Bræður Atli Hjálmar við leiði nafna síns og elsta sonar Björns, Hjálmars.
Bræður Atli Hjálmar við leiði nafna síns og elsta sonar Björns, Hjálmars.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Hjálmarsson fæddist 16. febrúar 1963 í Reykjavík en ólst upp í Kópavogi. Hann fór í sumardvalir í sveit í Sveinatungu í Norðurárdal hjá Birni Gíslasyni móðurafa sínum og Andrínu Guðrúnu Kristleifsdóttur móðurömmu

Björn Hjálmarsson fæddist 16. febrúar 1963 í Reykjavík en ólst upp í Kópavogi. Hann fór í sumardvalir í sveit í Sveinatungu í Norðurárdal hjá Birni Gíslasyni móðurafa sínum og Andrínu Guðrúnu Kristleifsdóttur móðurömmu.

Hann æfði margar íþróttir sem barn og unglingur. „Ég æfði körfubolta, handbolta og fótbolta, var lengst í fótbolta og kláraði 2. flokk í honum, var fyrst í Breiðabliki og síðustu þrjú árin í Fram. Ég var líka um tíma í badminton. Þegar ég byrjaði í læknadeildinni tvítugur þá fór ég úr allri skipulagðri íþróttastarfsemi.“

Björn hóf grunnskólagöngu í Ísaksskóla og síðar í Kársnesskóla og Þinghólsskóla í Kópavogi. Hann lauk stúdentsprófi frá MH, af náttúrufræðibraut. Hann útskrifaðist frá læknadeild HÍ. Hann nam barnalæknisfræði við Sophia-barnasjúkrahúsið í Rotterdam og tók smitsjúkdóma barna sem undirsérgrein. Eftir að Björn sneri heim frá framhaldsnámi tók hann MA-próf í heilbrigðis- og lífsiðfræði frá HÍ og nam barna- og unglingageðlækningar.

Björn hefur starfað sem læknir á Landspítala, á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, mörgum heilsugæslustöðvum, Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins. Undanfarin ár hefur Björn unnið á barna- og unglingadeild Landspítalans og verið þar yfirlæknir undanfarið ár. „Með yfirlæknisstarfinu hafa komið aukin stjórnunarstörf og ég sinni því hvoru tveggja í dag, klínískum störfum og stjórnunarstörfum.“

Helstu áhugamál Björns eru útivist, göngur og hlaup. „Við hjónin höfum klifið mörg íslensk fjöll, gengið á Kilimanjaro og farið upp í grunnbúðir Mount Everest. Við erum líka í heilsuskokki.“

Björn hefur lengi stundað skíðamennsku og á síðustu árum hefur hann tekið upp golfiðkun. Hann leikur á gítar og gekk nýverið í kórinn Söngfjelagið. „Ég hef fiktað mig sjálfur áfram á gítarnum heima og samið lög og texta. Minn helsti aðdáendahópur eru börnin undir fimm ára aldri. Svo gefur mér mikla gleði að vera í kórnum.“

Björn hefur lagt sig eftir ljóðlistinni og yrkir. Hans eftirlætisskáld eru Tómas Guðmundsson og Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. „Eftirfarandi ljóð er til dásamlegrar eiginkonu minnar, Dagnýjar Hængsdóttur, sem hefur staðið með mér eins og stoð og stytta í ólgudröfn sonarharms.“

Dagrenning

mæddur um myrkrið ég gekk

mætti ljúf dagrenning mér

björtustu fegurð ég fékk

fengurinn stóri með þér

hugfangin hjartans rós

ei heltekin ótta fyrr

mildi, hreinlyndi og hrós

hugurinn loksins varð kyrr

af styrk þínum varð ég smár

sönn markmið mín veistu ein

gróanda sáðir í sár

sem blæddu og urðu hrein

„Það er ómetanlegt fyrir okkur Dagnýju og börnin að endurnærast í sumarhúsi okkar í landi Munaðarness í Borgarfirði. Þar er ég kominn heim, heim til mín sjálfs.“

Fjölskylda

Eiginkona Björns er Dagný Hængsdóttir hjúkrunarfræðingur. Þau eru búsett í 105 Reykjavík. Foreldrar Dagnýjar eru hjónin Hængur Þorsteinsson, f. 3.2. 1938, tannlæknir í Reykjavík, og Hanna Lára Köhler, f. 31.7. 1943, fv. framkvæmdastjóri.

Fyrri eiginkona Björns er Herdís Haraldsdóttir, f. 25.3. 1963, grunnskólakennari.

Synir Björns og Herdísar: 1) Hjálmar, f. 8.2. 1986, d. 27.6. 2002, nemi í Hollandi; 2) Gísli, f. 25.5. 1991, flugmaður og veitingamaður, í sambúð með Berglindi Gunnarsdóttur grafískum hönnuði. Börn þeirra eru Kolbjörn og Matthildur; 3) Freyr, f. 4.7. 1995, sölumaður í sambúð með Nótt Aradóttur lögfræðingi. Sonur Björns og Dagnýjar er Atli Hjálmar, f. 9.7. 2008 og fóstursonur þeirra er Elvar Már Magnússon, f. 2.2. 2008, sonur Auðar, dóttur Dagnýjar.

Stjúpbörn Björns og börn Dagnýjar eru 1) Heimir Pálmason, f. 4.2. 1988, stjórnmálafræðingur, í sambúð með Lenku Fabian. Börn Heimis eru Malakai og Tristan; 2) Auður Pálmadóttir, f. 18.9. 1990, viðskiptafræðingur; 3) Hanna Tara Pálmadóttir, f. 21.8. 1999, sálfræðinemi, í sambúð með Alexander Snæ Stefánssyni.

Albræður Björns eru tvíburabróðirinn Ólafur, f. 16.2. 1963, hljóðverkfræðingur, Eiríkur, f. 9.11. 1964, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, og Helgi, f. 17.8. 1966, vélaverkfræðingur og framkvæmdastjóri Völku. Hálfsystur Björns eru, sammæðra, Vigdís Esradóttir, f. 22.2. 1955, fyrrverandi hótelhaldari í Bjarnarfirði á Ströndum, og, samfeðra, Dóra Hjálmarsdóttir, f. 11.10. 1957, rafmagnsverkfræðingur hjá Verkís.

Foreldrar Björns voru hjónin Hjálmar Ólafsson, f. 25.8. 1924, d. 27.6. 1984, kennari og konrektor í MH, formaður Norræna félagsins, og bæjarstjóri í Kópavogi 1962-1970, og Nanna Björnsdóttir, f. 2.3. 1931, d. 13.5. 2000, meinatæknir.