Verkföll Jóhannes Þór segir að ekki sé hægt að láta nýkomna gesti þrífa eftir þá sem voru á hótelherberginu á undan þeim. Margir gætu lent í vandræðum.
Verkföll Jóhannes Þór segir að ekki sé hægt að láta nýkomna gesti þrífa eftir þá sem voru á hótelherberginu á undan þeim. Margir gætu lent í vandræðum. — Morgunblaðið/Eggert
Jó­hann­es Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar, telur mögulegt að hátt í tvö þúsund ferðamenn verði án gistingar um helgina en verkföll hótelstarfsmanna Berjaya-hótela og Reykjavík Edition hófust á hádegi í gær

Jó­hann­es Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar, telur mögulegt að hátt í tvö þúsund ferðamenn verði án gistingar um helgina en verkföll hótelstarfsmanna Berjaya-hótela og Reykjavík Edition hófust á hádegi í gær.

„Bók­un­arstaðan er al­mennt góð á hót­el­um og bara á Berjayja eru þúsund her­bergi svo dæmi sé nefnt,“ seg­ir Jó­hann­es Þór, og tekur fram að ekki sé hægt að bjóða gestum sem séu nýkomnir á hótelin að þrífa eftir þá sem dvöldu á undan þeim í herbergjunum.

„Ef við horf­um bara á helg­ina má áætla að þetta séu 1.000 til 2.000 manns sem verði í vand­ræðum ef miðað er við bók­un­ar­stöðu,“ seg­ir hann og bætir við að talan gæti hækkað upp í 4.000 eftir helgi.

Eldsneytisbirgðir klárast

Verkföll olíubílstjóra í Eflingu sem vinna hjá Samskipum, Skeljungi og Olíudreifingu hófust einnig á hádegi í gær. Eldsneytisbirgðir voru á þrotum á þónokkrum bensínstöðvum og virtist díselolía vera að klárast á undan bensíni.

Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og SA, boðaði fund klukkan níu í gærmorgun í Karphúsinu. Fundir stóðu yfir mest allan daginn en þegar blaðið fór í prent var enn setið við fundarborðið.

„Við erum að horfa upp á sam­fé­lagið verða fyr­ir tjóni á hverj­um ein­asta degi núna. Það er að aukast með því verk­falli sem hófst í dag. Það vilj­um við öll sem sam­fé­lag stöðva, sem allra fyrst. Það er eng­inn sem græðir á þeim til lengri tíma litið,“ sagði Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, í gær.

Línurnar ekki skýrar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var vongóð og sagðist hafa trú á því að verkfallsaðgerðirnar myndu skila betri niðurstöðum, en verkföll séu til að knýja á um betri samninga.

Undanþágunefnd Eflingar fundaði einnig í Karphúsinu í gær en Sólveig Anna fer fyrir nefndinni. Að því er fram kom í tilkynningu Eflingar voru allar beiðnir um verkfallsundanþágur vegna almannaöryggis veittar. Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, segir eftir eigi að skýra línurnar um hvernig eigi að þjónusta þá sem hafa fengið undanþágu. Aðspurð kvaðst Sólveig Anna ekki vita um neina hnökra sem komið hefðu upp. Þá vildi hún ekki gefa upp hvort undanþágur yrðu veittar fyrir matvöruverslanir.