Aðalsteinn Jónsson SU-011 er eitt uppsjávarskipa Eskju og kemur til með að reyna við loðnuna a vertíðinni.
Aðalsteinn Jónsson SU-011 er eitt uppsjávarskipa Eskju og kemur til með að reyna við loðnuna a vertíðinni. — Ljósmynd/Eskja
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við notum mikið rafmagn í okkar vinnslu og mikið ólag búið að vera á því í janúar. Við erum búin að vera á kolmunna í janúar og hefur gengið mjög vel hjá félaginu. Þennan tíma höfum við verið á varaaflinu og keyrt á olíu

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Við notum mikið rafmagn í okkar vinnslu og mikið ólag búið að vera á því í janúar. Við erum búin að vera á kolmunna í janúar og hefur gengið mjög vel hjá félaginu. Þennan tíma höfum við verið á varaaflinu og keyrt á olíu. Það er verið að skerða rafmagn til verksmiðjanna í tíma og ótíma, stöðugt verið að breyta og gefa út nýjar skerðingar. Þetta er bara ástandið sem við búum við. Kerfið okkar nær bara ekki að anna þessu. Mér skilst það hafi verið einhverjar bilanir sem orsaka þetta, kerfið okkar er ekki betra en það,“ segir Páll.

Hann tekur fram að það að félagið fái ekki nægt rafmagn hafi ekki háð rekstrinum. „En það er ótækt að vera á olíu og fá ekki það rafmagn sem við óskum eftir. Eftir því sem ég kemst næst er þetta aflskortur en ekki orkuskortur, þetta hefur áhrif áflutningskerfið en verið er að flytja raforku suður vegna bilana þar.“

Augljóst er að það fylgi því meiri kostnaður að keyra varaafl á olíu og ekki síst er það óumhverfisvænna. Páll segir það þó ekki einu ókosti olíunnar. „Við erum búin að aðlaga verksmiðjurnar að rafmagni og með sjálfbærni að leiðarljósi. Þetta er bara nýtt ástand sem þarf að bregðast við og við erum einmitt að fjárfesta mikið í nýjum búnaði fyrir varaflið um þessar mundir. Það virðist bara vera nauðsynlegt eins og staðan er og málin eru að þróast, enda þurfum við að tryggja okkar rekstarröryggi. Án orku gerum við lítið.“

Ná sem mestu til manneldis

Aðspurður kveðst Páll ekki eiga von á því að verkfall bílstjóra hafa áhrif á olíunotkun félagsins. „En loðnuvertíðin er að byrja og það er mikið í húfi. Héðan í frá er um að ræða um það bil einn mánuð, kannski fimm vikur og vonandi sex. Ég á von á því að þessari loðnuvertíð ljúki á bilinu 15. til 20. mars. Við eigum töluvert eftir að veiða á þessum tímapunkti og veður mun skipta sköpum. Við erum að keppa við tímann fram að því að loðnan hrygnir og svo er þetta bara búið.“

Nokkrar vikur til stefnu er ekki langur tími með tilliti til þess að innan við 10% af kvótanum hefur fengist upp úr sjó. Eftir á að veiða töluvert magn. Stöðuna má rekja til þess hve seint 57 þúsund tonna viðbótarkvóta var bætt við leyfilegan hámarksafla vertíðarinnar. Þá hefur veðrið séð til þess að loðnuskip hafa legið við bryggju.

„Við förum í þessa vertíð með það fyrir augum að ná sem mestu af loðnunni í manneldi en í fyrra fór mjög mikið í mjöl og lýsi,“ útskýrir Páll og bendir á að útgefin loðnukvóti á síðustu vertíð hafi verið óvenju mikill.

Brjálað veður

„Það er búið að vera brjálað veður og allur flotinn í landi en nú eru skipin að tínast út, meira að segja norsku skipin líka. Þeir mega ekki veiða sunnar en við ákveðna línu eins og þekkt er og geta því ekki elt loðnuna suður með landinu eins og við gerum. Skipin okkar fóru á miðin miðvikudagskvöld í stuttum veðurglugga fyrir helgi. Við höfum væntingar um að ná loðnu sem er að ganga upp á grunnið. Við erum komin á það stig að fara að veiða loðnuna í grunnnót og fara með hana í gegnum uppsjávarfrystihúsið, flokka og vinna,“ segir Páll.

Spurður um horfurnar á mörkuðum fyrir afurðirnar, svarar Páll að erfitt sé að segja til um það. „Við höfnum okkar föstu kaupendur og frystum bæði hrygnu og hæng. Hrygnu fyrir Japansmarkað og hæng fyrr Austur-Evrópumarkað. Þegar líður á vertíðina, í mars, förum við að einbeita okkur að hrognaskurði og frysta hrogn og bindum miklar vonir við að það gangi vel.“

Eskja hefur lagt áherslu á uppsjávarveiðarnar sem framkvæmdastjórinn viðurkennir að geti verið mjög sveiflukenndar. Spurður hvort þetta skili nægum verkefnum fyrir starfsfólkið, svarar hann: „Þegar vertíðir eru þá erum við með starfsfólk til skemmri tíma, en þess á milli reiðum við okkur á fastan kjarna. Þetta eru starfsmenn sem kemur til okkar aftur og aftur á þessar vertíðir. Loðnuvertíðin er í ferbúar og mars, svo kemur makrílvertíð í júlí, ágúst og september. Þegar það er unnið á vertíð er unnið allan sólarhringinn, en þá er ekki endilega unnið alla daga, en það fer eftir því hvernig gengur að veiða hverju sinni.“

Fyrst og fremst uppsjávarútgerð

Eskja er fjölskyldufyrirtæki á Eskifirði en hét áður Hraðfrystihús Eskifjarðar. Fyrirtækið var stofnað 8. maí 1944 í því skyni að skjóta styrkum stoðum undir fábreytilegt atvinnulíf bæjarins. Félagið hefur vaxið og dafnað í áranna rás og starfsmenn fyrirtækisins eru í dag um 100 talsins.

Eskja leggur áherslu á uppsjávarútgerð og fer með 8,8% af aflaheimildum í loðnu, 19,2% í kolmunna, 9,6% í makríl og 8,5% í norsk-íslenskri síld. Þá gerir fyrirtækið út skipin Aðalstein Jónsson SU-11, Jón Kjartansson SU-111, Guðrúnu Þorkelsdóttur SU-211 og Jón Kjartansson SU-311.

Fyrirtækið rekur fiskimjölsverksmiðju og háþróaða uppsjávarvinnslu. Nýtt uppsjávarfrystihús Eskju er 7.000 fermetrar að stærð og býr yfir vinnslugetu upp á 900 tonn á sólarhring. Þá er vinnslugeta fiskimjölsverksmiðjunnar um 1.000 tonn á sólarhring.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson