Kirkjujörð Gamli bærinn á Þverá á sér langa og merka sögu. Þar var Kaupfélag Þingeyinga stofnað 1882.
Kirkjujörð Gamli bærinn á Þverá á sér langa og merka sögu. Þar var Kaupfélag Þingeyinga stofnað 1882. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við hlupum fram og aftur um göngin, fórum í feluleiki, földum hluti og leituðum í dimmunni. Yfirleitt voru engin ljós, en stundum logaði á olíulampa í endanum á bæjargöngunum. Þetta var gaman og svo lékum við okkur mikið með leggi og völur…

Viðtal

Atli Vigfússon

Laxamýri

„Við hlupum fram og aftur um göngin, fórum í feluleiki, földum hluti og leituðum í dimmunni. Yfirleitt voru engin ljós, en stundum logaði á olíulampa í endanum á bæjargöngunum. Þetta var gaman og svo lékum við okkur mikið með leggi og völur auk þess sem við systurnar áttum líka dúkkur sem við vorum mikið með.“

Þetta segir Aðalbjörg Jónasdóttir sem verður 95 ára á árinu og ólst upp í gamla torfbænum á Þverá í Laxárdal í Þingeyjarsveit. „Ég var elst af sjö systkinum og vorum við fædd á árunum 1928-1940. Það var nokkur aldursmunur á þeim yngstu og elstu en öll lékum við okkur saman,“ segir Aðalbjörg en nú eyðir hún ævikvöldinu á Hvammi, heimili aldraðra á Húsavík, eftir áratugastarf sem bóndi og húsfreyja.

Í sama rúmi með sömu sæng

„Fyrstu árin svaf ég og við systkinin inni hjá mömmu og pabba. Baðstofan var í þrennu lagi en þegar við urðum eldri þá fluttum við Hildur systur mín í Norðurhúsið en svo var nyrsti hluti baðstofunnar nefndur. Við vorum í sama rúmi og höfðum sömu sængina. Þarna var einnig gömul kona sem var til heimilis á Þverá. Það var auðvitað oft kalt en það var kynt með kolum og taði og því var oft hlýrra þarna í baðstofunni en annars staðar í torfbænum,“ segir Aðalbjörg og bætir við að moldarveggirnir hafa verið mjög þykkir og torfið hafi verið mjög góð einangrun en húskuldinn var eigi að síður til staðar, sérstaklega á veturna.

Í eldhúsinu var oftast hlýjast en þar var ylur frá eldavélinni sem var líka kynt með kolum og taði. Þá var einnig notaður svörður. Stundum var ekki beint vistlegt í bænum og var það sérstaklega á haustin í svokölluðum haustrigningum. Þá fór stundum að leka en ekkert járn var á þekjunni og því varð oft að dytta að ýmsu til þess að ekki læki vatn inn í bæinn.

Lækjarhúsið þótti mikill lúxus

Börnin á bænum voru ekki há í loftinu þegar þau fóru að vinna með höndunum. Aðalbjörg minnist matarverkanna sem voru mörg. Það var reykt, saltað og súrsað og það var soðið niður heilmikið af kjöti. Þá voru ekki ísskápar og frystikistur. Þegar hún man eftir fyrst var kjötið soðið niður í sérstaka bauka en nokkru síðar komu glerkrukkur til skjalanna og þótti það mikil framför.

Krakkarnir hjálpuðu öll til við þessi verk en á haustin tók það mikinn tíma að gera öll slátrin. Vambirnar voru óhreinsaðar þegar þær komu úr sláturhúsinu auk þess sem slátrað var heima líka. Þessi vambavinna var ekki beint þrifaleg og var notað kalk við hreinsunina. Þá voru öll föt saumuð heima og það voru ekki stórar hendur sem héldu á prjónum í þá daga, enda þurftu allir að leggjast á eitt, ungir sem aldnir. Aðalbjörg segist hafa verið ung að árum þegar hún fór að mjólka en innangengt var í fjósið sem var sambyggt bænum. Það var lækjarhús við hliðina og þótti það mikill lúxus að þurfa ekki að fara út til þess að sækja vatn handa kúnum.

Systkinin voru oft í því að brynna og báru fötur í kýrnar. Allir hjálpuðust að við að vinna úr mjólkinni og til var skilvinda sem var mikið notuð. Í fyrstu var tréstrokkur notaður til þess að strokka smjörið en seinna kom strokkur sem var handsnúinn og var það mun léttara að fást við hann. Kýrnar voru ekki svo margar, yfirleitt þrjár til fjórar og einn kálfur í stíu. Mjólk var ekki send til Húsavíkur í ungdæmi Aðalbjargar. Allt var notað heima enda margt fólk í heimili.

