Framtíðarsýn Svona sjá arkitektar fyrir sér hafnaraðstöðuna milli Torfunefs og Hofs. Falleg hönnun en látlaus.
Framtíðarsýn Svona sjá arkitektar fyrir sér hafnaraðstöðuna milli Torfunefs og Hofs. Falleg hönnun en látlaus. — Tölvumynd/Arkþing
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nágrenni miðbæjarins á Akureyri öðlast nýjan svip með þeim hafnarframkvæmdum þeim sem nú standa yfir. Gamla Torfunesbryggjan sem gekk út í Pollinn, beint fram af Kaupvangsstræti í Gilinu svokallaða, hefur verið rifin, enda var hún orðin ónýt og hættuleg

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nágrenni miðbæjarins á Akureyri öðlast nýjan svip með þeim hafnarframkvæmdum þeim sem nú standa yfir. Gamla Torfunesbryggjan sem gekk út í Pollinn, beint fram af Kaupvangsstræti í Gilinu svokallaða, hefur verið rifin, enda var hún orðin ónýt og hættuleg. Í framhaldi af því var hafist handa um jarðvegsframkvæmdir og uppfyllingu sem er ögn sunnar en fyrri bryggja stóð. Þar er einnig verið að slá niður stálþili fyrir viðlegukant sem verður um 150 metra langur.

„Þetta er mikil framkvæmd og verkefni sem var brýnt að hefjast handa um. Hafnsækin ferðaþjónusta hér á Akureyri hefur verið í miklum vexti síðustu árin sem krefst þess að aðstaða sem þarf sé sköpuð. Hægt verður að leggja hvalaskoðunar- og skemmtibáta að viðlegukantinum nýja og jafnvel allra minnstu skemmtiferðaskipum,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri á Akureyri, í samtali við Morgunblaðið.

Í notkun eftir tvö ár

Nýi viðlegukanturinn á Akureyri verður beint sunnan við menningarhúsið Hof og mun setja sterkan svip á allt umhverfið á þeim slóðum. Raunar er allt málið hugsað í stórri heild, því áformað er að á bryggjunni verði í framtíðinni reistar ýmsar byggingar vegna þjónustu við skemmtiskipin stór og smá, sem og bæjarbúa og aðra sem þarna eiga leið um. Þær framkvæmdir, sem áætlað er að kosti 500-600 milljónir króna, gætu hafist á næsta ári, því fyrst þarf jarðvegsfyllingin sem nú er verið að setja út að síga í hálft ár. Í framhaldi af því verður steypt þekja á bryggjugólfi og annað sem tilheyrir. Mannvirkið verður samkvæmt því komið í notkun árið 2025.

Tíðar komur skemmtiskipa

„Nýja bryggjan hentar vel fyrir til dæmis litlu skipin sem taka 150-200 farþega og eru notuð til dæmis í siglingar umhverfis Ísland. Fjölmörg slík skip sigla kringum Ísland ár hvert og þessi ferðamennska nýtur vaxandi vinsælda,“ segir Pétur Ólafsson. Alls er von á um 220 skemmtiferðaskipum til Akureyrar í sumar. Hið fyrsta er væntanlegt um mánaðamót mars og apríl en svo hefjast skipakomur nyrðra af þunga þegar nokkuð er liðið á maí. – Auk Akureyrar má nefna að alls eru 55 skemmtiferðaskip væntanleg að Grímsey í sumar – en þá munu þau lóna fyrir landi þangað sem farþegar verða fluttir með léttabátum. Sami háttur er hafður á í siglingum að Hrísey og Hjalteyri.