Arnar Eysteinn Sigurðsson fæddist 19. júní 1935 í Mjóanesi við Þingvallavatn. Hann lést á Klausturhólum 30. janúar 2023.
Foreldrar hans voru Sigurður Sveinsson, f. 15. júní 1909, d. 14. október 1995, og Þórdís Ágústsdóttir, f. 26. apríl 1908, d. 19. desember 1998. Systkini Arnars eru Birna, f. 1936, Gunnlaugur Valþór, f. 1939 d. 2022, og Ágústa f. 1944.
Eiginkona Arnars var Ástdís Jóhanna Stefánsdóttir, f. 21. júní 1938 á Hvammstanga, d. 28. júlí 2018. Foreldrar hennar voru Stefán Díómedesson, f. 5. ágúst 1896, d. 26. september 1985, og Karólína Jóhannesdóttir, f. 28. október 1901, d. 15. október 1972. Þau Ástdís Jóhanna og Arnar Eysteinn gengu í hjónaband 8. september 1962 og voru búsett alla sína tíð á Ytra-Hrauni í Landbroti. Börn þeirra eru: 1) Sigurður, f. 29. janúar 1962, maki Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 17. september 1970. Börn þeirra eru Fjölnir, f. 18. júlí 1994, sem Guðrún átti fyrir með Gísla Gunnarssyni, og Ásdís, f. 18. ágúst 1998. 2) Guðrún, f. 31. maí 1963. Sonur hennar er Arnar Már Ingason, f. 14. nóvember 1982, og hans börn eru Sara Mist, f. 24. desember 2011, og Sindri Már, 12. nóvember 2013. 3) Þorkell, f. 19. maí 1964, maki Sigríður Sveinsdóttir, f. 5. ágúst 1964. Dætur þeirra eru Jóhanna Kristín, f. 18. nóvember 1988, Erna Sif, f. 17. mars 1993, og Freydís Ösp, f. 28. febrúar 1996. 4) Guðni, f. 23. september 1966, maki Aðalbjörg Runólfsdóttir, f. 6. janúar 1968. Synir þeirra eru Örn Eysteinn, f. 30. september 2003, og Tryggvi Valur, f. 6. ágúst 2006. Börn Aðalbjargar: Hanna Sigríður, f. 17. febrúar 1988, og Gunnar Freyr, f. 28 febrúar 1990. 5) Örn, f. 20. mars 1969, d. 29. maí 1991. 6) Steinunn Ósk, f. 21. nóvember 1973, maki Gunnar Örn Gunnarsson, f. 18. febrúar 1972. Börn þeirra eru Stefán Örn, f. 4. nóvember 2008, og Sandra Ósk, f. 25 mars 2013.
Arnar bjó hjá foreldrum sínum í Mjóanesi á árunum 1935-1938 og Ytra-Hrauni frá 1938 og áfram. Barnaskólapróf 1948 og nám í smíðaskólanum í Hólmi veturinn 1954-1955. Starfaði hjá Landsíma Íslands frá 1952-1957, frá 1958 við ýmislegt, s.s. refaveiðar, í sláturhúsi, vélagæslu í frystihúsi ásamt sauðfjárbúskap í Ytra-Hrauni.
Útför Arnars Eysteins Sigurðssonar verður gerð frá Prestbakkakirkju á Síðu í dag, 11. febrúar 2023, klukkan 13.
Arnar tengdafaðir minn er fallinn frá eftir stutt veikindi. Ég kynntist honum fyrir 35 árum þegar ég kom fyrst að Hrauni með Kela syni hans. Mér var strax tekið vel og á ég Arnari og Hönnu tengdamóður minni margt að þakka. Hanna lést árið 2018 og eru þau nú öll sameinuð aftur, tengdaforeldrar mínir og Össi sonur þeirra sem dó ungur af slysförum.
