Í ferðaþjónustu af lífi og sál Hulda Jóna Jónasdóttir og Rúnar Óskarsson hjá Fjallasýn.
Í ferðaþjónustu af lífi og sál Hulda Jóna Jónasdóttir og Rúnar Óskarsson hjá Fjallasýn. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Atli Vigfússon Laxamýri

Atli Vigfússon

Laxamýri

Það er lítið um að vera í ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum yfir háveturinn og víða er lokað yfir „dauða tímann“ en svo hafa sumir nefnt þessa mánuði þegar minnst er um að vera. Gististaðir, hótel og veitingahús eru meira og minna lokuð og það er ekki fyrr en sól fer verulega að hækka á lofti að fólk sér sér hag í því að hafa opið. Í Mývatnssveit voru miklar lokanir sl. haust og sama var upp á teningnum annars staðar. Af þessu hafa margir áhyggjur og velta því fyrir sér hvernig megi gera vetrarferðir eftirsóknarverðar inn á svæðið.

„Það var áfall í haust að heyra hversu margir ætluðu að loka og það er eins og að fara aftur í tímann. Austan Vaðlaheiðar er mjög litla þjónustu að fá en það er auðvitað skiljanlegt að ekki geti allir haft opið á þessum erfiða árstíma. Þjónustan byrjaði að falla strax í október og það er ekki fyrr en núna í febrúar sem sumir opna. Almennt séð er litla þjónustu að hafa í nokkra mánuði.“ Þetta segir Rúnar Óskarsson hjá Fjallasýn sem er ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur haft ákveðið frumkvæði í vetrarferðamennsku allt frá árinu 1990.

„Það þarf mikið úthald til þess að vinna að því að fá fólk til þess að koma í vetrarferðalög og það er ljóst að það verður ekki mikil umferð hér á Norðausturlandi nema til komi meira beint flug inn á svæðið, þ.e. til Akureyrar og einnig til Egilsstaða. Flestir koma til Keflavíkur þegar þeir koma til landsins og þeir ferðamenn eru almennt ekki að skila sér norður í Þingeyjarsýslur á þessum tíma árs,“ segir Rúnar en bætir því við að verið sé að reyna ákveðna hluti og t.d. verður beint flug til Akureyrar með farþega frá Hollandi næstu 5 helgar. Hann fagnar líka tilkomu Niceair en gallinn er sá, að hans sögn, að það flugfélag hefur ekki enn getað flogið til Bretlands en breskir ferðamenn hafa verið duglegir að sækja Ísland heim.

Vetrarfegurð er heillandi heimur

Fyrirtækið Fjallasýn í Reykjahverfi var stofnað af Rúnari og konu hans Huldu Jónu Jónasdóttur fyrir fjörutíu árum og allt byrjaði þetta með skólaakstri í sveitinni. Smám saman jókst starfsemin og þau hjón fóru að skoða fleiri möguleika. Fljótt varð til bíll til farþegaflutninga sem Rúnar smíðaði sjálfur og fjallaferðir urðu vinsælar. Nú er fyrirtækið með yfir 20 bíla af ýmsum gerðum og á stórum dögum á annatímanum eru allt að 30 manns að störfum á vegum þess.

Boðið er upp á ferðir um land allt fyrir hópa af öllum stærðum. Þar má m.a. nefna skutlþjónustu sem er í boði og þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa sem og aðra ferðamenn er vilja skoða sig um.

Vetrarferðirnar byrjuðu upp úr 1990 og það var, að sögn Rúnars, mikið högg þegar innanlandsflug til Húsavíkur lagðist af árið 1999 og ákveðin sambönd rofnuðu. Á þessum árum bauð Fjallasýn upp á skoðunarferðir á jeppum, skíðum og snjósleðum. Skoðaðir voru merkir staðir, farið á dorg, skoðað í útihús hjá bændum svo eitthvað sé nefnt. Hann segir það sé hægt að selja dreifbýlið á margan hátt og trúir því enn að eitthvað verði upp á við í þessum málum. Hann segir að óskastaðan sé sú að í framhaldi af ferðasumrinu komi hingað hópar af skólafólki bæði frá Bretlandi og meginlandinu til þess að fræðast um mannlíf og náttúru. Þá séu eldri borgarar líka góður markhópur. „Hér er frábært umhverfi, mikil náttúrufegurð og gríðarlegt víðsýni. Okkar opna landslag er annar og heillandi heimur fyrir þetta fólk,“ segir Rúnar sem er hugsi yfir því hvernig eigi að gera þetta sem best.

Margir möguleikar í stöðunni

Hann telur að fyrirtækið Fjallasýn væri betur staðsett í Keflavík eins og staðan er í dag. Hins vegar hefur hann lagt mikið upp úr því að markaðssetja fegurð Þingeyjarsýslna sem eru hans heimabyggð og fáir þekkja svæðið betur. Honum finnst að landið austan Vaðlaheiðar sé jaðarbyggð að vissu marki en þrátt fyrir það séu möguleikarnir miklir. Hann segir að „dauði tíminn“ geti orðið allt að 6 mánuðir þegar verst lætur. Þetta er erfitt þegar kemur að mannahaldi og verið er að reyna að leysa hlutina með snjómokstri og skólaakstri að vetrinum til þess að halda í gott starfsfólk. Fjallasýn hefur getið sér gott orð fyrir góða bíla og vel útbúna. Þá eru hreinir bílar, að utan sem innan, ákveðið vörumerki fyrirtækisins. Hann segir að það felist mikil ábyrgð í því að aka með fólk og vera þátttakandi í því að gera ferðalög ánægjuleg og minnisverð.

„Mér hefur alltaf fundist gaman að gera fólki greiða og það flyst yfir á þessa gesti okkar sem eru ferðamennirnir. Það gefur mér ákveðna orku að standa í þessu og alla daga er ég að hugsa um hvernig við getum tekið sem best á móti fólki sem vill fara hér um sýslurnar og njóta umhverfisins,“ segir Rúnar sem dregur ekkert undan því að ein helsta áskorun ferðaþjónustunnar sé að dreifa ferðamönnum um landið. Honum finnst, eins og mörgum, alltof fáir ferðamenn á ferli yfir vetrarmánuðina í Þingeyjarsýslum. Hann segir að það yrði öllum til góðs að jafna álagið og því vill hann róa að því öllum árum að auka umferðina til Norðausturlands.