Hlýja<em> </em>&bdquo;Það er mikil glaðværð og húmor í textanum sem veldur því að auðvelt er að hrífast með,&ldquo; segir um bók Magneu J. Matthíasdóttur.
Hlýja „Það er mikil glaðværð og húmor í textanum sem veldur því að auðvelt er að hrífast með,“ segir um bók Magneu J. Matthíasdóttur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljóðabók Þar sem malbikið endar ★★★½· Eftir Magneu J. Matthíasdóttur. JPV útgáfa 2022. 72 bls. kilja.

Bækur

Snædís

Björnsdóttir

Það var með eftirvæntingu sem ég settist niður með nýútgefna ljóðabók Magneu J. Matthíasdóttur Þar sem malbikið endar, hennar fyrsta frumsamda skáldverk í um áratug, enda hef ég líkt og eflaust fleiri lesendur notið þess að lesa ótal þýðingar hennar í gegnum árin. Auk þess að vera rithöfundur er Magnea einmitt afkastamikill þýðandi og ef mér skjátlast ekki eru þýðingar hennar farnar að nálgast hundrað. Þar á meðal eru þýðingar á skáldsögum, leikritum og ýmsu efni fyrir sjónvarp. Með nýrri ljóðabók sinni heldur Magnea síðan áfram að gleðja lesendur sína.

Þar sem malbikið endar, þar mætast borg og náttúra. Í bókinni fléttast þetta tvennt einmitt saman, sjónum er beint að náttúrunni í borginni, blómstrandi mannlífinu sem þrífst á milli steypunnar og náttúrunni sem býr innra með okkur. Náttúra og borg stíga þannig léttan dans, stundum örlítið villtan, og það er mikil glaðværð og húmor í textanum sem veldur því að auðvelt er að hrífast með. Inn á milli er síðan tekist á við alvöruþrungin málefni á borð við söknuð, trega og sorg og þar er tónninn í ljóðunum vissulega þyngri. Allt spilar þetta þó vel saman, ljóðin kallast skemmtilega hvert á við annað og flæða vel. Það er sérstaklega gaman að kattaljóðunum sem finna má víða í bókinni, þar sem ljóðmælandi ýmist bregður sér í gervi kattar og slæpist þannig um götur borgarinnar eða hann fylgist með hverfisköttunum úr fjarska og veltir því fyrir sér hvað þeir séu eiginlega að bralla. Kattarlíkingin er snjöll: sjónarhornið í bókinni er einmitt sjónarhorn þeirrar sem, líkt og köttur, þekkir borgina og strætin eins og lófann á sér og þræðir einsömul fáfarnar slóðir – gatan er í fyrirrúmi og hin ýmsu skúmaskot borgarinnar til skoðunar. Eftirfarandi ljóðlína í ljóðinu „hvernig köttur segirðu?“ er skemmtilegt dæmi: „ég er kisan / sem röltir heim með rottu í kjaftinum / og veit að enginn hrósar henni fyrir drápið / verra gæti það verið“.

Bókin hefur að geyma á fimmta tug ljóða frá ólíkum tímaskeiðum í lífi höfundar og hefst á ávarpi til samtímans. Þetta er áhugavert byrjunarljóð, einlæg hugleiðing um stöðu skáldsins en þó á léttu nótunum, og undir lokin er vangaveltunum síðan hálfpartinn slegið upp í grín með setningunni „munið að þvo ykkur um hendurnar“. Hér eru sömuleiðis nokkrir meginþræðir bókarinnar kynntir til leiks, það er sjálfsmyndin og sjálfsskoðunin, sem og gangur tímans og tengsl okkar við fortíð og framtíð. Hvaða samtíð er það eiginlega sem ég ávarpa, spyr ljóðmælandi, og er hún kannski nú þegar orðin fortíð?

Uppbygging bókarinnar er vönduð og úthugsuð. Við upphaf hennar minnist ljóðmælandi uppvaxtar síns í borginni og æskunnar, um miðbikið er áherslan á ástina og hin ýmsu litbrigði mannlífsins, undir lokin hægist síðan á taktinum og hér eru það tíminn, aldurinn og sömuleiðis einsemdin sem eru í brennidepli. Þótt litið sé til fortíðar er tónninn þó ekki áberandi nostalgískur, það er ekki verið að syrgja æskuna heldur er aldrinum, og lífsreynslunni sem honum fylgir, tekið fagnandi. Þetta er ferskt sjónarhorn, ekki síst að því leyti sem það er afgerandi kvenlegt: sjónarhorn skrifandi konu, skálds, sem er reynslunni ríkari og lítur yfir farinn veg af skarpskyggni, ríku innsæi og óborganlegum húmor. Í mörgum ljóðum er síðan að finna skarpa samfélagsádeilu, þar sem meðal annars er talað á beinskeyttan máta gegn stóriðju, neyslusamfélaginu, meðferð flóttamanna hér á landi og sóun náttúruauðlinda. Þessi gagnrýni er ekki ný af nálinni en hún skilar sér vel í textanum.

Það er ævintýralegur bragur á ljóðunum og í þeim er að finna fjölmargar vísanir í þjóðsögur, vísur og kvæði sem er vandlega fléttað saman við samtímaleg málefni. Bókin á þannig í beinu samtali við hefðina og þetta gerir höfundur einstaklega vel. Í beittu ljóði sem ber titilinn „all dressed up and nowhere to go“ er kynjaður veruleiki fortíðarinnar dreginn fram með vísun í sjálfstæðisbaráttuna. Hér er það hafið sem aðskilur reynsluheim kvenna og karla: hún „bjó sig undir afmælið / tyllti sér á dranga og greiddi hárið / stakk í það ástarstjörnum og óskastjörnum og vonarstjörnum …“ en þeir, karlarnir, fagna á fjarlægri strönd hinum megin við hafið og syngja ættjörðinni lof.

Í gegnum bókina er ljóðmálið nokkuð hefðbundið og það verður að segjast sums staðar örlítið gamaldags (í ljóði um næturlífið í Reykjavík er t.a.m. talað um „tvo transa“ með „maskarann lekandi niður á kinnar / og lykkjufall“ en það er auðvitað óviðeigandi að vísa til transkvenna í karlkyni, fyrir utan að lýsingin er niðrandi og hefði allt eins mátt sleppa). Í heild má segja að tónninn í bókinni sé mjög í anda þeirrar kynslóðar sem fædd er upp úr 1950.

Þar sem malbikið endar er ævintýraleg ljóðabók í fallegri umgjörð, hlý og full af húmor. Þetta er skemmtileg og góð lesning, enda bókin vönduð og vel unnin. Hugrenningum um fortíð og samtíð er hér blandað saman við vangaveltur um samspil náttúru og borgar og að þessu er afar vel staðið. Í ljóðum sem eru allt frá því að vera gáskafull til þess að vera alvöruþrunginn dregur höfundur upp samtímalega mynd af borg sem, þrátt fyrir grámann og steypuna, er í senn litrík og lifandi og fjölskrúðugt mannlífið fær að blómstra.