Hrifandi Konur ræða málin er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir besta handrit og sem besta kvikmynd ársins.
Hrifandi Konur ræða málin er tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir besta handrit og sem besta kvikmynd ársins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bíó Paradís Women Talking / Konur ræða málin ★★★★★ Leikstjórn: Sarah Polley. Handrit: Sarah Polley. Aðalleikarar: Rooney Mara, Claire Foy, Jessie Buckley, Judith Ivey, Liv McNeil, Sheila McCarthy, Ben Whishaw, Michelle McLeod og Kate Hallett. Bandaríkin, 2022. 104 mín.

kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Kvikmyndin Konur ræða málin eftir kanadíska leikstjórann Söruh Polley er byggð á samnefndri skáldsögu eftir Miriam Toews. Toews sækir innblástur í raunverulega atburði sem áttu sér stað mennoníta-nýlendu í Bólivíu þegar hópur karla var ákærður fyrir að nauðga rúmlega 150 stúlkum á árunum 2005 til 2009. Leiðtogar samfélagsins sögðu þessar „dularfullu“ árásir verk illra anda. Í kvikmyndaaðlöguninni, Konur ræða málin, er áhorfendum tilkynnt, áður en myndin hefst, að það sem á eftir kemur sé aðeins ímyndun kvenna. Sá frasi hefur ítrekað verið notaður til að útskýra margra ára kynferðisofbeldi í trúarnýlendum en líka í nútímasamfélögum eins og sjá má í tengslum við #MeToo-bylgjuna.

Bókin, sem og kvikmyndin, er ekki endursögn á fyrrnefndum atburðum í Bólivíu, heldur segir frá viðbrögðum kvennanna við þeim. Megnið af myndinni gerist í hlöðu þar sem átta konur eru komnar saman. Þær hafa verið valdar til að ákveða til hvaða aðgerða konurnar í nýlendunni muni grípa. Allar konur samfélagsins hafa þegar greitt atkvæði. Í atkvæðagreiðslunni var boðið upp á þrjá kosti; fyrirgefa karlmönnunum, verða eftir og berjast eða yfirgefa nýlenduna. Fyrsta valmöguleikanum er hafnað í atkvæðagreiðslunni og nú þurfa átta útnefndar konur að komast að samkomulagi um hvað skal gera; verða eftir og berjast eða fara og eiga á hættu að komast ekki til himnaríkis. Hvernig þessar átta konur komast að skýrum skilningi á kúgun sinni og hugsanlegri frelsun er viðfangsefni myndarinnar og uppspretta spennunnar. Allar átta konurnar eru þolendur kynferðislegs ofbeldis og hafa eðlilega mismunandi skoðanir á því hvernig bregðast skuli við. Sú yfirvegaðasta í hópnum er Ona (Rooney Mara), sem er ólétt eftir nauðgun en hennar skoðanir stangast á við skoðanir Salome (Claire Foy) og Mariche (Jessie Buckley), tveggja mæðra ungra barna, sem eru skiljanlega fullar af reiði. Hin frábæra Judith Ivey og Sheila McCarthy leika síðan eldri konur hópsins, Agötu og Gretu, sem koma með visku sína á borðið en líka skömm yfir að hafa alið dætur sínar upp í þessu umhverfi. Yngri kynslóðin á sér líka háværa fulltrúa, Liv McNeil, Michelle McLeod og Kate Hallett, sem er ekki annað en viðeigandi þar sem þetta varðar framtíð þeirra og komandi kynslóðir. Leikkonurnar standa sig listilega og er leitt að sjá að engin þeirra skuli hafa fengið Óskarstilnefningu fyrir leik.

Bæði skáldsagan og kvikmyndaaðlögunin forðast að sýna árásirnar sjálfar. Höfundarnir hafa minni áhuga á að dvelja við hrylling þess sem karlarnir gerðu og beina þess í stað athyglinni að konunum og hvernig þær velja að bregðast við. Það er mjög valdeflandi að horfa á konur taka völdin í sínar hendur og standa upp gegn kúgun feðraveldisins.

Í skáldsögu Toews er sagan sögð út frá sjónarhóli Augusts (Ben Whishaw), ungs karlkyns kennara sem var fenginn til þess að skrifa niður samtöl þeirra. Kvikmyndin er hins vegar sögð út frá sjónarhóli stúlknanna, sem er enn sterkara og góð ákvörðun hjá Söruh Polley. Þannig komast áhorfendur nær kvenkyns sögupersónunum og upplifun þeirra. August getur reynt að lýsa upplifun kvennanna en þetta er þeirra saga og þeirra saga að segja. August er í myndinni einungis áminning um að þótt karlmenn séu ekki allir skrímsli, þá er hver karlmaður, meðvitað eða ómeðvitað, þátttakandi valdafyrirkomulags feðraveldisins sem gerir voðaverkið kleift.

Hægt væri að færa rök fyrir því að myndin sé tímalaus og eigi að endurspegla kúgun í ríkjandi feðraveldi. Sömu mismunandi skoðanir kvennanna eiga sér hljómgrunn í nútímasamfélagi og nauðganir og kúgun kvenna er ekki aðeins hluti af fortíðinni heldur nútíð og framtíð. Kvikmyndin gefur í raun enga augljósa vísbendingu um hvenær eða hvar sagan á sér stað. Hún gæti nánast gerst hvar sem er og hvenær sem er. Í einu atriðinu t.d. keyrir pallbíll í gegnum bæinn og blastar laginu „Daydream Believer“ eftir Monkees sem gefur í skyn að þessi mynd sé nær nútímanum en við gerum okkur grein fyrir.

Það er í raun ótrúlegt að samræðurnar milli þessara átta kvenna séu nógu áhugaverðar til að hægt sé að hlusta á þær í einn og hálfan klukkutíma án þess að leiðast. Það er staðfesting á hversu sterkt handritið er hjá Söruh Polley og hversu vel leikarahópurinn kemur því til skila.

Konur ræða málin er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna fyrir besta handritið og sem besta mynd ársins og ekki að ástæðulausu en sjaldan hefur rýnir orðið jafn snortinn eftir kvikmyndasýningu. Hildur Guðnadóttir tónskáld var einnig tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna fyrir tónlistina í myndinni en tónlistin er mjög þægileg og gefur rödd kvennanna nægilegt rými, sem er viðeigandi fyrir viðfangsefni myndarinnar. Það hefði verið ánægjulegt að sjá Söruh Polley fá tilnefningu fyrir bestu leikstjórn, en hún yrði þá eina konan í þeim flokki, en því miður eru engar konur tilnefndar að þessu sinni. Það ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem feðraveldið er svo inngróið í kvikmyndaiðnaðinum og Sarah Polley veit það örugglega manna best.