Arnar var síðustu árin á dvalarheimilinu á Klaustri og á ég eftir að sakna þess að koma ekki við hjá honum þegar ég fer austur. Hann var duglegur að hafa samband við börnin sín og fá fréttir af þeim og barnabörnunum, sérstaklega eftir að Hanna lést en þá passaði hann upp á okkur öll eins og hún hafði alltaf gert.
Stelpurnar okkar Kela voru miklar afastelpur og gladdist hann með þeim á góðum stundum í lífi þeirra, núna síðast í janúar þegar Freydís hringdi í hann og sagðist vera búin að kaupa íbúð. Arnari og Hreiðari tengdasyni okkar kom vel saman því þeir áttu sameiginlegt áhugamál sem var stangveiði.
Arnar spurði alltaf frétta að vestan og vildi vita hvernig búskapurinn hjá bræðrum mínum á Múla gengi og fannst honum gaman að sjá myndir þaðan úr heyskap og fleiri búverkum.
Arnar hafði gaman af að lesa og grúska í bókum og samdi sjálfur ljóð enda er mikið magn til af bókum á Hrauni. Þegar hann var kominn á Klausturhóla stytti hann sér stundir við að lesa og horfa á sjónvarp en hann var kominn með nokkrar sjónvarpsstöðvar í herberginu sínu sem hann gat valið úr. Þegar bein útsending var frá gosinu í Geldingadölum var auðvitað fylgst með þeirri stöð.
Um undra-geim, í himinveldi háu,
nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;
á fegra landi gróa blómin bláu
í bjartri dögg við lífsins helgan straum.
(Benedikt Gröndal)
Þín tengdadóttir,
Sigríður
Sveinsdóttir.
Guðrún
Þorsteinsdóttir.
Afi var einstakur maður. Hann var ákveðinn og vissi nákvæmlega hvað hann vildi, allt fram á síðasta dag. Hann setti t.d. eins mikinn sykur og hann vildi út á hafragrautinn sinn og smurði brauðið með hálfri smjördollunni þrátt fyrir að það væri óhollt. Það var ótrúlegt hvað hann hafði mikla þolinmæði fyrir öllu og öllum. Afi tók öllum vel, hann var svo áhugasamur um það hvernig fólkið hans hefði það og var duglegur að heyra í okkur til að spyrja um okkur öll og hvatti okkur áfram. Afi var sá sem vissi allt. Það var svo gaman að spjalla við hann því hann var búinn að kynna sér ótrúlegustu hluti og mundi allt sem hann las eða hafði heyrt. Afi var hnyttinn og mikill húmoristi. Afi og amma áttu einstakt samband þar sem við gátum hlustað á þau inni í eldhúsi skellihlæjandi saman.
Þegar hugurinn reikar í æskuna er sérstaklega minnisstætt knúsið hans afa sem var svo hlýtt og gott, hann tók þéttingsfast utan um mann og svo þegar hann strauk manni um vangann eða þegar hann klappaði á kollinn voru lófarnir svo stórir.
Þegar húsið fylltist af fólki átti afi það til að flýja inn í vélageymslu. Það stoppaði okkur stelpurnar ekki og við eltum hann út í vélageymslu og fylgdumst með því hvað hann var að bralla þar og spurðum hann svo spjörunum úr.
Bækur minna okkur á afa, mamma og pabbi gáfu afa bækur í jólagjöf öll jól sem við munum eftir. Við vorkenndum afa svo mikið að fá bækur frá öllum í jólagjöf, alltaf, þrátt fyrir að hann hafi auðvitað elskað þá gjöf og getað lesið langt inn í nýtt ár nýjar jólabækur.
Þegar við fjölskyldan gengum svo í gegnum það að missa ömmu skyndilega árið 2018, stödd í sveitinni með afa, þá sýndi afi okkur hversu mikill klettur hann var fyrir fólkið sitt.
Elsku afi, nú er komið að kveðjustund. Við teljum okkur vita að það verði fagnaðarfundir hjá ykkur ömmu að fá að hittast loksins aftur.
Við kveðjum þig með sömu orðum og þú kvaddir okkur þinn síðasta dag: Vertu sæll!
