótaröð stúlkna Þær Guðrún Fanney Briem og Iðunn Helgadóttir (við gluggann) háðu harða baráttu um sigurinn á lokamóti stúlkna, sem Skákskólinn stóð fyrir en fimmta mótið fór fram í sal Siglingaklúbbsins Ýmis við Naustavör. Guðrún varð hlutskarpari að þessu sinni en Iðunn er sigurvegari mótaraðarinnar. Þá má sjá Katrínu Maríu Jónsdóttur (t.v.) sem hlaut bronsverðlaun tefla við Töru Líf Ingadóttur.
Mótaröð stúlkna Þær Guðrún Fanney Briem og Iðunn Helgadóttir (við gluggann) háðu harða baráttu um sigurinn á lokamóti stúlkna, sem Skákskólinn stóð fyrir en fimmta mótið fór fram í sal Siglingaklúbbsins Ýmis við Naustavör. Guðrún varð hlutskarpari að þessu sinni en Iðunn er sigurvegari mótaraðarinnar. Þá má sjá Katrínu Maríu Jónsdóttur (t.v.) sem hlaut bronsverðlaun tefla við Töru Líf Ingadóttur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir níundu og síðustu umferð Skákþings Reykjavíkur, sem lauk sl. sunnudag, var Vignir Stefánsson einn í efsta sæti með 6½ vinning og hafði hvítt í skák sinni við Alexander Oliver Mai, sem var jafn Alexandr Domalchuk-Jónassyni og Jóhanni Ingvasyni

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Fyrir níundu og síðustu umferð Skákþings Reykjavíkur, sem lauk sl. sunnudag, var Vignir Stefánsson einn í efsta sæti með 6½ vinning og hafði hvítt í skák sinni við Alexander Oliver Mai, sem var jafn Alexandr Domalchuk-Jónassyni og Jóhanni Ingvasyni. Það mátti alveg gera ráð fyrir því að Vignir myndi klára dæmið, vinna Alexander og halda efsta sætinu. En það fór á annan veg; Alexander tefldi af miklu öryggi, vann góðan sigur og náði þar með efsta sæti ásamt Alexandr Domalchuk sem vann Jóhann Ingvason. Þeir hlutu báðir 7 vinninga af 9 mögulegum en Alexandr var úrskurðaður sigurvegari eftir stigaútreikning og hlýtur því sæmdarheitið Skákmeistari Reykjavíkur 2023. Kannski mætti breyta reglunum og tefla um titilinn þegar menn verða jafnir í efsta sæti eins og gert var í eina tíð en það breytir því ekki að Alexandr er vel að titlinum kominn.

Skákþing Reykjavíkur 2023, sem fór fram samtímis Skákhátíð Fulltingis, leiðir fram kynslóð skákmanna 20 ára og yngri sem mikils má vænta af í framtíðinni. Vignir Vatnar, Alexandr og Alexander Oliver eru þeirra á meðal en einnig nokkrir aðrir og má þar nefna bræðurna Stephan og Benedikt Briem, Arnar Milutin og aðra sem hækkuðu verulega á stigum eins og t.d. Þorstein Jakob Þorsteinsson og Adam Omarsson. Svo eru þarna enn yngri skákmenn sem verður gaman að fylgjast með á næstunni.

Á skákhátíð Fulltingis urðu litlar breytingar sl. mánudag m.a. vegna þess að skák efstu manna í A-riðli var frestað. Nánar verður fjallað um mótið í næsta pistli.

Benedikt Briem varð í 3.-5. sæti ásamt Vigni og Davíð Kjartanssyni. Honum hefur farið mikið fram undanfarið sbr. eftirfarandi skák:

Skákþing Reykjavíkur 2023; 7. umferð:

Benedikt Briem – Davíð Kjartansson

Gamal-indversk vörn

1. d4 d6 3. Rf3 Rd7 3. c4 e5 4. Rc3 Rgf6 5. e4 Be7 6. Be2 0-0 7. 0-0 c6

Uppbygging svarts með biskupinn á e7 er furðu vinsæl. Hvítur velur strax þá leið að loka miðborðinu og nýtur þá um stund a.m.k. meira rýmis.

8. d5 c5 9. Re1 h6 10. Rd3 Rh7 11. Kh1 Bg5 12. a3 g6 13. b4 b6 14. Bxg5 Rxg5 15. Dd2 Rf6 16. De3 Kg7 17. Hae1 Rgh7 18. f4 exf4 19. Dxf4 Re8

Svarta staðan er óteflandi m.a. vegna þess að það er enga fótfestu að fá á e5. Hvítur á nokkra góða leiki og velur ...(STÖÐUMYND 1)

20. Bd1!

20. e5 kom einnig sterklega til greina. En áður en sú atlaga hefst vill Benedikt finna biskupnum stað á a4 og opnar líka fyrir hrókinn á e1.

20. ... cxb4 21. axb4 Ba6 22. e5 dxe5 23. Rxe5 Dd6

Það var fátt um varnir en nú kemur þrumuleikur:(STÖÐUMYND 2)

24. Dxh6+ Kg8 25. Rxf7 Hxe1 26. Dxg6+ Kf8 27. Hxe1 Dxb4 28. Rh6

– og svartur gafst upp.

Ivantsjúk teflir á Reykjavíkurskákmótinu

Úkraínski stórmeistarinn Vasilí Ivantsjúk verður meðal þátttakenda á Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu sem hefst 29. mars og stendur til 4. apríl nk. Ivantsjúk verður að telja frægasta skákmann Úkraínu fyrr og síðar og einn þann litríkasta. Ivantsjúk hefur tvívegis teflt hér á landi, fyrst árið 1990 í stórveldaslag FIDE, sem Einar S. Einarsson forstjóri VISA Ísland skipulagði, og var svo aftur mættur til leiks á heimsbikarmót GMA, Samtaka atvinnustórmeistara, sem fram fór á Loftleiðahótelinu haustið 1991. Þar varð hann efstur ásamt Anatolí Karpov.