Tónlist Sigmundur Indriði Júlíusson spilar á píanóið á Grund.
Tónlist Sigmundur Indriði Júlíusson spilar á píanóið á Grund. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigmundur Indriði Júlíusson skemmtir sér og öðrum með píanóleik á Grund hjúkrunarheimili í Reykjavík og tekur auk þess í nikkuna, þegar færi gefst til þess. „Ég hef aðgang að píanóinu hérna, þegar ég vil, og gríp stundum í það, en seldi…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Sigmundur Indriði Júlíusson skemmtir sér og öðrum með píanóleik á Grund hjúkrunarheimili í Reykjavík og tekur auk þess í nikkuna, þegar færi gefst til þess. „Ég hef aðgang að píanóinu hérna, þegar ég vil, og gríp stundum í það, en seldi nikkuna, þegar ég átti í erfiðleikum með að halda á henni,“ segir hann lítillátur. „En ég get fengið nikku lánaða hjá vini mínum, þegar ég treysti mér til að spila á hana.“

Júlíus Kristjánsson og Kristjana Kristjánsdóttir, fósturforeldrar Sigmundar, keyptu píanó handa honum þegar hann var fjögurra ára, af Guðmundi Grímssyni húsgagnasmíðameistara. Það hafði áður verið í eigu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar tónskálds, sem samdi meðal annars þjóðsöng Íslendinga, Lofsöng, við við sálm eftir Matthías Jochumsson, en Sigmundur gaf Þjóðminjasafninu píanóið 1987 og er það varðveitt þar. „Það er spursmál hvort hann hafi samið Lofsönginn á þetta píanó eða á píanettu í Danmörku,“ segir Sigmundur. „Ég byrjaði að glamra á það og þegar ég var sjö eða átta ára vildi ég læra að spila. Þá var ég látinn fara í einkatíma hjá Gunnari Sigurgeirssyni og var ég hjá honum í nokkur ár.“ Í kjölfarið hafi hann haldið áfram náminu hjá Róbert Abraham Ottóssyni. „Ég var hjá doktor Róbert Abraham í þrjú til fjögur ár og lærði að leika eftir nótum hjá honum.“

Að loknu námi í Verzlunarskólanum vann Sigmundur við bókhald á meðan heilsan leyfði. Hann segir að eftir að hann hafði lengi verið með höfuðverk hafi hann var í rannsókn í Svíþjóð fyrir um 40 árum. „Ég fór í æðaþræðingu, kom heilaskaðaður út og hef verið lögblindur og óvinnufær síðan.“

Haukur Mortens í uppáhaldi

Sigmundur var áður í ýmsum hljómsveitum, meðal annars í Hljómsveit Óskars Cortes í sex ár. Hann stofnaði síðan eigin gömludansahljómsveit. „Ég skýrði hana í hausinn á sjálfum mér,“ rifjar hann upp, en bandið lék oft fyrir dansi í Þórscafé og á Röðli á áttunda áratug liðinnar aldar. Síðan var hann í lausamennsku og spilaði meðal annars undir hjá Hauki Morthens. „Þegar vantaði píanóleikara eða harmonikuleikara var hringt í kallinn og hann spilaði með hinum og þessum hljómsveitum eitt og eitt kvöld.“

Hljóðfæraleikurinn lá niðri þar til Sigmundur flutti ásamt seinni konu sinni á Grund fyrir um sex árum. „Ég spila töluvert fyrir fólkið hérna. Ég var til dæmis fenginn til þess að spila í hátíðardagskrá á 100 ára afmæli Grundar í haust og síðan dinnermúsík, sem ég hafði ekki gert lengi, í veislu um hvöldið.“ Hann segist alltaf hafa verið hrifnastur af gömlu, góðu lögunum. „Mér finnst skemmtilegast að spila létta, gamla dansmúsík, sérstaklega lög sem Haukur vinur minn Morthens söng. Ég get ósköp vel skilið smekk unglinga og unga fólksins enda tekur allt breytingum en ég tengi ekki við nýju lögin, kann ekki að meta þau. En ég er alltaf jafn léttur í lundu og það er númer eitt, tvö og þrjú. Það er líka hugsað vel um mig.“