Vettvangur
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Þegar rætt er um stjórnmál líðandi stundar blasir við að skilin milli hægri og vinstri eru önnur en áður var. Hér á landi er miðjustjórn. Í ríkisstjórninni sitja fulltrúar Sjálfstæðisflokks (mið-hægri), Framsóknarflokks (miðjan) og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (VG) (vinstri). Sömu sögu er að segja um dönsku ríkisstjórnina þar sem jafnaðarmenn og mið-hægri Venstre flokkurinn og brot úr honum, Moderaterna, sitja saman og mynda brú yfir gjána milli vinstri og hægri eftir þingkosningarnar 1. nóvember 2022.
Í Grikklandi er mið-hægri stjórn frá 2019 undir forsæti Kyriakos Mitsotakis. Þykir hún hafa náð undraverðum árangri við að bæta efnahag Grikkja sem þoldu miklar þrengingar eftir hrunárið 2008 og síðan vegna vinstri stjórnar sem var undir hælnum á ESB og stjórnaði á heimavelli að hætti popúlista.
Er grísku stjórninni undir forsæti Mitsotakis hrósað fyrir hvernig hún tók á COVID-19 faraldrinum, hvernig hún hefur brugðist við straumi hælisleitenda og staðið að rekstri þjóðarbúsins. Vikuritið The Economist tilnefndi Grikkland Top Economic Performer árið 2022, veitti landinu toppeinkunn fyrir stjórn efnahagsmála.
Nú undir lok janúar flutti gríska stjórnarandstaðan vantraust á Kyriakos Mitsotakis í þinginu. Greidd voru atkvæði um tillöguna föstudaginn 27. janúar. Var henni hafnað með 156 atkvæðum gegn 143 á 300 manna þingi Grikklands.
Vantrauststillagan átti rætur í hlerunarhneyksli. Upplýst var að stjórnmálamenn hefðu verið hleraðir, yfirmenn í hernum og blaðamenn. Sósíalistinn Alexis Tsipras, fyrrverandi forsætisráðherra, sakaði Mitsotakis um lygar, hann hefði víst skipulagt hleranirnar.
Kosið verður til þings í Grikklandi í vor og verður þetta mál notað af stjórnarandstöðunni til að sverta forsætisráðherrann og grafa undan vinsældum hans meðal kjósenda. Athyglinni verður þar með beint frá árangrinum sem náðst hefur við endurreisn gríska þjóðarbúsins en að persónu forsætisráðherrans með ásökunum um spillingu.
Í tilefni af tilnefningu The Econmist og almennt í umræðum um velgengni Grikkja eftir hörmungarár hrunsins er sagt að góðan árangurinn megi rekja til mið-hægri stjórnar sem boði markaðshagkerfi, fylgi grænni stefnu og gæti hagsmuna þeirra sem minnst mega sín. Var Mitsotakis spurður á CNN hvort stefna af þessu tagi dygði til að halda popúlisma í skefjum.
Forsætisráðherrann svaraði að í stjórnmálum nú á tímum væru skilin ekki aðallega á milli mið-hægri og mið-vinstri heldur milli þeirra sem hefðu trú á stefnumörkun, raunsæi og starfhæfu lýðræðiskerfi og hinna sem lofuðu öllu fögru en græfu jafnframt undan lýðræðislegum stofnunum. Hann væri vissulega mið-hægri stjórnmálamaður en margt af því sem hann hefði hrundið í framkvæmd mætti telja til vinstri.
Oft er látið eins og popúlistar, lýðskrumarar, séu aðeins á hægri kanti stjórnmálanna. Þetta er rangt. Þeir eru ekki síður til vinstri eins og Grikkir kynntust í tíð Alexis Tsipras sem forsætisráðherra.
Fram í miðja vikuna héldu sex þingmenn Pírata alþingi í gíslingu með málþófi um útlendingafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem dómsmálaráðherra flutti. Að dæmi popúlista höfðu þeir enga lausn á alvarlegum og vaxandi vanda vegna stöðunnar við landamærin.
Miðvikudaginn 8. febrúar sneru Píratarnir svo snögglega við blaðinu og þingflokkurinn sendi frá sér yfirlýsingu um að fullreynt væri að opna augu stjórnarliða til varðstöðu um stjórnarskrána. Stjórnarmeirihlutinn hefði ákveðið að útlendingamálið yrði áfram í forgangi á kostnað annarra mála á þingi, dagskrárvaldið væri í höndum meirihlutans.
Tilkynningin bar vott um að þrátt fyrir allt mætti raunsæi sín nokkurs í Pírataflokknum. Þriðjudaginn 7. febrúar hafði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hvatt þingmenn írata til að hætta „grímulausu málþófi“ þótt þeir þættust samt greiða fyrir störfum þingsins. Þetta væri „slæmt fyrir orðspor“ þingsins, „vont fyrir stjórnmálin á Íslandi“ og „alls ekki til heilla fyrir þjóðina“. Og í þingtíðindum stendur: „Ég segi bara: Hættið málþófinu og höldum áfram að vinna vinnuna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.).“
Í fyrra héldu stjórnarandstæðingar uppi málþófi fram að sveitarstjórnarkosningum en snarhættu því að þeim loknum. Endalausu þingræðurnar skiluðu þeim engu í kjörkössunum. Á síðasta kjörtímabili efndi Miðflokkurinn til maraþon málþófs um þriðja orkupakkann og gekk það næstum af flokknum dauðum í þingkosningunum í fyrra. Píratar sáu sem sagt sína sæng upp reidda og hættu málþófinu eftir um 90 klukkustunda eintal í þingsalnum. Eina málþófið sem skilað hefur markverðum árangri á öldinni var þegar sjálfstæðismenn stöðvuðu stjórnlagatillögur Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2009.
Nú er að sjá hvað popúlistarnir í Eflingu gera. Það fór eins og hér var spáð að dagskrárstjórinn og formaðurinn völdu litla verkfallshópa til skæruhernaðar í nafni Eflingar á sama tíma og barist væri við ríkissáttasemjara í dómsalnum. Nú er beðið eftir landsrétti en tíminn notaður til að sýna valdið með verkfallsvörðum – raunsæi Pírata reynist meira en þeirra sem stjórna Eflingu.
Í Eflingu beita vinstri popúlistar sér gegn farsælli framvindu efnahagsmála. Í kjölfar COVID-lokunar taka þeir ferðaþjónustuna í gíslingu án þess að hafa minnstu hugmynd um hvernig þeir ætla að leysa þann vanda sem þeir skapa. Þeim er í raun alveg sama, fyrir þeim vakir aðeins að sýna vald.