Gönguleið Draugafoss í Staðará skammt frá Skeggjastöðum er tilvalin stikuð gönguleið skammt frá þjóðveginum.
Gönguleið Draugafoss í Staðará skammt frá Skeggjastöðum er tilvalin stikuð gönguleið skammt frá þjóðveginum. — Morgunblaðið/Líney
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Betri Bakkafjörður er verkefni á vegum Byggðastofnunar og tilheyrir Brothættum byggðum, byggðarlögum sem eiga undir högg að sækja. Nýlega var úthlutað styrkjum úr Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar. Að þessu sinni voru 8 milljónir til úthlutunar en…

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Betri Bakkafjörður er verkefni á vegum Byggðastofnunar og tilheyrir Brothættum byggðum, byggðarlögum sem eiga undir högg að sækja.

Nýlega var úthlutað styrkjum úr Frumkvæðissjóði Betri Bakkafjarðar. Að þessu sinni voru 8 milljónir til úthlutunar en alls voru þrettán verkefni styrkt og deilist upphæðin á þau. Verkefnin eru af ýmsum toga en eiga það sameiginlegt að stuðla að meginmarkmiðum Betri Bakkafjarðar sem eru sterkir samfélagsinnviðir, öflugt atvinnulíf, aðlaðandi ímynd Bakkafjarðar og skapandi mannlíf.

Dæmi um verkefni sem hlutu styrk er Stofutónleikar á Bjarmalandi en það er tileinkað hinu ástsæla skáldi Kristjáni frá Djúpalæk og kvæðum hans. Tónleikarnir verða haldnir í gamla húsinu Bjarmalandi sem stendur á túninu rétt við Djúpalækjarbæinn. Þar mun andi skáldsins Kristjáns svífa yfir æskuslóðum hans þegar tónlistarfólkið Kristín og Jonni flytja frumsamin lög við ljóð Kristjáns á komandi sumri.

Áhugafólk um sjósund hefur til einhvers að hlakka því styrkur var veittur bóndanum á Felli við Finnafjörð sem hyggst reisa sjósundsskýli en fjaran þar er ákjósanleg fyrir slíka iðkan. Efniviður verður rekaviður í landi Fells og er þar af nógu að taka og vinnur hann sjálfur efnið og smíðar.

Fleiri áhugaverð verkefni hlutu styrki en á heimasíðu SSNE (Samtaka sveitarfélaga um atvinnuþróun á Norðurlandi eystra) er hægt að kynna sér þau. Það er því bjart framundan á Bakkafirði eða eins og skáldið Jakob Jónasson frá Langanesströnd sagði í ljóði sínu:

… þannig brosir Bakkafjörður
við börnum sínum eins og fyrr.