Gerði samkomulag Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari skrifaði undir samkomulagið við Eflingu fyrir hönd embættis síns, fyrir réttri viku.
Gerði samkomulag Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari skrifaði undir samkomulagið við Eflingu fyrir hönd embættis síns, fyrir réttri viku.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is Samkomulag sem ríkissáttasemjari gerði við Eflingu, um að una niðurstöðu Landsréttar í innsetningarmáli embættisins gegn Eflingu og skuldbinda sig til að kæra niðurstöðuna ekki til Hæstaréttar, er óskuldbindandi fyrir Hæstarétti.

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Samkomulag sem ríkissáttasemjari gerði við Eflingu, um að una niðurstöðu Landsréttar í innsetningarmáli embættisins gegn Eflingu og skuldbinda sig til að kæra niðurstöðuna ekki til Hæstaréttar, er óskuldbindandi fyrir Hæstarétti.

Kristín Benediktsdóttir, dósent í réttarfari við lagadeild Háskóla Íslands, staðfestir þessa túlkun laganna í samtali við Morgunblaðið.

Samkomulagið gerði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari fyrir hönd embættisins, áður en Landsréttur kvað upp úrskurð sinn.

Lög um meðferð einkamála

Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, má ekki afsala sér rétti til að skjóta máli til Hæstaréttar fyrr en niðurstaða Landsréttar liggur fyrir.

Nánar tiltekið segir í ákvæðinu: „Afsal á rétti til málskots til Hæstaréttar, hvort heldur berum orðum eða þegjandi, verður ekki gefið fyrr en dómur er genginn í máli.“

Þessi regla gildir einnig í kærumálum sem varða aðför eða beina innsetningu eins og í þessu máli, samkvæmt öðrum ákvæðum sömu laga og einnig laga um aðför.

Fært í gerðarbók sýslumanns

Landsréttur hafnaði á mánudag kröfu ríkissáttasemjara í innsetningarmáli embættisins gegn Eflingu, um að fá afhenta kjörskrá félagsins, vegna miðlunartillögu sem embættið hafði sett fram.

Í aðdraganda úrskurðarins, fimmtudaginn 9. febrúar, skrifuðu forsvarsmenn Eflingar og ríkissáttasemjara undir samkomulag þar sem báðir aðilar skuldbundu sig til þess að una úrskurði Landsréttar, hver sem hann yrði. Var samkomulagið sömuleiðis fært í gerðarbók sýslumanns.

Ríkissáttasemjari hafði þó ekki heimild til þess, lögum samkvæmt, að afsala sér kærurétti til Hæstaréttar. Samkomulagið er með öðrum orðum óskuldbindandi fyrir aðila, að sögn Kristínar. Embætti ríkissáttasemjara er því fullfrjálst að reyna að kæra niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar.

„Hitt er annað mál að það tekur tíma að fá dóm Hæstaréttar í málinu. Kæruleyfi er sótt samhliða kæru og verður það að gerast innan tveggja vikna frá því úrskurðurinn féll í Landsrétti,“ segir Kristín.

Gæti tekið 3-4 vikur

„Þá hefur gagnaðilinn eina viku til að skila greinargerð. Það þarf að leggja mat á kæruleyfið og ef fallist er á það verður munnlegur málflutningur. Ber Hæstarétti í framhaldinu að kveða upp dóm í málinu eins fljótt og kostur er. Þetta gæti því tekið þrjár til fjórar vikur, ef allt gengur upp.“

Morgunblaðið spurði Ástráð Haraldsson, settan ríkissáttasemjara í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, að kvöldi þriðjudags, hvort hann teldi sig skuldbundinn af samkomulaginu. Kvaðst hann eiga eftir að skoða málið.