Elín Jónsdóttir fæddist á Vaðli á Barðaströnd 9. mars 1947. Hún lést 27. janúar 2023.
Foreldrar hennar voru Sigríður Þorgrímsdóttir, f. í Miðhlíð á Barðaströnd 5. nóvember 1921, d. 8. mars 1985, og Jón Elíasson, f. á Vaðli á Barðaströnd 16. október 1912, d. 9. febrúar 1970. Systkini Elínar eru Unnur, f. 14. desember 1940, Sigurbjörg, f. 24. júní 1943, Hákon, f. 16. júní 1950, Einar, f. 14. mars 1953, d. 30. júní 2012, Þorsteinn, f. 28. febrúar 1955, d. 19. september 1997, Eygló, f. 20. júlí 1960, óskírður drengur, f. 23. desember 1938, d. 13. maí 1939.
Elín giftist 25. maí 1968 eftirlifandi eiginmanni sínum, Hinriki Pétri Vagnssyni, f. 30. mars 1933. Foreldrar hans voru Anna Jakobína Hallvarðsdóttir, f. 19. desember 1896, d. 2. desember 1990 og Vagn Jónsson, f. 26. júlí 1895, d. 4. júlí 1965.
Elín og Hinrik eignuðust fjögur börn: 1) Sigrún Jóna, f. 2. janúar 1965, maður hennar er Davíð Björn Kjartansson, f. 18. janúar 1964, börn þeirra eru Kjartan, María Bjargey, Ástrós og Gabríel Hólm. 2) Anna Jakobína, f. 22. mars 1966, maður hennar er Sveinn Ingi Guðbjörnsson, f. 11. ágúst 1963, börn þeirra eru Guðrún Hafdís, Dagur Elí, Brynjar Ari, Dagný, Axel og Elín Ólöf. 3) Jón Arnar, f. 9. desember 1967, hans kona er Margrét Halldórsdóttir, f. 20. ágúst 1969, börn þeirra eru Elín og Hinrik Elís. 4) Snorri, f. 3. júlí 1979.
Elín stundaði nám við Gagnfræðaskólann í Stykkishólmi og síðar félagsliðanám við Menntaskólann á Ísafirði. Elín starfaði lengi við verslunarstörf en síðustu tvo áratugi starfsævinnar starfaði hún í þjónustukjörnum fyrir fólk með fatlanir. Elín var alla tíð virk í félagsstarfi, var heiðursfélagi í kvenfélaginu Hvöt í Hnífsdal þar sem hún var formaður í mörg ár. Hún sat í stjórn íþróttafélagsins Ívars og sóknarnefnd Hnífsdalssóknar.
Útför Elínar fer fram frá Ísafjarðarkirkju 11. febrúar 2023 og hefst athöfnin kl. 14.
Þótt ég hafi vitað í einhverjar vikur í hvað stefndi var ég ekki tilbúin þegar fréttin af andláti þínu kom. Þú varst allra besta tengdamóðir sem nokkur gat óskað sér og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera hluti af lífi þínu. Þú tókst mér einstaklega vel og mín upplifun að þú vildir alltaf allt fyrir mig gera. Það var ómetanlegt að hafa þig og Hinrik í næsta húsi þegar börnin voru lítil. Þið voruð alltaf boðin og búin að passa og hlaupa undir bagga. Við héldum varla barnaafmæli án þess að óska eftir (og fá) mikið af skinkuhornum já og jafnvel eitthvað meira.
Ég sagði öllum sem vildu heyra að þú værir besta tengdamamman, ég held að það hafi verið vegna þess að þú dæmdir mig ekki heldur samþykktir mig eins og ég er og studdir. Ég held reyndar að manngæska þín og fordómaleysi gagnvart fólki almennt hafi verið einn af þínum bestu kostum. Ég sagði oft í gríni að ég væri uppáhaldstengdadóttirin en samkeppnin var reyndar ekki hörð.
Ég minnist líka sumranna norður í Aðalvík með ykkur Hinriki, sérstaklega er mér minnisstæð fyrsta ferðin mín sem ég fór með ykkur án Jóns og við fórum upp á Straumnesfjall í frábæru veðri. Þótt þú værir ekki úr Aðalvíkinni virtist þú vita allt um lífið og fólkið sem hafði búið þar eða átti sumarhús í víkinni. Það var gaman að vera með þér þarna því þú varst flestum málkunnug, áttir marga vini þar og ég fann að allir dáðu þig. Aldrei kom maður að tómum kofunum hjá þér þegar farið var að tala um ættfræði eða eitthvað sem þú hafðir lesið og minni þitt var ótrúlegt. Við Jón vorum varla farin að vera saman þegar þú sagðir mér að við værum fimmmenningar og síðar áttaði ég mig á að ég gat alveg eins flett upp í þér eins og Íslendingabók. Það sama átti við hvað viðkom plöntum, þú virtist þekkja öll blóm og jurtir og vita hvernig átti að hugsa um þau líka.
Þú varst einstaklega flink í höndunum og virtist geta allt. Þegar ég kynntist þér varstu enn að sauma töluvert af fötum eins og þú hafðir gert þegar krakkarnir voru litlir. Svo kom bútasaumstímabilið, reyndar var því nánast lokið þegar ég bað þig að gera Manchester United-bútasaumsrúmteppi fyrir soninn og vissi ekki alveg hvað ég var að biðja um en því snaraðir þú fram, algjöru listaverki. Um tíma heklaðir þú mikið og þykir mér sérstaklega vænt um teppi sem við hjónin fengum á silfurbrúðkaupsdeginum. Eftir heklið kom prjónatímabil þar sem peysur, vettlingar, kjólar og margt annað var framleitt á Bakkaveginum. Eitt sinn var ég að hæla peysu sem Anna Jakobína hafði prjónað sér og á næsta afmælisdegi fékk ég pakka frá þér með eins peysu, sem þú prjónaðir án þess að ég vissi.
Þú passaðir vel upp á hópinn þinn, lagðir mikið upp úr því að fá alla til þín í jólaboðin, páskahittinga, áramótapartí og afmælisveislur, held hreinlega að ítalskar ættmæður hefðu fölnað í samanburði við þig. Þótt erfitt sé að sætta sig við fráfall þitt er ég þakklát fyrir samferðina og mun ætíð geyma minningar um dásamlega konu í hjarta mínu.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem)
Margrét
Halldórsdóttir.
Þegar við fluttum aftur vestur á Patreksfjörð héldum við sambandi og var hún límið sem hélt fjölskyldunni saman. Þegar Vaðalfjölskylda Einars kom saman var Elín ætíð þar og sá um sameiginlega matargerð. Hún reyndist mér sérstaklega hjálpsöm þegar Einar, eiginmaður minn og bróðir hennar, féll frá í göngu skyldmenna milli Arnarfjarðar og Barðastrandar. Eftir fráfall Einars reyndum við að hittast sem oftast og tala saman í síma og alltaf mætti ég þeirri hlýju og umhyggju sem einkenndi hana. Seinast hitti ég hana á Landspítalanum þegar ljóst var í hvað stefndi og síðar nokkrum dögum fyrir andlátið ræddum við saman í síma. Það er mikill söknuður að Elínu.
Að leiðarlokum þakka ég vinsemdina og færi fjölskyldu Elínar mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Dröfn Árnadóttir.