Skýrslur Matvælaráðherra segir að kominn sé góður grundvöllur að stefnumótun fyrir sjókvíaeldi á Íslandi.
Skýrslur Matvælaráðherra segir að kominn sé góður grundvöllur að stefnumótun fyrir sjókvíaeldi á Íslandi. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á sjókvíaeldi og skýrslu Boston Consulting Group um tækifæri á sviði lagareldis vera nægan grundvöll til að marka stefnu á sviði fiskeldis á Íslandi

Viðtal

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á sjókvíaeldi og skýrslu Boston Consulting Group um tækifæri á sviði lagareldis vera nægan grundvöll til að marka stefnu á sviði fiskeldis á Íslandi. Hún telur hins vegar ekki ástæðu til að grípa til eins umfangsmikillar vinnu og gert hefur verið til að móta stefnu í málefnum sjávarútvegsins.

„Þetta er alvarleg niðurstaða,“ segir Svandís, innt álits á úttekt Ríkisendurskoðunar, en stofnunin komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að eftirlit með íslensku sjókvíaeldi hefði verið brotakennt og veikburða. „Bent hefur verið á það sem lýtur að eftirliti og regluverkinu, hvernig það er byggt upp, en einnig er bent á að við þurfum að einhenda okkur í stefnumörkun fyrir Ísland varðandi uppbyggingu þessarar atvinnugreinar sem greinilega býr yfir miklum þrótti. Það þarf að tryggja að uppbygging hennar verði með sjálfbærum hætti.“

Spurð hvort hún telji umræddar ábendingar kalla á að stefna verði mótuð á sviði sjókvíaeldis á sambærilegan hátt og gert hefur verið fyrir sjávarútveginn undir merkjum „Auðlindarinnar okkar“, svarar Svandís: „Ég held við séum á allt öðrum stað í þeim efnum, vegna þess að við höfum í höndunum nýja skýrslu [Ríkisendurskoðunar] um hvernig hafi tekist til í stjórnsýslu, eftirliti og lagasetningu og jafnframt ítarlega úttekt um sóknarfæri lagareldis frá Boston Consulting Group. Þannig að ég tel okkur geta unnið tillögu að stefnu í málefnum sjókvíaeldis sem við getum birt í samráðsgátt stjórnvalda. Á meðan stefnumörkun í sjávarútvegsmálum lýtur að miklu leyti að þessari samfélagslegu sátt – þessum djúpstæða ágreiningi og tilfinningu fyrir að kerfið sé ekki réttlátt.“

Unnið að þýðingu

Tilkynnt var í ágúst á síðasta ári að útibú bandaríska ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting í Svíþjóð myndi annast skýrslugerð um tækifæri og áskoranir eldisgreina á Íslandi fyrir matvælaráðuneytið. Meðal annars var fyrirtækinu gert að skoða mótvægisaðgerðir vegna umhverfisáhrifa sjókvíaeldis hér á landi.

Skýrsla Boston Consulting átti að liggja fyrir í nóvember á síðasta ári en hefur enn ekki verið birt. Svandís kveðst hafa fengið skýrsluna í hendur en að verið sé að þýða hana á íslensku. „Þá höfum við tvö grundvallarplögg, annars vegar útlistun á því hver staðan er og hins vegar hvaða möguleika við eigum inn í framtíðina,“ útskýrir hún.

Skoða þurfi fjármögnun

Á grundvelli þeirra upplýsinga sem þegar hafa komið fram í úttekt Ríkisendurskoðunar sé ljóst hvaða verkefni liggi nú fyrir dyrum, segir Svandís. Telur hún sérstaklega mikilvægt að skoða fjármögnun eftirlitskerfisins og bendir á að rýna þurfi í hlutverk Fiskeldissjóðs og hvort hann hafi náð upphaflegum markmiðum sínum eins og stefnt var að með lögunum sem sett voru 2019. Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki og átti það einnig við markmið laganna sem sett voru 2014.

Svandís svarar því ekki beint hvort ríkisstjórn, Alþingi og embættismannakerfið hafi brugðist. „Ég held það sé alltaf farsælast að byrja á stefnumótun áður en farið er að koma upp regluverki og lagaumgjörð, en það breytir því ekki að við erum á þessum stað. Greinin hefur vaxið ört og umgjörðin hefur verið aðeins á eftir. Í einhverjum óskaheimi myndum við auðvitað byrja á stefnumótuninni, en við breytum þvi ekki úr þessu.“

Þá vekur hún einnig athygli á ábendingum Ríkisendurskoðunar er snúa að því að efla eftirlit. „Þar þurfum við að horfa til þeirra stofnana sem hafa skyldur í þeim efnum. Svo eru þarna ábendingar sem lúta kannski frekar að því að styrkja samtal og samráð milli stofnana og ráðuneyta. Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun – matvælaráðuneytið og umhverfisráðuneytið.“

Spurð hvort eflt eftirlit kalli á auknar fjárveitingar til þeirra verkefna í samræmi við ábendingar Ríkisendurskoðunar, svarar hún: „Ég tel að það þurfi að gera betur þar og í raun tel ég að grunnfjármögnun Hafrannsóknastofnunar þurfi að endurskoða frá öllum hliðum, ekki bara hvað varðar þennan þátt þar sem Hafrannsóknastofnun er að sumu leyti háð Umhverfissjóði fiskeldis til þess að vinna burðarþolsmat. Það er kannski ekki besta fyrirkomulagið. Þess utan þarf að skoða þætti sem snúa að vistkerfi sjávar í heild sinni frekar en fyrst og fremst nytjastofnunum. Það er meðal annars partur af þeirri heildarendurskoðun sem við erum með í gangi á sviði sjávarútvegsmála.“

Vaxi ekki nema sjálfbært

Ekki eru allir á einu máli um úttekt Ríkisendurskoðunar og hafa bæði stofnanir og fyrirtæki gert athugasemdir við einstakar ábendingar. Svandís segist ekki ætla að tjá sig á þessu stigi um einstakar athugasemdir. „Skýrsla Ríkisendurskoðunar liggur hjá Alþingi og formlegur framgangur málsins er þannig að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur skýrsluna til umfjöllunar. Nefndin hefur kallað ríkisendurskoðanda á sinn fund og næsta skref hjá nefndinni er að fá til sín fulltrúa ráðuneyta og stofnana til að reifa niðurstöður skýrslunnar.

Mér finnst mikilvægt að ég sé ekki að ganga inn í það verkefni á meðan nefndin vinnur sína vinnu. Ég hef sagt að í skýrslunni séu margar áhugaverðar ábendingar og ég tek við henni sem verkfæri til þess að gera betur.“

Almennt kveðst hún ánægð með stjórnsýsluúttektina. „Ég kýs að líta svo á að þetta sé gott tækifæri fyrir alla aðila – stjórnvöld, sveitarfélög, eftirlitsstofnanir og greinina sjálfa til að nema staðar og halda áfram með þeim hætti að greinin sé í sátt við umhverfi, samfélag og efnahag. Hún getur ekki haldið áfram að vaxa nema það sé gert með sjálfbærum hætti.“