Gikkur Biden Bandaríkjaforseti gaf skipun um að skjóta niður þrjú óþekkt loftför yfir Bandaríkjunum og Kanada. Enginn veit um hvað var að ræða.
Gikkur Biden Bandaríkjaforseti gaf skipun um að skjóta niður þrjú óþekkt loftför yfir Bandaríkjunum og Kanada. Enginn veit um hvað var að ræða. — AFP/Andrew Caballero-Reynolds
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vafalaust leynist sannleikurinn þarna úti. En hann er þó ekki enn kominn í ljós því varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna (e. Pentagon) hefur ekki upplýst hvað það var sem orrustuþotur skutu nýverið niður yfir ríkjunum Alaska og Michigan í Bandaríkjunum og fylkinu Yukon í Kanada

Í brennidepli

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Vafalaust leynist sannleikurinn þarna úti. En hann er þó ekki enn kominn í ljós því varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna (e. Pentagon) hefur ekki upplýst hvað það var sem orrustuþotur skutu nýverið niður yfir ríkjunum Alaska og Michigan í Bandaríkjunum og fylkinu Yukon í Kanada. Hefur einungis verið talað um „óþekkt loftför“ (e. UFO) auk fjórða skotmarksins sem var háloftabelgur frá Kína, en hann mætti örlögum sínum undan ströndum Suður-Karólínu.

Eins er ekki vitað af hverju NORAD-loftvarnakerfið, sem Bandaríkin og Kanada standa sameiginlega að, greinir skyndilega öll þessi loftför. Líklega er það þó vegna Kínabelgsins en frá komu hans hafa loftvarnasveitir fínstillt tæki sín og lúslesið himininn.

Eftirlitsgeta íslenska loftvarnakerfisins er sambærileg og hjá öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO) enda kerfið hér hluti af samþættu loftvarnakerfi NATO. Í ljósi þessa óskaði Morgunblaðið eftir upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu, m.a. spurt hvort loftför í líkingu við þau sem grandað hefur verið yfir Norður-Ameríku að undanförnu hafi verið auðkennd á loftrýmiseftirlitssvæði NATO sem Ísland ber ábyrgð á. Svo er ekki. Engin óþekkt loftför hafa æst upp mælitæki loftvarnakerfisins hér með sama hætti og vestanhafs.

Herstjórnin metur hvert tilvik

En hvað myndi gerast ef allt í einu birtust óþekkt loftför á skjám stjórnstöðvar NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli? – Þá myndi í stuttu máli herstjórn NATO meta aðstæður og í kjölfarið bregðast við eftir þörfum. Hugsanlega með því að senda orrustuþotur til móts við hin óþekktu loftför.

„Ef óauðkennd loftför koma inn í loftrýmissvæðið sem ekki verða borin kennsl á í loftrýmiseftirliti metur herstjórn Atlantshafsbandalagsins hverju sinni hvort tilefni sé til að bregðast við. Ef loftrýmisgæsla bandalagsins á Íslandi er yfirstandandi metur herstjórnin hvort ástæða sé til að senda þotur héðan á loft til að auðkenna farið. Í þeim tilvikum sem þotur eru ekki staðsettar á Íslandi geta flugherir grannríkja brugðist við eftir atvikum samkvæmt mati herstjórnar bandalagsins,“ segir í skriflegu svari utanríkisráðuneytisins.

1.800 belgir á hverjum degi

Þangað til hersveitir og rannsakendur Bandaríkjanna og Kanada ljúka sinni vinnu, þ.e. endurheimta loftförin þrjú, rannsaka þau og meta, er ómögulegt að fullyrða nokkuð um um hvað sé að ræða. Nú sé verið að yfirheyra þá orrustuflugmenn sem sendir voru til móts við loftförin, fá lýsingar þeirra á því sem fyrir augu bar og skoða myndefni tekið frá vélunum.

Luis Elizondo, fyrrverandi yfirmaður rannsókna Pentagon á óþekktum loftförum, segir fjandríki Bandaríkjanna árum saman hafa truflað lofthelgina með lágtækniloftförum. „Það er verið að nota lágtækni til að herja á Bandaríkin,“ sagði hann í umfjöllun New York Times. „Þetta er mjög ódýr en árangursrík aðferð hjá Kínverjum. Því meira sem þú horfir upp þeim mun fleiri loftför sérðu.“

Vitað sé að Kínverjar hafi staðið fyrir njósnastarfsemi með hátækniloftförum nærri tveimur herstöðvum í Bandaríkjunum. Fleiri eru þó sagðir njósna þar vestanhafs en Kínverjar, s.s. Rússland, og er notast við lág- og hátækniloftför, dróna og loftbelgi. Eru þannig minnst 163 njósnaflug loftbelgja á skrá bandarískra yfirvalda, að sögn New York Times. Auk þess að afla upplýsinga um herstöðvar og staðsetningu kjarnaflauga leikur grunur á að verið sé að kanna getu loftvarnasveita Bandaríkjanna til að sinna sínum verkefnum.

Gögn bandarísku veðurstofunnar segja 1.800 veðurbelgjum sleppt á degi hverjum í heiminum, alls 92 í Bandaríkjunum. Af þessum tugum þúsunda belgja á ári eru einungis um 20% þeirra endurheimt. Áður en þessir belgir falla aftur til jarðar fara margir þeirra af leið og afmyndast vegna skemmda og gasleka.

Og það er einmitt það sem breski stjörnufræðingurinn Jonathan McDowell bendir á í samtali við The Guardian – hugsanlega hefur NORAD-loftvarnakerfið í Norður-Ameríku verið að eltast við það sem hann kallar „himnarusl“, eða úrelta belgi sem teknir eru að afmyndast og falla til jarðar.

Rannsóknarbelgir eru gjarnan í 8 til 40 kílómetra hæð, eru ódýrir í samanburði við gervitungl og geta tekið nákvæmar ljósmyndir og sinnt ólíkum rannsóknum. Ríkisstofnanir, vísindahópar, einkafyrirtæki og einstaklingar sleppa þessum belgjum um heim allan. Þótt flestir falli belgirnir til jarðar án vandræða þá geta sumir, að sögn McDowells, hringsólað lengi í háloftunum og vakið athygli þeirra sem horfa til himins.