Nú er komið að kveðjustund
ekki mætum við aftur á þinn fund,
eftir sitja minningar hlýjar
og vont að þær verði ekki fleiri nýjar.
Hugsunin um hlýja knúsið tekur yfir
í minningunni sem eftir lifir,
heppnastar vorum þig að hafa
og fá að kalla elsku afa.
Jóhanna Kristín (Hanna Stína), Erna og Freydís Þorkelsdætur.
Laust eftir miðja síðustu öld kviknaði áhugi meðal bænda á Suðurlandi að hefja skipulegar álaveiðar. Arnar var einn þeirra bænda sem útveguðu sér álagildrur og setti niður í Fitjaflóði. Hann tók eftir því þegar hann hafði handleikið álinn, að smáskeinur og sár sem hann var með á höndum greru mun hraðar en ella. Hann þakkaði þetta slími af roði álsins. Áratugum síðar var þessi lækningamáttur staðfestur með rannsóknum lífvísindamanna, og stofnuð hafa verið fyrirtæki sem vinna sárabindi og plástra úr roði fiska.
Arnar heimsótti stundum foreldra mína í Reykjavík. Ég hlustaði hugfanginn á sögur hans af veiðum á ref í heimasveit hans Landbrotinu þar sem hann var í mörg ár refaskytta. Ein frásögn lýsir Arnari vel. Hann hafði legið á greni og beðið eftir að tófan kæmi heim með æti handa yrðlingum sínum. Þegar hún mætti kastaði hún sér á bakið og yrðlingarnir stukku á spenana. Þessi sjón fannst honum svo fögur að hann gat ekki hugsað sér að skjóta dýrið og fór heim við svo búið. Síðar átti hann eftir að eyða löngum tíma í að farga minkum sem voru spenntir fyrir fiskum í Grenlæk, Jónskvísl og Sýrlæk sem renna um landareign Ytra-Hrauns.
Til að efla fiskirækt lagaði Arnar fiskigengd upp í Jónskvísl með því að hækka vatnsborð í hyl neðar í ánni sem foss féll í. Með því að takmarka afrennslið úr hylnum hækkaði vatnsborðið og fiskurinn gat sjálfur stokkið upp fossinn. Hann kom einnig upp klakhúsi á jörð sinni með því að refta yfir öfluga kaldavermsluppsprettu sem kom úr iðrum jarðar undan Skaftáreldahrauni. Í samvinnu við nágranna var dregið fyrir í ánum og boltasilungar teknir í klak. Arnar varð klakstjóri og seiðagæslumaður með öflugt en kostnaðarlítið fiskeldi. Það skilaði sér í þúsundum seiða sem sleppt var árlega í árnar, öðrum veiðiréttarhöfum til gagns og ánægju. Arnar var í raun að halda við seiðaeldi sem faðir hans Sigurður Sveinsson hóf um 1920 í samvinnu við bændur í Seglbúðum. Bændur víða í Meðallandi voru með sambærilega fiskirækt.
Ógleymanlegar eru stundirnar með Arnari og konu hans Hönnu, eins og hún var kölluð, sem buðu upp á kaffi með sautján sortum eða lambasteik með dásamlegu meðlæti. Veiðarnar voru ánægjulegar, en ekki síður samvera með þeim hjónum. Arnar lýsti litbrigðum náttúrunnar í Landbroti með frábæru útsýni á Lómagnúp, Öræfajökul og Kötlu. Sagði frá störfum sínum við símavinnu þegar farið var á vatnabílum yfir jökulárnar í Austur-Skaftafellssýslu, ræddi ratvísi og skynjun sauðfjár á veðrabrigðum, lýsti fjölbreyttu fuglalífi og hvarfi keldusvínsins, spendýrum sveitanna og mannlífi meðal frændfólks. Við Helga sendum fjölskyldu Arnars samúðarkveðjur. Hans er saknað, en minningin lifir.
Magnús
Guðmundsson.