Æskan bjarta Þessu unga fólki hefur ekki orðið kalt, enda öll klædd í lopapeysur í miðborg Reykjavíkur á Menningarnótt 2010.
Æskan bjarta Þessu unga fólki hefur ekki orðið kalt, enda öll klædd í lopapeysur í miðborg Reykjavíkur á Menningarnótt 2010. — Morgunblaðið/Eggert
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og full ástæða til að hvetja hugmyndaríkt fólk til þátttöku í hönnunar- og prjónasamkeppni hinnar árlegu Prjónagleði. Hún verður haldin á Blönduósi 9.-11. júní í sumar

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og full ástæða til að hvetja hugmyndaríkt fólk til þátttöku í hönnunar- og prjónasamkeppni hinnar árlegu Prjónagleði. Hún verður haldin á Blönduósi 9.-11. júní í sumar. Ný not fyrir gamlar íslenskar lopapeysur er viðfangsefni keppninnar að þessu sinni, og gengur út á að endurvinna íslenska lopapeysu og nota hana sem grunnefnivið í nýja nothæfa flík. „Íslensku lopapeysurnar standa alltaf fyrir sínu, en þegar þær slitna eða eru ekki lengur nothæfar af einhverjum orsökum geta þær orðið spennandi efniviður í nýja hönnun og öðruvísi flík. Nú reynir á hugmyndaauðgi og verkkunnáttu þátttakenda til þess að skapa nýtt úr notuðu,“ segir í tilkynningu frá þeim sem standa fyrir Prjónagleðinni. Reglur keppninnar og upplýsingar um skil má nálgast á heimasíðu Textílmiðstöðvar Íslands: www.textilmidstod.is undir flipanum Prjónagleði. Dómnefnd velur þá keppendur sem hafna í þremur efstu sætunum. Úrslit verða kynnt á Prjónagleðinni 2023 og vegleg verðlaun afhent. Verk keppenda verða til sýnis meðan á hátíðinni stendur.