Ekkert klósett, bara kamar

Aðalbjörg segist hafa verið barn að aldri þegar vatn var leitt í eldhúsið og þótti það mikil bylting. Hreinlæti var nokkuð gott og fólk fór í bað hálfsmánaðarlega. Þvottaaðstaðan var í stóarhúsi en þar var bali sem krakkar voru baðaðir í. Balinn rúmaði ekki fullorðið fólk en það þvoði sér við balann. Baðker var óþekkt fyrirbrigði á mörgum bæjum í þá daga. Eins var það með salerni. Það var kamar norðan við torfbæinn en ekki var innangengt úr bænum að kamrinum. Koppar voru undir öllum rúmum og voru þeir losaðir í forina undir kamrinum. Forin var svo tæmd sérstaklega.

Allt hreinlæti tók tímann sinn og Aðalbjörg var ung að árum þegar hún hjálpaði til við að sópa bæjargöngin. Þá þurfti líka að þrífa timburgólfin í stofunum og baðstofunni. Gestkvæmt var á bænum en bærinn var í þjóðleið. Útiverkin voru líka tímafrek en Aðalbjörg segir að snemma hafi hún og systkini hennar eignast litlar hrífur til þess að geta orðið að liði við heyskapinn. Pabbi þeirra smíðaði hrífurnar en heyskapurinn var mikill þar sem kindurnar voru margar og kýrnar þurftu sitt. Heyjað var á engjum niðri við ána og einnig var farið út í hólma þar sem var mikil grasspretta til þess að drýgja uppskeruna. Hún segir að útiverkin hafi átt betur við sig heldur en inniverkin.

Léleg ljósfæri báru með sér myrkur

Veturinn var dimmur og langur. Stundum snjóaði fyrir alla glugga og þá var skuggsýnt í gamla torfbænum á Þverá. Það var alltaf einn hengilampi þar sem borðað var í búrinu og svo fékk fólk að hafa lampa til þess að fara í fjósið eða fara um bæjargöngin til þess að lýsa sér. Léleg ljósfæri báru með sér myrkur en það var mikið til bóta, að sögn Aðalbjargar, þegar aladínlamparnir komu því af þeim var betri birta. Hún segist hafa verið krakki þegar sá fyrsti kom og var hann hafður í baðstofunni.

Sá þéttbýli fyrst þrettán ára

Aðalbjörg var kunnug á bæjunum í sveitinni og var í farskóla bæði á Halldórsstöðum og í Árhvammi. En ferðalögum og fríum kynntist syskinahópurinn ekki því Aðalbjörg kom fyrst til Húsavíkur þegar hún var 13 ára. Þangað fór hún ásamt frænda sínum og föður haustið 1941. Þau voru þrjú saman. Þetta var tveggja daga ferð.

Fyrst var gist á bæ sem heitir Klömbur í Aðaldal og féð haft í Hraunsrétt um nóttina. Í næsta áfanga var farið til Laxamýrar og þar gist, en féð haft í girðingu þá nótt. Þegar þau komu til baka frá Húsavík fengu þau bílferð áleiðis með frænda hennar, Jóni Árnasyni úr Reykjahverfi. Bílvegur var ekki upp Laxárdalinn og því gengu þau heim frá Laxárgljúfrum. Þetta var seinleg ferð en nokkur upplifun hefur það verið að sjá þéttbýli í fyrsta sinn.

Þrjár frænkur fermdust saman í hvítum síðkjólum

Þverá var og er kirkjustaður. Oft var messað og var messudagur í hverjum mánuði. Það fór auðvitað eftir veðri. Alltaf var messukaffi og mikið um að vera. Hún man vel eftir sr. Þorgrími Vídalín Sigurðssyni sem sat Grenjaðarstað á þessum árum og það var hann sem messaði á Þverá. Síðasta prestsverk sr. Þorgríms var að ferma Aðalbjörgu og systur hennar, Hildi, sem og frænku þeirra, Hildi Ásvaldsdóttur, sem alin var upp í dalnum. Þær lærðu heil ósköp af sálmum og presturinn hlýddi þeim yfir í kirkjunni áður en fermt var.

Aðalbjörg var ein í sínum árgangi en ákvað að bíða eftir systur sinni og því fermdist hún ári seinna, þ.e. 25. júní 1944. Þetta var eftirminnilegur dagur. Þær frænkur voru í hvítum síðkjólum og messukaffið í Þverárstofu var í fínna lagi þann daginn. Síðar urðu messur ekki eins tíðar og áður en Aðalbjörgu er mjög hlýtt til gömlu kirkjunnar sem hún segir að sé fallegasta kirkja á Íslandi. Það var langafi hennar sem byggði hana.

Aðalbjörg flutti alfarin frá Þverá árið 1956, en hún giftist í Kasthvammi í sömu sveit og eignaðist þar nýtt heimili. Fjölskylda hennar bjó áfram í gamla torfbænum til 1966 en þá var lokið við að byggja nýtt steinhús á staðnum og rafmagnið kom í Laxárdal það árið. Henni er umhugað um varðveislu gamla torfbæjarins þar sem hún ólst upp, en þar var gaman að vera og minningarnar eru margar. Þverárbærinn er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins. „Eitthvað er verið að bæta og laga og vonandi á hann framtíð fyrir sér,“ segir hún, „svo merkilegur er hann.“

Höf.: Atli Vigfússon