Danssystur Anaile Rojas (t.v.) og Elísabet hlakka til að kenna salsa.
Danssystur Anaile Rojas (t.v.) og Elísabet hlakka til að kenna salsa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef saknað þess mikið frá því ég flutti norður árið 2018 að fara reglulega út að dansa salsa, en salsa er mikil ástríða hjá mér og ég var vön að dansa mikið bæði þegar ég bjó fyrir sunnan og í útlöndum

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég hef saknað þess mikið frá því ég flutti norður árið 2018 að fara reglulega út að dansa salsa, en salsa er mikil ástríða hjá mér og ég var vön að dansa mikið bæði þegar ég bjó fyrir sunnan og í útlöndum. Ég ákvað því að taka málin í mínar hendur og stofnaði fyrirtækið Salsa North núna í janúar til að bæta úr þessu,“ segir Elísabet Ögn Jóhannsdóttir en Salsa North fór af stað með byrjendanámskeið í salsa á Akureyri núna í febrúar og segir hún viðtökurnar hafa verið rosalega góðar.

„Ég gat ekki tekið við öllum sem vildu koma og til að anna eftirspurn ætla ég að vera með annað byrjendanámskeið í mars. Planið er að bjóða líka upp á framhaldsnámskeið í salsa,“ segir Elísabet og tekur fram að Anaile Rojas muni kenna með sér á fyrsta byrjendanámskeiðinu en Tinna Bjarnadóttir á því sem verður í mars og einnig á framhaldsnámskeiðum. Elísabetu fannst ekki nóg að bjóða upp á námskeið heldur vill hún líka vera með opin salsadanskvöld og hún er nú í samstarfi við Vamos, kaffihús og bar á Akureyri, um að þar verði salsakvöld á miðvikudögum.

„Þetta er hugsað fyrir Akureyringa og nærsveitunga, allt fólk á Norðurlandi sem langar að dansa og Vamos er fullkominn staður fyrir norðlensk salsakvöld.“

Tangó í Argentínu

Elísabet æfði ballett sem barn og færði sig svo yfir í samkvæmisdansa.

„Ég æfði samkvæmisdansa og féll alveg fyrir latneskum dönsunum, ég keppti í fimm ár, en hætti á unglingsárunum. Ég sá alltaf eftir því og þegar ég fór í frí til Mexíkó 2005 hitti ég salsadansara og ég dansaði og dansaði og fannst það alveg geggjað gaman. Ég fór svo á meira flakk, fór í skiptinám til Argentínu og lærði tangó þar, en það er annað ástríðuverkefni hjá mér, að bjóða seinna upp á tangókennslu hér fyrir norðan. Ég bjó líka í Dublin á Írlandi um tíma og var þar á salsanámskeiðum og þegar ég sneri aftur heim til Íslands fór ég að dansa með Salsa Iceland í Reykjavík, aðstoðaði á danskvöldum hjá þeim og tók þátt í starfinu.“

Fleiri konur á námskeiðinu

Elísabet segir að eftir að hún eignaðist fyrra barnið sitt hafi hún flutt til Danmerkur og farið þar í meistaranám.

„Þá fór dansinn um tíma í síðasta sæti hjá mér, en þegar ég kom heim og flutti til Akureyrar þá gafst tími til að dansa, en ég komst að því að lítið var í boði. Ég reyndi að koma einhverju sjálf af stað, stofnaði hóp á Facebook til að reyna að ná til annarra dansara og koma á laggirnar reglulegum danskvöldum, en ekkert gekk. Svo kom covid og ég eignaðist annað barn, en allt í einu núna var rétti tíminn,“ segir Elísabet og bætir við að hún hafi verið að leita að mjög reyndum dansherra sem gæti gert eitthvað með sér í dansinum.

Góður félagsskapur

„Ég gafst upp á þeirri hugmynd svo ég ákvað að fara sjálf í hlutverk dansherra, því það er miklu auðveldara að finna kvenkyns dansfélaga. Sem dansherra er ég sá aðili sem stýrir í dansinum. Ég bað Anaile Rojas vinkonu mína frá Venesúela, sem er frekar nýlega flutt hingað norður, að dansa við mig og við tvær höfum verið að dansa saman allan janúar og setja upp salsanámskeiðið okkar.

Það er alltaf frábært að hreyfa sig, en salsa er auk þess svo mikil næring fyrir sálina. Á dimmum vetrarmánuðum er yndislegt að hitta fólk þar sem allir eru með þann sameiginlega tilgang að hlusta á tónlist og dansa og hreyfa sig í takt við hana,“ segir Elísabet og tekur fram að þeir sem komi á salsanámskeið hjá henni þurfi ekki að vera með dansfélaga.

„Ef fólk vill koma og skrá sig saman á námskeið, þá er það ókynbundið, til dæmis er mjög algengt að tvær konur komi saman á salsanámskeið. Þá æfa þessir tveir aðilar saman, þannig að annar æfir að leiða dansinn og hinn æfir að fylgja. Hluta af tímanum dansa allir einir, æfa bæði grunnspor og hreyfingar, en síðan er dansað í pörum. Þá er ég oftast í miðjum hring og við skiptum um dansfélaga á nokkurra mínútna fresti, þannig að allir dansa við alla. Þetta skapar skemmtilega stemningu og mér finnst það gera mig að betri dansara. Mörgum finnst fyrst skrýtið að bjóða einhverjum sem þeir þekkja ekki upp í dans, en svo myndast menning í kringum þetta og góður félagsskapur, fólk kynnist og það verður góð tilfinning innan hópsins. Við leggjum áherslu á að allir komi fram af virðingu og að ekkert sé sjálfsagðara en að bjóða upp í dans, við viljum „normalísera“ það, því sumir dansa kannski bara á djamminu. Salsa er fyrir alla á öllum aldri og margir hafa verið að kalla eftir þessu lengi. Mér finnst frábært að fólk geti loksins farið að dansa og fengið útrás fyrir sína dansþörf, þetta er svo gott fyrir sál og líkama,“ segir Elísabet, sem einnig kennir eldri borgurum á Akureyri að dansa.