Á skrifstofunni Halldór Einarsson með sýnishorn af nýju hárbandi með merki, nafni og höggvörn.
Á skrifstofunni Halldór Einarsson með sýnishorn af nýju hárbandi með merki, nafni og höggvörn. — Ljósmynd/G. Jóhannesson/Nærmynd
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Halldór Einarsson, fataframleiðandi og eigandi Henson Sports, hefur hannað hárbönd með höggvörn, sótt um einkaleyfi á hönnuninni og er kynning og sala hafin hérlendis, en stefnt er að sölu til annarra landa. „Við veltum því fyrir okkur hvort hárbönd með höggvörn séu það besta sem bæst hefur við útbúnað íþróttamanna um langt skeið, nú þegar umræða um afleiðingar höfuðhögga eykst og leitað er ráða til að koma í veg fyrir höfuðmeiðsl og langvarandi mögulegar afleiðingar,“ segir hann.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Halldór Einarsson, fataframleiðandi og eigandi Henson Sports, hefur hannað hárbönd með höggvörn, sótt um einkaleyfi á hönnuninni og er kynning og sala hafin hérlendis, en stefnt er að sölu til annarra landa. „Við veltum því fyrir okkur hvort hárbönd með höggvörn séu það besta sem bæst hefur við útbúnað íþróttamanna um langt skeið, nú þegar umræða um afleiðingar höfuðhögga eykst og leitað er ráða til að koma í veg fyrir höfuðmeiðsl og langvarandi mögulegar afleiðingar,“ segir hann.

Fyrirtækið var stofnað 1969 og hárbönd hafa lengst af verið hluti fjölbreyttrar framleiðslu. „Vinsældir þeirra jukust þegar við tókum í notkun nýja prenttækni sem við köllum heilprentun,“ segir Halldór. Notað sé blek sem breytist í gas við mjög hátt hitastig og gengur inn í efnið. „Með slíkri aðferð andar í gegnum efnið og hægt er að þvo það endalaust án þess að prentunin springi eða losni, öfugt við silkiprentun sem framkvæmd er með málningu.“

Að sögn Halldórs byggist langstærsti hluti framleiðslu fyrirtækisins á þessari prentun. „Viðskiptavinir kunna að meta að með henni getum við prentað búninga í 74 sentimetra stærð á nýfætt barn eða á einhvern sem þarf stærð 5XL.“

Virka eins og legghlífar

Efnið í hárböndin með höggvörninni er vandlega valið í samstarfi við þekkt fyrirtæki í Nottingham á Englandi. „Það selur okkur þrautreynt efni sem reynst hefur afar vel sem viðbætur í fatnað fyrir vissar íþróttir. Einnig til dæmis fyrir lögreglu þar sem brýn þörf er á höggvörn enda efnið einstaklega vel fallið til þess að verja notandann gegn höggi.“

Með aukinni tækni hafa búningar breyst til hins betra í áranna rás og Halldór líkir hárböndum með höggvörn við legghlífar. „Fyrstu legghlífarnar urðu einmitt til í Nottingham 1874, þegar Sam Widdowson, sem lék krikket með Nottinghamshire og knattspyrnu með Notthingham Forest, bjó þær til, til eigin nota. Legghlífar koma ekki í veg fyrir slys en hafa sannað gildi sitt og þannig horfum við til okkar nýju framleiðslu.“

Halldór segir að í samráði við erlenda stofnun hafi sérstaða þessarar framleiðslu verið könnuð, þar sem sameinist höggvörn, prentun í litum félaga með merkjum þeirra og nöfnum. „Við erum búin að sækja um einkaleyfi á þessari hönnun. Svört hárbönd með höggvörn hafa sem betur fer verið í boði en okkar bönd bjóða upp á óendanlega möguleika á útliti í prentun. Því geta þau eins borið auglýsingar fyrirtækja eða hvers kyns skilaboð. Þau má þvo að vild og þar sem þau eru með frönskum rennilás til að loka þeim að aftan dugir ein stærð fyrir alla aldursflokka.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson