Arnar Páll Ágústsson fæddist í Reykjavík 2. júlí 1980. Hann lést á heimili sínu þann 25. janúar 2023.

Foreldrar hans eru Ágúst Frímann Sigurðsson, f. 3. maí 1954 á Hvammstanga, og Þuríður Þorleifsdóttir, f. 16. mars 1957 í Þykkvabæ II í Landbroti. Arnar Páll ólst upp í foreldrahúsum á Hvammstanga.

Arnar Páll er yngri sonur foreldra sinna en bróðir hans er Sigurður Þór Ágústsson, f. 1977.

Arnar Páll kvæntist Olgu Dimitrievu frá Minsk í Hvíta-Rússlandi, f. 27. ágúst 1977, þann 8. júlí árið 2000. Foreldrar hennar eru Alla A Dmitrieva, f. 22. febrúar 1945, og Geniy V. Dmitriev, f. 10. júlí 1950, d. 26. apríl 2019. Arnar Páll og Olga eignuðust tvö börn: 1) Tómas Arnar, f. 23. apríl 2001. Sambýlismaður hans er Jón Tumi Dagsson f. 21. mars 2001. 2) Alexandra Olga, f. 2. ágúst 2002. Unnusti hennar er Sigurður Ísfeld Finnsson, f. 25. maí 2002. Arnar Páll og Olga slitu samvistum.

Arnar Páll kvæntist Emmu Wanjiku Njeru, f. 4. nóvember 1989 frá Nairobi í Kenía þann 10. mars 2016. Foreldrar hennar eru Lucy Wanja Njeru, f. 1. janúar 1961, og Selestino Njeru, f. 13. apríl 1960. Þau eignuðust Abigail Lilju þann 4. maí 2018. Þau slitu samvistum.

Arnar Páll var góður námsmaður og útskrifaðist sem lord frá Stýrimannaskólanum með fjölda viðurkenninga. Hann byrjaði snemma til sjós, við fiskveiðar, hjá Landhelgisgæslunni, við kennslu hjá Slysavarnaskóla sjómanna og sem stýrimaður á rannsóknarskipum um víða veröld. Vegna slyss varð Arnar Páll að hætta sjómennskunni sem hann unni mjög. Hann starfaði eftir það hjá bandaríska sendiráðinu, en var svo óvinnufær undanfarin ár. Hann hóf nám í lögfræði við Háskólann á Bifröst og var við lögfræðinám í Háskóla Íslands er hann lést.

Arnar Páll var jarðsunginn frá Hvammstangakirkju 10. febrúar 2023.

Elsku Arnar, nú sigla þín himinfley um eilífð alla. Þú stendur við stýrið og siglir inn í sumarlandið, keikur og með stefnuna á hreinu. Brosandi með hlýja goluna í fangið, sjómannalögin ómandi í bakgrunni og syngur hástöfum með. Þegar einhver biður þig að taka krók á siglingaleiðinni til að sjá eitthvað framandi hugsar þú þig ekki um. Hart í bak, nýtt lag í bakgrunni fyrir nýja stefnu og ekkert sjálfsagðara, enda þykir þér fátt skemmtilegra en gleðja aðra.

Þú stoppar þegar þú kemur auga á fengsæl mið. Horfir yfir hafflötinn, tekur sólarhæðina, skyrpir út fyrir borðstokkinn og rennir færinu niður. Fiskur á hverjum öngli, blik í auga og andlit þitt ljómar af spenningi. Handtökin örugg og fim, hláturrokur þegar fiskarnir skella í balanum, en fúkyrðaflaumur ef einhver sleppur af færinu, með góðlátlegu glotti í bland. Allir um borð fylgjast með af undrun og aðdáun. Hlæja sig svo máttlausa í miðjum hamaganginum þegar þú segir sögur og gantast. Þú átt alltaf tíma til að gera að gamni þínu. Þið afi takið upp pelann og skálið fyrir aflanum.

Einn dagur í einu. Þú sérð enga ástæðu til að hafa áhyggjur af morgundeginum, enda öll eilífðin fram undan. Sólin rís og sólin sest. Góðmennska, gleði og hjálpsemi rúmast öll á einum degi. Þú gefur þér tíma til að fylgja börnunum þínum í leik og starfi, knúsar þau, verndar og verð. Þú sest með mér í bílskúrnum eða kemur með mér niður að sjó. Þú faðmar pabba og mömmu hvern einasta dag með morgunroðanum og sólarlaginu.

Þannig þekki ég þig, þannig minnist ég þín og þannig veit ég að þú hrífur samferðafólkið hinum megin með þér. Þegar ég stend á bryggjusporðinum í sumarlandinu veit ég að þú leggur að, sýnir mér leiðina og segir mér sögurnar. Þangað til verða minningar og áþreifanleg nálægð þín gleði mín og hlátur um ókomna tíð. Ég sakna þín samt.

Sigurður Þór Ágústsson.

Elsku Arnar minn. Dugmikill frændi og vinur er fallinn frá.

Ekki datt mér í hug þegar við töluðum saman um jólin að það yrði í síðasta sinn sem ég heyrði í þér.

Þú spilaðir svo ofboðslega stórt hlutverk í mínum uppvaxtarárum og átt þátt í flestum mínum æskuminningum. Þetta var fyrir tíma snjalltækja og því þurftum við að finna upp á ýmsum uppátækjum til að leika okkur í sveitinni og aldrei leiddist okkur. Við tókum t.d. vel til hendinni í fataskápnum þeirra ömmu og afa og klæddum okkur í ýmsa „búninga“ og fórum í búðarleiki.

Það sem þau gömlu voru þolinmóð við okkur því ansi oft var mikið líf og fjör hjá okkur í Mörkinni. Einnig fannst okkur afar gaman að taka upp hroturnar í afa og hlógum agalega við hverja háværa hrotu og voru þær nú ófáar.

Svo fórum við reglulega í kindaleik, en þér fannst sá leikur helst til rólegur og heimtaðir oftast að fá að leika ref til að búa til aðeins meiri hasar.

Eitt sumarið tókuð þið Siggi ykkur til og malbikuðuð vegi á klöppinni fyrir neðan Mörkina og lékum við okkur frændsystkinin þar í alls kyns veðri í bílaleikjum, og playmoleik stundum til tilbreytingar.

Einnig var fjaran ansi mikilvæg fyrir okkur og gátum við verið tímunum saman að grúska í henni að tína skeljar, Kíkí-krabba, kræklinga handa ömmu, kuðunga og marflær. Þú varst einstaklega flinkur að veiða marflærnar, en ég var ekki eins huguð því mér fannst þær með svo mikið af löppum og einnig kitluðu þær mann óstjórnlega mikið. En þér fannst það nú lítið mál.

Ég get lengi haldið áfram að telja upp alls konar uppátæki sem við náðum að bralla saman í æsku okkar, og mun ég bera þær góðu minningar með mér út lífið.

Ég vona að þú sért loksins orðinn verkjalaus og sért í sumarlandinu að borða ristað brauð með osti og drekka heitt kakó með ömmu og afa í Mörkinni.

Þangað til næst ...

Þín frænka,

Unnur Sigrún

Jónsdóttir.

Á dapurlegum tímamótum er vert að hugleiða hvort lífið nái út fyrir hið sýnilega efni og form, raungerist í annarri vídd eftir burtkall til að láta ljós sitt skína. Að fyrir hvert blik sem slokknar tendrist annað, að mynd sem sljóvgast komi aftur og taki á sig nýjan blæ, að hún sé samslungin birtu sem hugurinn vill njóta, hugsýn í leynihólfi hjartans, kvik á milli gleymsku og löngunar til að varðveita til loka. Sorg eins manns er jafn sönn og sorg annars þó hún eigi ólíkt upphaf því hún er glampi af persónuleik hins liðna. Treginn er skin af draumi sem rís en hnígur ekki, hann er sólblik á báru í sunnanblæ, helgitákn eigin tíma og andleg kyrrð, ímynd trúnaðar, tilfinning sem hlúir að og bjargar. Fyrir allt sem stöðvast fer annað af stað, hver sá sem eykur hraða sinn nálgast þann sem horfinn er á braut. Hvert líf sem líður út af tendrast í annarri bylgju og birta þess lýsir upp sviðið, nærir sál sem rís hrein og skír úr viðjum sárra þrengsla og veraldlegrar þjáningar og lifir í minningunni.

Níels

Hafstein