Fjármálamarkaður Félögin tvö sjá tækifæri til sóknar á markaðnum.
Fjármálamarkaður Félögin tvö sjá tækifæri til sóknar á markaðnum. — Morgunblaðið/Eggert
Vátryggingafélag Íslands (VÍS) og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka hafa ákveðið að hefja sameiningarviðræður. Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður VÍS, segir í samtali við Morgunblaðið að VÍS hafi lýst því yfir á síðasta aðalfundi og ítrekað aftur í janúar sl

Vátryggingafélag Íslands (VÍS) og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka hafa ákveðið að hefja sameiningarviðræður.

Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður VÍS, segir í samtali við Morgunblaðið að VÍS hafi lýst því yfir á síðasta aðalfundi og ítrekað aftur í janúar sl. að félagið hefði áhuga á að útvíkka starfsemina og taka frekari skref inn á fjármálamarkaðinn. Bæði til að fjölga tekjustofnum félagsins og til að gera VÍS að áhugaverðari fjárfestingarkosti á markaði. Hann segir þetta rökrétt og gott skref í þá átt.

Haraldur Þórðarson forstjóri Fossa segir í samtali við Morgunblaðið að ákveðin gerjun sé á fjármálamarkaði um þessar mundir sem kunni að leiða af sér áhugaverð sóknarfæri. „Undanfarin misseri höfum við unnið markvisst að því að efla starfsemi okkar, enda sjáum við mikil tækifæri í því að veita fjölbreyttari fjármálaþjónustu. Með sameiningunni verður til öflugt fjármálafyrirtæki í ákjósanlegri stöðu til að vaxa frekar í þessu umhverfi sem er á íslenskum fjármálamarkaði í dag,“ segir Haraldur.

Hann segir aðdragandann að sameiningarviðræðunum hafa verið tiltölulega stuttan. „Samkeppnisumhverfið á Íslandi er mjög „dýnamískt“ en jafnframt verður umgjörð fjármálamarkaðarins flóknari ár frá ári. Það er dýrt að reka bankakerfi í litlu hagkerfi og maður er sífellt að skoða hvaða kostir eru í stöðunni á hverjum tíma. Eftir að hafa ígrundað þetta sáum við að saman gæti þessi eining orðið sterk til sóknar á markaðnum.“

Gert er ráð fyrir að hluthafar Fossa fjárfestingarbanka fái 260 milljón nýja hluti í VÍS fyrir hlutabréf sín, sem nemur 13,3% hlutafjár í VÍS eftir hlutafjáraukningu. Það þýðir, miðað við núverandi gengi VÍS í Kauphöllinni, að Fossar eru metnir á um fimm milljarða króna.