Mosategund Rannsaka á útbreiðslu mosategundarinnar hæruburstar.
Mosategund Rannsaka á útbreiðslu mosategundarinnar hæruburstar.
Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlotið 1,8 milljóna króna styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til að rannsaka útbreiðslu mosategundarinnar hæruburstar, Campylopus introflexus. Verkefninu er stýrt af Pawel Wasowicz grasafræðingi

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlotið 1,8 milljóna króna styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til að rannsaka útbreiðslu mosategundarinnar hæruburstar, Campylopus introflexus. Verkefninu er stýrt af Pawel Wasowicz grasafræðingi.

Fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar að hæruburst sé innflutt mosategund sem hafi borist til Evrópu árið 1942 frá suðurhveli jarðar en hún er útbreidd í suðurhluta Suður-Ameríku og Afríku og hluta Ástralíu, auk eyja í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi. Hér á landi var staðfest að hæruburst hefði fundist í Mývatnssveit árið 1983 og í kjölfarið fannst hún víðar.

Rannsóknir, sem gerðar hafa verið í Evrópu, sýna að hæruburst getur haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika með því að mynda þéttar breiður sem kæfa staðbundinn gróður. Sýnt hefur verið fram á að hún veldur því að innlendum tegundum fækkar í þurru graslendi og furuskógum og hefur neikvæð áhrif á spírun innlendra plöntutegunda. Einnig hefur verið sýnt fram á að mosinn breytir tegundasamsetningu dýralífs á svæðum þar sem hann nær fótfestu.

Stofnunin segir, að ástæða sé til að gruna að hæruburst geti skaðað líffræðilegan fjölbreytileika á íslenskum jarðhitasvæðum og ógnað fágætum jarðhitavistgerðum. Engar birtar, ritrýndar vísindalegar rannsóknir séu þó til um hæruburst á Íslandi og aðeins hafi verið gerðar takmarkaðar athuganir á tegundinni. Fram til þessa hefur hæruburst eingöngu fundist á nokkrum stöðum á Reykjanesskaga, á Hengilssvæðinu, í Landmannalaugum og í Þingeyjarsveit. Engar birtar rannsóknir eru til um áhrif tegundarinnar á lífríki jarðhitasvæða.