Úr bæjarlífinu
Gunnlaugur Árnason
Stykkishólmi
Þorrablótið var haldið hér í Hólminum um síðustu helgi eftir þriggja ára hlé. Skemmtunin fór fram í íþróttahúsinu. Aðsóknin fór fram úr væntingum og var blótið það fjölmennasta hingað til. Um 300 manns voru samankomnir. Að þessu sinni var ákveðið að fara í samstarf við Fosshótel sem sá um matinn og Körfuboltadeild Snæfells kom að uppsetningu og samantekt í lokin.
Með rýmri aðstöðu skapaðist tækifæri fyrir brottflutta að viðhalda Hólmaranum í sér, fjölmenna og hitta gamla félaga. Það er mat fráfarandi nefndar að með þessu fyrirkomulagi hafi skapast tækifæri til að efla og styrkja enn frekar þorrablótið í Sveitarfélaginu Stykkishólmi og gera þannig gott samfélag enn betra.
Árnasetur, skrifstofu- og frumkvöðlasetur, var stofnað árið 2021 í húsi því sem áður hýsti starfsemi Arion banka. Setrið hefur frá því í nóvember átt í viðræðum um leigu á húsnæðinu við erlent stórfyrirtæki sem starfar um allan heim í 127 löndum. Markmiðið er að efla samfélagið í heild sinni og auka fjölbreytni atvinnulífsins í sveitarfélaginu. Nánari tilkynning verður gefin út á næstu dögum.
Veðráttan í Hólminum hefur verið mjög sérstök síðustu þrjá mánuði eins og víða annars staðar á landinu. Má skipta veðrinu í þrjú tímabil. Nóvember var sérlega hlýr, sá næsthlýjasti frá því að samfelldar mælingar hófust hér í Stykkishólmi árið 1845 (177 ára saga). Desember var aftur á móti kaldur og aðeins er vitað um 20 kaldari desembermánuði frá byrjun mælinga. Desember var einnig mjög þurr. Um miðjan janúar skipti um með stöðugum sunnanáttum, miklu hvassviðri og úrkomu. Meðalhiti ársins 2022 var 4,5 stig sem er í meðallagi og úrkoman 796 mm sem mældist aðeins umfram meðallag.
Íbúum Stykkishólms hefur fjölgað á síðustu árum. Því er mikil þörf á frekari uppbyggingu með nýju hverfi, Víkurhverfi. Þar er gert ráð fyrir 30-40 fjölbreyttum íbúðarkostum í fyrsta áfanga. Á næstu dögum verður farið í útboð á gatnagerð og fráveitu í Víkurhverfi . Að sögn bæjarstjóra er vonast til að hægt verði að úthluta lóðum síðar á þessu ári.
Dvalarheimilið fær nýtt hlutverk í nánustu framtíð. Sveitarfélagið ætlar að stofna nýja miðstöð öldrunarþjónustu þegar Hjúkrunarrými Dvalarheimilis flyst í maí yfir í nýtt glæsilegt 18 herbergja húsnæði í St. Franciskusspítalanum. Miðstöðinni er ætlað að vera fyrsta skrefið í átt að markvissri vinnu við að samþætta alla félags- og heilbrigðisþjónustu við eldra fólk í Stykkishólmi. Með tilkomu miðstöðvarinnar er ætlunin að bæta enn frekar þjónustu við þennan aldursflokk. Starf forstöðumanns miðstöðvarinnar hefur verið auglýst laust til umsóknar.
Ferjan Baldur var mikið í umræðunni í nóvember þegar aðalvél skipsins bilaði rétt utan við hafnarmynnið í Stykkishólmi. Miklar umræður sköpuðust um öryggisþáttinn og Vegagerðin ákvað í framhaldinu að kaupa eða leigja nýja ferju sem allra fyrst. Á meðan beðið er eftir nýju skipi liggur öflugur dráttarbátur við bryggju í Hólminum tilbúinn til taks ef bilanir koma upp að nýju.
Vegagerðin segir að enn sé lítið að frétta af málinu og engar ákvarðanir teknar um framhaldið. Samningur við Sæferðir ehf., eigendur Baldurs, rennur út í lok maí nk. Ekkert verður gert af hálfu Vegagerðarinnar án útboðs og það ferli tekur tíma. Tíminn líður og sumarið er framundan. Yfir sumartímann eru ferjusiglingar yfir Breiðafjörð mikilvægar ferðaþjónustunni og tengja saman Vestfirði og Snæfellsnes. Það sama á við um laxaflutninga. Afar áríðandi er að eyða óvissunni fyrir sumarið og fá að vita hvað Vegagerðin ætlar sér í samningslok.
Ferðaþjónustan í Hólminum hefur að mestu legið í dvala frá því í nóvember. Flestir veitingastaðir hafa verið lokaðir og gisting takmörkuð, enda lítið um ferðamenn. Þess vegna er ekki hægt að bjóða störf allt árið. Þetta gerir það að verkum að eitt af haustverkefnum er að segja upp starfsfólki í ferðaþjónustu og bíða í voninni um að gott starfsfólk fáist að vori. Bjartsýni ríkir þó um komandi sumar og það styttist í vorið.