Pósturinn Endurgjaldið til handa Íslandspósti er greitt vegna alþjónustu við dreifingu pósts á óvirkum markaðssvæðum í dreifbýli og þéttbýli.
Pósturinn Endurgjaldið til handa Íslandspósti er greitt vegna alþjónustu við dreifingu pósts á óvirkum markaðssvæðum í dreifbýli og þéttbýli. — Morgunblaðið/Hari
Byggðastofnun hefur ákveðið að endurgjald Íslandspósts (ÍP) vegna alþjónustu á síðasta ári verði 665 milljónir króna, sem er rétt um hundrað milljónum króna hærri fjárhæð en ákveðið var að greiða Íslandspósti í fyrra vegna ársins 2021 en þá var fjárhæðin 563 milljónir króna

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Byggðastofnun hefur ákveðið að endurgjald Íslandspósts (ÍP) vegna alþjónustu á síðasta ári verði 665 milljónir króna, sem er rétt um hundrað milljónum króna hærri fjárhæð en ákveðið var að greiða Íslandspósti í fyrra vegna ársins 2021 en þá var fjárhæðin 563 milljónir króna. Ber ríkissjóði að greiða Íslandspósti þessa fjárhæð vegna hreins kostnaðar fyrirtækisins af veittri alþjónustu á síðasta ári.

Dreifing pósts á óvirkum markaðssvæðum

Fram kemur á vefsíðu Byggðastofnunar að í umsókn Íslandspósts hafi verið sótt um sanngjarnt endurgjald vegna dreifingar pósts á óvirkum markaðssvæðum í dreifbýli og þéttbýli auk tiltekinna póstsendinga fyrir blinda og sjónskerta, sem skulu vera gjaldfrjálsar samkvæmt ákvörðun sem tekin var á árinu 2020.

Lög um póstþjónustu kveða á um að allir landsmenn eigi rétt á alþjónustu sem uppfylli tilteknar gæðakröfur og sé á viðráðanlegu verði. Var Íslandspóstur útnefndur árið 2020 til að veita þessa alþjónustu en á móti á að tryggja fyrirtækinu sanngjarnt endurgjald ef sú þjónusta sem því er skylt að veita hefur í för með sér hreinan kostnað fyrir það.

615 milljónir vegna dreifingar með landpóstum

Endurgjaldið til Íslandspósts vegna alþjónustu á árinu 2022 skiptist þannig að tæpar 615 milljónir eru vegna dreifingar með landpóstum, 220 milljónir króna vegna dreifingar á óvirkum markaðssvæðum, 14 milljónir króna vegna dreifingar á blindrasendingum og ávöxtunarkrafa félagsins eða það sem nefnt er „réttur á sanngjörnum hagnaði“, sem reiknuð er 4,17%, nemur tæpum 32 milljónum króna. Til frádráttar koma hins vegar markaðsávinningur upp á 34,5 milljónir króna og endurmat upp á 181 milljón króna.

Í ítarlegri greinargerð sem fylgir ákvörðun Byggðastofnunar kemur fram að að óbreyttum lögum um póstþjónustu megi gera ráð fyrir að ríkið komi til með að þurfa að greiða framlag til alþjónustuveitanda á næstu árum.

Í umsókn ÍP segir að fyrirtækið hafi haft það að markmiði að halda áfram á þeirri vegferð að hagræða í rekstri sínum án þess að það komi niður á þjónustunni við þegna landsins.

„Markmiðið er að þjónustan færist í það horf að það verði póstbox og póstbíll á þeim stöðum á landinu þar sem því er hægt að koma við. Það eykur á sjálfvirkni og þannig telur ÍP sig vera að auka þjónustu við neytendur.“

Dreifa bréfum tvo daga í viku

Nefnd eru dæmi um aðgerðir sem gripið var til í fyrra, þ.á.m. að ákveðið var að byrja að dreifa bréfum tvo daga í viku í þéttbýli og dreifbýli. Pósthúsin á Hellu og Hvolsvelli voru leyst af hólmi með póstboxum og póstbílaþjónustu og póstafgreiðslum í Garðabæ og Mosfellsbæ var lokað, hólfum fjölgað í póstboxum o.fl. Þá var ákveðið að loka póstafgreiðslu á Hagatorgi í Reykjavík í janúar 2023. Ákvörðun var tekin um að leysa aðgengi að afgreiðslustað fyrir póstþjónustu í Grindavík, Skagaströnd og Kópaskeri með þéttara neti póstboxa og með póstbílaþjónustu og að áfram verði unnið að aukinni sjálfvirkni við vinnslu sendinga í Póstmiðstöð og að hraðari vinnslu sendinga o.fl. Þá sé haldið afram að greiða niður langtímalán en lánin standi í dag í um 600 milljónum kr.

Uppsafnaður sparnaður frá 2018 um 1.800 milljónir

„Til viðbótar við þessa upptalningu má nefna að uppsafnaður sparnaður félagsins vegna hagræðingaraðgerða frá árinu 2018 er í dag um 1.800 milljónir árlega ef eingöngu er horft til launakostnaðar,“ segir í umsókn Íslandspósts.