Bardagar Úkraínskur hermaður skýtur hér af sprengjuvörpu í nágrenni Bakhmút, þar sem hart er barist.
Bardagar Úkraínskur hermaður skýtur hér af sprengjuvörpu í nágrenni Bakhmút, þar sem hart er barist. — AFP/Yasuyoshi Chiba
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, sagði í gær að mannfall rússneska hersins í Úkraínu væri næstum því jafnmikið og herir hefðu mátt þola í fyrri heimsstyrjöldinni, og að árangur sóknaraðgerða þeirra væri mældur í metrum en ekki kílómetrum. Þá áætlaði hann að um 97% af herstyrk Rússa væri bundinn við Úkraínu, og að um tveir þriðju af skriðdrekum þeirra hefðu ýmist skemmst eða eyðilagst.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, sagði í gær að mannfall rússneska hersins í Úkraínu væri næstum því jafnmikið og herir hefðu mátt þola í fyrri heimsstyrjöldinni, og að árangur sóknaraðgerða þeirra væri mældur í metrum en ekki kílómetrum. Þá áætlaði hann að um 97% af herstyrk Rússa væri bundinn við Úkraínu, og að um tveir þriðju af skriðdrekum þeirra hefðu ýmist skemmst eða eyðilagst.

Ummæli Wallace féllu í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC í gærmorgun, en þar sagði hann jafnframt að stuðningur Breta við Úkraínu drægi ekki úr öryggi Breta, þrátt fyrir fregnir þess efnis að breski herinn hefði gengið á eigin hergögn til þess að geta stutt við Úkraínumenn. „Að hjálpa Úkraínu að sigrast á Rússum í Úkraínu eykur í raun öryggi okkar,“ sagði Wallace.

Wallace sagði jafnframt að helsti óvissuþátturinn væri hvernig hægt væri að binda enda á stríðið, þar sem svo virtist sem að forseti og herráð Rússlands væru annað hvort víðs fjarri raunveruleikanum eða algjörlega skeytingarlausir um líf eigin hermanna.

Hið aukna mannfall skýrist að nokkru leyti af því að Rússar hafa síðustu daga reynt að herða nokkuð á sóknaraðgerðum sínum í austurhluta Úkraínu. Sagði herráð Úkraínuhers um helgina að mannfall Rússa vikuna á undan hefði að meðaltali verið 824 fallnir á dag. Þar af hefðu 1020 rússneskir hermenn verið felldir á mánudaginn, og væri það mesta mannfall þeirra á einum degi frá upphafi innrásarinnar.

Breska varnarmálaráðuneytið sagði fyrr í vikunni að það gæti ekki staðfest tölur Úkraínumanna, en að gögn Breta bentu til þess að mannfall Rússa væri mjög mikið. Sagði ráðuneytið jafnframt að mannfall Úkraínumanna væri einnig mikið. Bandaríska varnarmálaráðuneytið áætlar að mannfall Rússa frá upphafi innrásarinnar sé nú um 200.000 manns, þegar horft sé til bæði þeirra sem hafi fallið og særst. Eru það átta sinnum fleiri en féllu og særðust í herliði Bandaríkjamanna á rúmum tveimur áratugum í Afganistan.

Standast enn áhlaupið

Almennt er talið að sókn Rússa nú sé upphafið á stærri sókn, sem eigi að ná Donbass-héruðunum á vald Rússa fyrir lok mars-mánuðar. Sögðust Rússar í fyrradag hafa náð að brjótast í gegnum varnarlínur Úkraínumanna í Lúhansk á nokkrum stöðum, en Volodimír Selenskí Úkraínuforseti þrætti fyrir það og sagði í gær að Úkraínuher hefði náð að standa af sér sóknarlotur Rússa.

Selenskí tók í gær á móti Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svía, og sagði á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra að ástandið væri erfiðast í Bakhmút. „Það er ekki auðvelt fyrir hermenn okkar í austri, en þeir kalla það ekki „Bakhmút-virkið“ að ástæðulausu,“ sagði Selenskí. Kristersson hét áframhaldandi stuðningi Svía við Úkraínumenn.

Serhí Haídaí, héraðsstjóri Lúhansk, sagði að þrátt fyrir að Rússar væru nú að „dæla“ þungavopnum og nýþjálfuðum hermönnum í héraðið verðist herlið Úkraínu þeim enn sem komið væri. Sagði Haídaí að rússnesku hermennirnir kæmu í „bylgjum“ og nytu aðstoðar úr lofti. Væri sókn Rússa að þyngjast við Kreminna og Bilohorívka.

Senda hálft herfylki

Varnarmálaráðherrar vesturveldanna luku í gær tveggja daga fundi sínum, sem fór fram í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, staðfesti í gær að Þjóðverjar myndu senda hálft herfylki, eða 17 Leopard 2-orrustuskriðdreka til Úkraínu. Þar af koma þrír frá Portúgal.

Höfðu Þjóðverjar áður stefnt að því að senda um 30 slíka skriðdreka til Úkraínu, en Pistorius sagði að ekki hefði tekist að tryggja þann fjölda skriðdreka. Hins vegar væri það alveg öruggt af hans hálfu að skriðdrekarnir þýsku yrðu sendir til Úkraínu síðustu vikuna í marsmánuði. Þá yrði rætt við fleiri ríki síðar í þessari viku til að reyna að finna fleiri Leopard 2-skriðdreka, en Pistorius sagði að hann legðist gegn því að Hollendingar sendu 14 af sínum Leopard 2-skriðdrekum, þar sem þeim væri ætlað hlutverk í sameiginlegum varnarsveitum Hollands og Þýskalands.

Pólverjar ætla einnig að senda eitt herfylki af Leopard 2-skriðdrekum til Úkraínu, og Kanadaher hefur þegar sent nokkra slíka til landsins. Þá hétu Norðmenn því í fyrradag að þeir myndu senda átta af 36 skriðdrekum sínum til vígstöðvanna.

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði eftir fundinn að hann teldi að Úkraínumenn ættu góða möguleika á því að ná til sín frumkvæðinu í stríðinu og að nýta sér það. Sagði Austin að þau hergögn sem NATO-ríkin sendu núna í formi skriðdreka, vopna og skotfæra myndu færa Úkraínu mikið forskot í fyrirhugaðri gagnsókn þeirra í vor.

Ísland tekur þátt í stuðningi við Úkraínu

Kaupa eldsneyti og mat

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var fulltrúi Íslands á fundi varnarmálaráðherra NATO í Brussel, og tilkynnti þar um aukin framlög Íslands til kaupa á eldsneyti og matarbökkum fyrir úkraínska herinn, og nemur framlag Íslands um 261,6 milljörðum króna. Þórdís Kolbrún talaði einnig á fundinum fyrir því að innganga Svía og Finna yrði staðfest sem fyrst.

Varnarmálaráðherrar ríkja sem lagt hafa fjármagn til sjóðs um varnir Úkraínu, sem Bretar hafa forystu um að reka, hittust einnig í tengslum við fundinn. Samþykktu ráðherrar Bretlands, Hollands, Noregs, Svíþjóðar, Danmerkur, Íslands og Litháens um að senda úr sjóðnum rúmlega 200 milljón sterlingspund, eða sem nemur 34,6 milljörðum íslenskra króna, til Úkraínu. Ísland hefur veitt sem svarar þremur milljónum sterlingspunda til sjóðsins.

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, sagði að pakkinn væri hugsaður til kaupa á vígbúnaði fyrir úkraínska herinn, og að hann myndi styrkja stöðu Úkraínumanna umtalsvert.