Blóðugt Iain Glen leikur í Game of Thrones.
Blóðugt Iain Glen leikur í Game of Thrones.
Fátt er betra á þessum hryssingslega vetri gulra og appelsínugulra viðvarana en að leggjast í hámhorf undir heitri sæng. Eftir að undirrituð tók Sunnudagsviðtal við hinn geðþekka skoska leikara Iain Glen kviknaði sú hugmynd að horfa aftur á allar…

Ásdís Ásgeirsdóttir

Fátt er betra á þessum hryssingslega vetri gulra og appelsínugulra viðvarana en að leggjast í hámhorf undir heitri sæng. Eftir að undirrituð tók Sunnudagsviðtal við hinn geðþekka skoska leikara Iain Glen kviknaði sú hugmynd að horfa aftur á allar átta seríurnar af Game of Thrones, en Glen leikur þar einmitt nokkuð stórt hlutverk. Fyrir aðdáendur ævintýraþátta er vel hægt að mæla með áhorfi og endurhorfi en taka skal fram að þættirnir eru vel blóðugir, svo vægt sé til orða tekið. Stundum þarf hreinlega að taka fyrir augun.

Annar þáttur er á dagskrá hjá mér, þegar ég næ að slíta mig frá krúnuleikunum. Það er þátturinn The Last of Us sem nú er sýndur í Sjónvarpi Símans. Það var í síðustu viku, einmitt á kvöldi þegar vindurinn gnauðaði úti og regnið buldi á rúðum og myrkrið var í algleymingi að ég kveikti á fyrsta þættinum. Þar blasti heimurinn við í rúst eftir skæða veiru sem hafði herjað á heila fólks tuttugu árum áður. Veira þessi gerði það að verkum að fólk breyttist í eins konar uppvakninga sem réðst á annað fólk, drap það og át. Nei, þetta var of mikið af því góða! Ég gat ekki meir og slökkti í miðjum þætti. Nóg er að heyra af hörmungum heimsins alla daga en þarna sagði ég hingað og ekki lengra.