Borgarskjalasafn Safnið er til húsa í Grófarhúsinu við Tryggvagötu ásamt Borgarbókasafninu. Afgreiðslan er opin virka daga milli kl. 13 og 16. Safnið varðveitir gögn Reykjavíkurborgar frá upphafi og ýmis einkaskjalasöfn.
Borgarskjalasafn Safnið er til húsa í Grófarhúsinu við Tryggvagötu ásamt Borgarbókasafninu. Afgreiðslan er opin virka daga milli kl. 13 og 16. Safnið varðveitir gögn Reykjavíkurborgar frá upphafi og ýmis einkaskjalasöfn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is „Já, þetta er búið að vera erfitt ástand með vefi safnsins, en stendur vonandi til bóta á næstu vikum með nýjum vef,“ segir Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Já, þetta er búið að vera erfitt ástand með vefi safnsins, en stendur vonandi til bóta á næstu vikum með nýjum vef,“ segir Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður.

Vefir Borgar­skjalasafnsins hafa legið niðri frá því í haust. Þar hefur verið hægt að nálgast mikinn fjölda frumgagna um söguleg efni sem ljósmynduð hafa verið á undanförnum árum með ærinni fyrirhöfn og kostnaði. Meðal efnis hafa verið skjalaskrár, íbúaskrár, elstu skjöl borgarinnar, brunabótavirðingar og gömul jólakort. Enn fremur hafa verið útbúnir sérvefir um ævi og störf þriggja stjórnmálaforingja, Bjarna Benediktssonar, Ólafs Thors og Björns Þórðarsonar, þar sem hægt hefur verið að skoða sendibréf, dagbækur, ljósmyndir og fleira. Efnið um Bjarna, Ólaf og Björn er komið frá fjölskyldum þeirra.

Vefirnir eru að mestu leyti frá árunum 2007 til 2009. Þeir voru orðnir tæknilega úreltir á ýmsan hátt, m.a. var ekki hægt að leita innan þeirra, og voru þeir teknir niður í nóvember eftir að netárás var gerð á þá.

Ekki glatað efni

Efnið glataðist ekki og er að mestu eða öllu leyti aðgengilegt á vefsafni Landsbókasafns-Háskólabókasafns, á slóðinni vefsafn.is. Líklegt er hins vegar að fáum sé kunnugt um að hægt sé að nálgast gögnin þá leiðina og engar leiðbeiningar um það er að finna á síðu Borgarskjalasafns á vef Reykjavíkurborgar. Engar skýringar eru þar heldur á því hvað orðið hafi um vefi safnsins sem nýst hafa fróðleiksfúsum almenningi, námsfólki og fræðimönnum um árabil.

„Vefdeildin setti upp síðuna á Reykjavíkurvefnum,“ segir Svanhildur. „Það er alveg rétt að eðlilegt væri að vísa þar á vefsafnið og mun ég óska eftir því.“

„Við vonumst til að nýr vefur komist í loftið á næstum vikum. Þangað til er hægt að nálgast gögn á vefsafninu,“ segir borgarskjalavörður.